Undirbúningur Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri segir að Eiðistorg hafi fengið þarfa yfirhalningu fyrir heimsóknina.
Undirbúningur Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri segir að Eiðistorg hafi fengið þarfa yfirhalningu fyrir heimsóknina. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta verður eitt af síðustu verkum forsetans í embætti og við erum alsæl að fá þau hjónin hingað. Það verður gaman að fá þau í heimsókn,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta verður eitt af síðustu verkum forsetans í embætti og við erum alsæl að fá þau hjónin hingað. Það verður gaman að fá þau í heimsókn,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú koma í opinbera heimsókn á Seltjarnarnes í dag. Tilefnið er 50 ára kaupstaðarafmæli bæjarins og verður þeim tímamótum fagnað með þéttri dagskrá. Forsetahjónin verja öllum deginum í bænum og fá að kynnast lífi og störfum íbúa þar. Guðni og Eliza þekkja reyndar ágætlega til Seltjarnarness því þau voru búsett þar í nokkur ár áður en Guðni var kjörinn forseti árið 2016.

„Já, þau eru auðvitað gamlir íbúar hér og reyndar hafa tveir síðustu forsetar landsins komið af Seltjarnarnesi. Hver veit hvað gerist næst,“ segir Þór bæjarstjóri.

Andleg næring í pottinum

Dagurinn verður tekinn snemma í dag því Guðni og Eliza ætla að skella sér í heita pottinn með Þór og öðrum fastagestum í Sundlaug Seltjarnarness.

„Ég hef ekki vitneskju um að opinber heimsókn þjóðarleiðtoga hafi áður hafist í heitum potti í almenningssundlaug klukkan 7.40 að morgni. Það er kannski pínulítið öðruvísi en lýsir því vel hversu alþýðleg þau eru,“ segir bæjarstjórinn sem sjálfur getur ekki hugsað sér að sleppa pottaferðinni hvern morgun. „Þarna fær maður andlega næringu og þarna eru öll alvöru mál gerð upp. Í pottinum er manni líka haldið á sporinu, passað upp á að maður haldi sig á réttri leið,“ segir hann og glottir.

Að lokinni pottaferð heimsækja forsetahjónin skrifstofur bæjarins og Guðni ávarpar hátíðarfund bæjarstjórnar. Þá verður haldið í Mýrarhúsaskóla þar sem farin verður karnival-afmælisganga að Valhúsaskóla undir stjórn lúðrasveitar tónlistarskólans. Forsetahjónin heimsækja einnig leikskóla bæjarins og munu leikskólabörnin syngja fyrir þau. Því næst tekur við heimsókn í Innovation House á Eiðistorgi og bókasafn bæjarins þar sem verður opnuð sýning um sögu sveitarfélagsins. Guðni ávarpar gesti á stuttri málstofu við þetta tilefni. Þór bæjarstjóri fer þessu næst í bíltúr með forsetahjónin um Nesið og meðal áfangastaða eru Seltjarnarneskirkja, verslunin Elley og listaverkið Bollasteinn sem nýtur mikilla vinsælda á sumrin. Ef veður leyfir verður farið út í Gróttu.

Eftir hádegisverð í Ráðagerði heimsækja forsetahjónin hjúkrunarheimilið Seltjörn, fyrirhugað Náttúruhús og Nesstofu. Um miðjan dag verða þau viðstödd þegar Víkingur Heiðar Ólafsson vígir nýjan konsertflygil við Tónlistarskóla Seltjarnarness og þaðan verður haldið í heimsókn til eldri bæjarbúa. Þá tekur við innlit í íþróttahúsið áður en haldið er á Eiðistorg á sjálfa afmælishátíðina. Meðal þeirra sem koma fram eru Jóhann Helgason, Bubbi Morthens, Jón Jónsson og þau Helgi Hrafn Jónsson og Tina Dickow.

„Við erum svo lánsöm að hér býr mikið af hæfileikaríku fólki. Því miður býður dagskráin ekki upp á að koma öllum að,“ segir Þór um afmælisdagskrána. Síðustu vikur hefur verið unnið að viðhaldi, þrifum og endurbótum fyrir heimsóknina, meðal annars á Eiðistorgi sem Þór segir að hafi tekið stakkaskiptum.

„Þetta er ekkert öðruvísi en þegar þú færð fólk í heimsókn til þín heima. Þá viltu mála, þrífa og gera fínt,“ segir bæjarstjórinn sem sjálfur hefur tekið ríkan þátt í undirbúningnum og gengið í öll verk, stór sem smá. „Á sveitaheimilinu ganga menn í öll störf,“ segir hann í léttum dúr.

Enginn bilbugur á bæjarbúum

Byggð á Seltjarnarnesi er talin vera frá þjóðveldisöld en athafna manna í Seltjarnarneshreppi hinum forna er fyrst getið árið 1851, eins og segir í upprifjun á heimasíðu bæjarins. Seltjarnarneshreppur hinn forni náði yfir allt nesið sem liggur milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla. Hinn 29. mars 1974 voru samþykkt lög frá Alþingi um kaupstaðarréttindi Seltjarnarness. Formlegur stofndagur kaupstaðarins taldist undirskriftardagur laganna sem var 9. apríl 1974.

Bæjarstjórinn segir aðspurður að andleg heilsa sveitarfélagsins sé mjög góð á þessum tímamótum þótt fjárhagsstaðan mætti vera betri. „Við eigum nóg eftir og nóg inni. Þetta sveitarfélag er byggt á gömlum grunni og Seltjarnarneshreppur er einn af elstu hreppum landsins, frá 1875. Gott ef Ingólfur var ekki með minnst aðra öndvegissúluna hérna. Við höfum þurft að takast á við smá skell vegna myglu og fleiri mála. Það er þó engan bilbug á okkur á að finna og við sjáum til sólar.“