ÞAU Rakel Björk og Garðar ætla að taka fyrir ljóð eftir skáld um allt land.
ÞAU Rakel Björk og Garðar ætla að taka fyrir ljóð eftir skáld um allt land.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Hjónin Rakel Björk Björnsdóttir og Garðar Borgþórsson verða með tónleika í Hofi á Akureyri nk. föstudagskvöld og kynna þar meðal annars lög af báðum plötum sínum, ÞAU taka Vestfirði, sem kom út í mars 2022, og ÞAU taka Norðurland, sem kom út á fyrrahaust. „Við notum tæknina og stækkum hljómheiminn, flytjum rokk, popp og djass allt í senn,“ segir Rakel Björk.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hjónin Rakel Björk Björnsdóttir og Garðar Borgþórsson verða með tónleika í Hofi á Akureyri nk. föstudagskvöld og kynna þar meðal annars lög af báðum plötum sínum, ÞAU taka Vestfirði, sem kom út í mars 2022, og ÞAU taka Norðurland, sem kom út á fyrrahaust. „Við notum tæknina og stækkum hljómheiminn, flytjum rokk, popp og djass allt í senn,“ segir Rakel Björk.

Þau voru með sumartónleikaröð fyrir norðan í fyrra og í kjölfarið fengu þau styrk til að halda tónleika í Hofi frá Verðandi liststjóði, sem er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Menningarfélagsins Hofs og Menningarfélags Akureyrar. „Við erum spennt að spila í Hofi í fyrsta sinn og fagna útgáfu plötunnar en við spilum lög af báðum plötunum á tónleikunum,“ segir Rakel Björk. Hún eigi líka sterkar rætur að rekja norður. Sigurður Hlíðar, langalangafi sinn, hafi til dæmis byggt hús á Akureyri, sem kaþólska kirkjan eigi núna, og föðuramma sín sé frá Dalvík.

Frumsamin lög

Á plötunum eru frumsamin lög þeirra við ljóð eftir skáld á Vestfjörðum og síðan við ljóð eftir skáld frá Norðurlandi. Rakel Björk segir að hugmyndin sé að halda uppteknum hætti og taka fyrir ljóð eftir skáld í öðrum landshlutum. Áður en þau hafi gefið út fyrri plötuna hafi þau farið um Vestfirði í tvö sumur og kynnt lögin á tónleikum auk þess sem þau hafi fylgt plötunni eftir með sama hætti. „Við höfum því verið mjög dugleg að leyfa heimamönnum að njóta þess að heyra þessi lög.“

Parið hefur unnið mikið í leikhúsum og þau voru í verkum í Borgarleikhúsinu, þegar covid skall á. Rakel Björk segir að þau hafi hugleitt hvað þau gætu gert í stöðunni. Þau hafi lengi rætt um að stofna hljómsveit, vinur þeirra hafi haft góða tengingu við Vestfirði og verkefnið þar hafi því orðið til. „Þetta átti bara að vera tilraun en verkefnið heppnaðist svo vel að við ákváðum að halda því áfram.“

Rakel Björk segist vera mjög ljóðelsk. „Ljóðanördinn í mér vaknaði til lífsins og ég hef stúderað ljóð síðan og skoðað mikið kjallarabækur á bókasöfnum. Óvænt varð mjög mikið áhugamál hjá okkur að skoða gamla texta og búa til músík í kringum þá.“ Hún bætir við að margar sögur fylgi ljóðunum, bæði af skáldunum og í textunum sjálfum. „Við lesturinn höfum við kynnst þjóðinni og menningunni á tíma ljóðanna. Þetta er því ekki aðeins músík heldur rannsókn á lifnaðarháttum og menningu.“ Með fyrrgreint í huga séu tónleikarnir oft persónulegir og skemmtilegir, því hún segi gjarnan sögur á milli laga.

Rakel Björk hefur ekki sagt skilið við leikhúsið. Um helgina lék hún í sýningunni Harki í Tjarnarbíói og hún er að skrifa barnasöngleik sem verður sýndur þar næsta vetur. „Við erum að prófa okkur áfram sem höfundar og svona verkefni, að fá að gera eigin músík, er mjög valdeflandi.“