3 Body Problem Spennuþættir fyrir vitsmunalíf.
3 Body Problem Spennuþættir fyrir vitsmunalíf. — Netflix
Frægt er þegar Guð felldi Babelsturninn af annáluðu skopskyni, gagngert til þess að rugla í mannkyni. Meðal nýjasta efnis á Netflix er mögnuð þáttaröð, sem óhætt er að mæla með. 3 Body Problem (Þríagnavandinn) fjallar í stuttu máli um að verur frá…

Andrés Magnússon

Frægt er þegar Guð felldi Babelsturninn af annáluðu skopskyni, gagngert til þess að rugla í mannkyni.

Meðal nýjasta efnis á Netflix er mögnuð þáttaröð, sem óhætt er að mæla með. 3 Body Problem (Þríagnavandinn) fjallar í stuttu máli um að verur frá öðru sólkerfi undirbúa ferð til Jarðar og undirbúa jarðveginn með því að rugla í gestgjöfunum, kollvarpa eðlisfræðilegum forsendum heimsmyndar okkar, vísinda og tækni.

Þættirnir eru gerðir eftir metsölubókum kínverska vísindaskáldsagnahöfundarins Liu Cixin, en sögusviðið að miklu flutt frá Kína til Bretlands, til þess að höfða betur til Vesturlandabúa. Margar lykilpersónur eru þó af kínversku bergi brotnar, en í upphafi þáttanna er ákaflega áhrifaríkt atriði úr menningarbyltingunni í Kína 1966. Sú villimennska kommúnismans reynist skipta sköpum fyrir mannkyn.

Þættirnir eru ekki hefðbundin geimsápa, byggðir upp eins og rannsóknarlögregluþættir með hasar í bland, en það er hinn eðlisfræðilegi þáttur sem gera þá bæði forvitnilegri og framandi. Vekja spurningar um hvernig vitsmunaverur utan úr geimi með margfalt þróaðri tækni gætu leikið okkur og hvort við gætum náð þeim.

Höf.: Andrés Magnússon