Þór Sigurgeirsson
Þór Sigurgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til hamingju með afmæli bæjarins okkar, kæru Seltirningar. Bærinn okkar ber aldurinn vel.

Þór Sigurgeirsson

Fyrir réttum 50 árum, hinn 9. apríl 1974, fékk faðir minn nýtt starf. Hann varð bæjarstjóri nýstofnaðs Seltjarnarneskaupstaðar sem þá hlaut kaupstaðarréttindi.

Pabbi hafði áður gegnt stöðu sveitarstjóra Seltjarnarneshrepps allt frá árinu 1965. Þarna var ég sjálfur sjö ára drengur og hafði ekki minnstu hugmynd um að dag einn yrði ég einnig bæjarstjóri í sama bæ, heimabænum Seltjarnarnesi.

Nú er liðin hálf öld og á stórafmælum er gaman að líta til fortíðar og skoða aðdraganda kaupstaðarréttindanna og hver voru helstu rökin fyrir umsókn í þá daga. Alþingi þurfti að setja lög um kaupstaðarréttindi.

Í fallegri og vel ritaðri Seltirningabók frá árinu 1991, ritaðri af Heimi Þorleifssyni sagnfræðingi, kemur fram að árið 1972 fór hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps fyrst að skoða möguleikann á umsókn um að breytast úr hreppi eða sveit í bæ.

Í júní árið 1973 var haldinn sérstakur hátíðarfundur hreppsnefndar Seltjarnarness. Þessi fundur var númer 900 í sögu hennar en saga Seltjarnarneshrepps nær allt aftur til ársins 1875. Fyrir fundinum lá eftirfarandi tillaga: „Hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps, Kjósarsýslu, samþykkir að óska eftir kaupstaðarréttindum Seltjarnarneshreppi til handa.“

Þá voru íbúar um 2.500 talsins. Helstu rök umsóknar voru að ekki þyrfti þá lengur að sækja um langan veg með ýmis erindi og viðvik og þjónustu. Var þar sérstaklega minnst á Hafnarfjörð, en þar var sýslumaður með skrifstofu fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu. Einnig var umsókn um kaupstaðarrétt talin undirstrika þann eindregna vilja Seltirninga að vilja alls ekki sameinast öðru sveitarfélagi og var þar átt við Reykjavík.

Í janúar árið 1974 hóf hreppsnefnd undirbúning kaupstaðarréttinda með ákvörðun um fjölgun hreppsnefndarfulltrúa úr fimm fulltrúum í sjö við næstu kosningar.

Á vikunum á eftir lá kaupstaðarréttindamálið fyrir félagsmálanefnd Alþingis og hinn 29. mars 1974 voru lögin um kaupstaðarréttindi Seltjarnarness samþykkt. Alþingi fól hreppsnefnd að stýra kaupstaðnum til bráðabirgða þar til lögin tækju gildi. Lögin voru síðan undirritið 9. apríl 1974, sem telst því formlegur stofndagur Seltjarnarneskaupstaðar.

Fyrstu bæjarstjórn Seltjarnarness, sem tók til starfa hinn 12. júní árið 1974, skipuðu af hálfu Sjálfstæðisflokks:

Snæbjörn Ásgeirsson, Karl B. Guðmundsson (forseti), Magnús Erlendsson, Sigurgeir Sigurðsson og Víglundur Þorsteinsson. Njáll Þorsteinsson af hálfu Framsóknarflokks og Njáll Ingjaldsson af hálfu vinstrimanna. Allt frumkvöðlar sem byggðu bæinn upp og við njótum ríkulega góðs af í dag á svo mörgum sviðum.

Sigurgeir Sigurðsson, sem gegnt hafði starfi sveitarstjóra frá árinu 1965, var kjörinn fyrsti bæjarstjóri Seltjarnarness. Hann gegndi því embætti allt til ársins 2002 er hann lét af embætti. Enginn hér á landi hefur gegnt stöðu sveitar- og bæjarstjóra lengur en Sigurgeir eða í tæp 40 ár.

Stöðu bæjarstjóra Seltjarnarness hafa á þessari hálfu öld, auk Sigurgeirs föður míns, gegnt þau Jónmundur Guðmarsson 2002-2009 og Ásgerður Halldórsdóttir 2009-2022. Sá sem þetta ritar tók við embættinu árið 2022.

Núverandi bæjarstjórn er sú tólfta í röðinni á þessari hálfu öld sem liðin er frá 1974.

Seltjarnarnesbær telur nú rösklega 4.800 íbúa og verður þegar Nesið verður talið fullbyggt um 5.500 íbúar en um 200 íbúðir eru nú í byggingu í Gróttubyggð og skipulag á miðbæjarsvæði er fram undan.

Gæfa okkar íbúa er að búa í náttúruperlu sem er sannarlega sveit í bæ, en eins og landsmenn allir vita er ekkert fegurra en sólarlag við Gróttu.

Til hamingju með afmæli bæjarins okkar, kæru Seltirningar. Bærinn okkar ber aldurinn vel og okkar allra er að njóta og viðhalda þeim gæðum sem við búum við.

Heill Seltjarnarnesbæ á þessum tímamótum.

Höfundur er bæjarstjóri Seltjarnarneskaupstaðar.