Finnbogi Ingi Ólafsson fæddist 16. desember 1968. Hann lést 19. mars 2024.

Útför hans fór fram 4. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi minn.

Það eru ekki margir eins og hann, sem fara í gegnum lífið og kveðja þennan heim án þess að hafa gert neitt rangt í lífinu.

Allir þeir sem eiga einhver kynni af pabba vita hversu einstakur maður hann var. Hann var með hina mestu þolinmæði, hlýjasta hjartað, bestu nærveruna, alltaf í góðu skapi og algjör þúsundþjalasmiður.

Að vera dóttir hans var minn stærsti lottóvinningur í þessu lífi. Ég á ekki eina slæma minningu úr æsku og fékk ekkert nema ást, umhyggju og athygli.

Pabbi vann mikið á sjó þegar ég ólst upp, þrátt fyrir það man ég ekki til þess að hann hafi verið mikið í burtu. Því þegar hann var heima gaf hann sig allan í okkur fjölskylduna. Bjó til óteljandi minningar með okkur systkinum og sýndi okkur alltaf hvað við skiptum hann miklu máli.

Pabbi var mín stoð og stytta. Hann tók mig með sér á sjóinn, kenndi mér að hjóla, skauta, veiða og svo lengi mætti telja. Hann málaði herbergið mitt í nýjum lit oftar en ég hef tölu á, skutlaði mér og sótti (vinina líka) sama hvaða tíma sólahrings, hjálpaði mér með allt hér heima, spjallaði við mig tímunum saman, hjálpaði mér með börnin og hrósaði mér fyrir alla litlu hlutina sem og stóru. Ef eitthvað var að, þá var það bara heyra í pabba – þá varð allt betra.

Aldrei hef ég fundið frá pabba annað en að allt sem hann hefur gert fyrir mig og aðra sé annað en meira en sjálfsagt.

Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn átti ég ekki von á öðru en að hann yrði jafn frábær afi og hann er pabbi. Það sýndi sig svo og sannaði, hann gaf börnunum mínum alla sína athygli, ást og tíma. Hann lét það ekki stoppa sig þótt hann væri fárveikur í meðferðum í að eyða tíma með þeim. Og þakkaði mér oftar en ég hef tölu á að hafa gefið honum barnabörnin. Þau eiga eftir að sakna hans mikið.

Frá því ég var lítil stelpa hafði mig alltaf dreymt um að labba inn kirkjugólfið með pabba, giftast manninum sem ég vildi eyða ævinni með og hafa börnin mín öll með. Mikið er ég þakklát ég hafi náð að hafa hann með okkur á þeim degi.

Ef allir væru eins og pabbi, þá væri heimurinn betri.

Ég ætla að gera mitt besta í að njóta lífsins fyrir pabba því það er það sem hann vildi.

Til pabba: Takk fyrir að kenna mér á lífið og takk fyrir að velja mig sem dóttur þína. Við pössum mömmu fyrir þig.

Kveðja.

Litla pabbastelpan að eilífu,

Sæunn Rós
Finnbogadóttir.

Mig langar að minnast vinar míns og mágs, Finnboga Inga Ólafssonar, sem verður lagður til hvílu í dag.

Finnbogi var eins og snýttur úr nösinni á pabba sínum, Óla Finnboga, sömu taktar, húmor og einstakt eintak af manni. Finnbogi var náttúrubarn sem elskaði sjóinn og var hann skipstjóri allan sinn starfsferil og mikil aflakló.

Fyrir sjö árum þegar Finnbogi var 48 ára var lífinu skyndilega kippt undan honum þegar hann greindist með illvígt krabbamein. Næstu ár einkenndust af baráttu við þann sjúkdóm og endalausar meðferðir sem tóku sinn toll. Sýndi hann einstakt æðruleysi og baráttu við sjúkdóminn og tek ég hattinn minn ofan fyrir honum fyrir þann mikla styrk sem hann sýndi í þessari baráttu.

Milli meðferða var safnað kröftum og verð ég ævinlega þakklátur fyrir þær ógleymanlegu samverustundir sem við áttum saman uppi á hálendi Íslands þar sem við hlóðum batteríin, veiddum saman á stöng og lögðum net fyrir silung.

Það var eitt sem einkenndi Finnboga sem ég hef ekki fundið fyrir hjá öðrum. Þegar maður var með honum í krefjandi aðstæðum, t.d. á báti að draga netatrossu í vondu veðri, þá fannst manni maður alltaf vera í öruggum höndum – það var einhver ára yfir honum eins og maður væri með ofurmann/heljarmenni sér við hlið enda var hann með eindæmum hugrakkur og hraustur maður.

Núna er baráttu Finnboga á þessari jörð lokið og hann farinn til pabba síns í hvíldina.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli Gíslason á Uppsölum)

Guðmundur Jónasson.

Kæri vinur, nú er baráttunni lokið og komið að kveðjustund. Vinátta okkar hefur spannað rúmlega 30 ár, og hófst þegar við og eiginkonur okkar, Harpa og Anna, vorum að koma okkur fyrir í nýrri íbúðabyggð á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði. Þegar þið Harpa tókuð þá ákvörðun að stækka við ykkur var passað upp á að þið væruð í göngufæri frá okkur þegar þið fluttuð yfir í Teigarbyggðina.

Við fjögur fengum viðurnefnið fjögur fræknu í einni af okkar mörgu ferðum erlendis, þar sem við vorum einstaklega dugleg að ferðast bæði innan- og utanlands. Tenerife var þó í sérstöku uppáhaldi hjá þér síðustu árin, áttum við mjög góðar stundir saman og var síðasta ferðin okkar núna í október síðastliðnum, stuttu áður en veikindi þín, sem voru búin að standa yfir í nokkur ár, fóru að taka yfir. Það sem mun lifa í minningunni um þann góða mann sem þú hafðir að geyma er húmorinn. Enginn sagði betri sögur eða fór betur með brandara en þú. Og æðruleysið, sérstaklega í veikindum þínum, en þú reyndir alltaf að vera jákvæður og bjartsýnn.

Við unnum töluvert saman bæði við sjómennsku en einnig á landi við smíðar og þar sá ég hvað þú varst lausnamiðaður, alltaf með lausnir við alls kyns vandamálum.

Þetta var góður tími sem við störfuðum saman, síðustu árin sem covid var í algleymi vildir þú ólmur þiggja allar covid-bólusetningar sem voru í boði, sannfærður um að þær hægðu á meininu sem hrjáði þig. Það var ótrúlegt að fylgjast með þér þessi síðustu sjö ár frá greiningu sjúkdómsins, þú varst svo opinn og æðrulaus í sambandi við veikindi þín. Takk fyrir síðasta bíltúrinn okkar tveggja sem við fórum í einungis tveimur vikum fyrir andlátið. Takk, Finnbogi, fyrir allar góðu samverustundirnar sem við fjögur fræknu áttum ásamt börnunum okkar síðustu 30 árin.

Vinarkveðja,

Anna og Einar.

Fallinn er frá góður félagi Finnbogi Ólafsson. Okkar fyrstu kynni voru þau að ég var með Finnboga í fyrsta róðrinum sem hann fór sem háseti á Sandafellinu á vetrarvertíð í Grindavík. Finnbogi var þá 15 ára gamall unglingspiltur.

Þegar Finnbogi reri sem stýrimaður hjá Ólafi föður sínum á Sandafellinu vann hann mikið þrekvirki er hann bjargaði mannslífi. Einn úr áhöfninni fór út með netunum á bólakaf í hafsdýpið. Þá stakk Finnbogi sér í sjóinn á eftir manninum, kafaði niður í hafsdýpið og skar manninn úr netinu og náði honum lifandi upp á yfirborðið. Þetta er ekki lýsing á einhverju atviki sem gerðist í leikinni Indiana Jones-mynd, þetta afrekaði Finnbogi Ólafsson. Finnbogi var þvílíkt hraustmenni og þeir eru fáir sem hefðu getað leikið þetta afrek hans eftir. Þetta atvik lýsir svo vel innri manni Finnboga, kjarkurinn, krafturinn og hugrekkið til staðar og að hika ekki við leggja líf sitt í mikla hættu við að bjarga skipsfélaga. Þarna hefði Finnbogi sjálfur getað fest i netinu við björgunaraðgerðina og þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Þarna var teflt á tæpasta vað og landi náð.

Þegar Guðmundur bróðir byrjaði með Ágústu systur Finnboga urðu kynnin við Finnboga meiri. Þá mikið í veiðiferðum og fjölskyldboðum. Við bræður mínir, Guðmundur og Guðlaugur, fórum alltaf með þeim feðgum Ólafi og Finnboga í veiðitúra á sumrin. Fyrripart sumars voru það gjarnan stangveiðiferðir í Djúpavatn og Veiðivötn og seinnipart sumars var farin netaferð í Veiðivötnin. Síðasta netaferðin okkar var farin í ágúst sl., þá var Finnbogi eins og alltaf í essinu sínu og hlífði sér ekki þótt að maður vissi að mikið væri að honum dregið vegna veikindanna.

Ég fór í strandveiði eitt sumar fyrir nokkrum árum. Ég bað þá Finnboga um góð ráð varðandi veiðistaði í Faxaflóa. Þá kom Finnbogi mér virkilega á óvart og afhenti mér á tölvukubbi kortagrunn með öllum þeim bestu veiðistöðum sem hann og Ólafur faðir hans höfðu fundið og veitt á í gegnum árin í Flóanum. Þetta var eitt hans æðsta leyndarmál sem skipstjóri sem hann þarna gaf mér. Það sýndi sig að það var á vísan að róa eftir heillaráðum Finnboga.

Það sem upp úr stendur í minningunni um Finnboga var góður drengur og ósérhlífinn. Aldrei heyrði ég hann hallmæla nokkrum manni. Hann var góður og skemmtilegur félagi, alltaf í góðu skapi og hress og glaður og hrókur alls fagnaðar og kunni að segja skemmtilegar sögur. Nú rær Finnbogi á önnur mið í sumarlandinu og sá tími mun koma síðar er við félagar rennum þar fyrir fisk með stöng og förum í netaróður.

Ég votta Hörpu og börnunum þeirra innilegustu samúð, sem og öðrum ættingjum.

Stefán Jónasson.