Breiðhöfði 27 Drög að fjölbýlishúsum á einni lóðinni á Ártúnshöfða.
Breiðhöfði 27 Drög að fjölbýlishúsum á einni lóðinni á Ártúnshöfða. — Teikning/JVST arkitektar/Þorpið vistfélag
Hluthafar í félaginu Þorpið 6 ehf., félagi sem er tengt Þorpinu vistfélagi, hafa samþykkt kauptilboð Skugga 4 ehf. í byggingarlóðir á Ártúnshöfða í Reykjavík. Skuggi vinnur nú að áreiðanleikakönnun vegna viðskiptanna

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Hluthafar í félaginu Þorpið 6 ehf., félagi sem er tengt Þorpinu vistfélagi, hafa samþykkt kauptilboð Skugga 4 ehf. í byggingarlóðir á Ártúnshöfða í Reykjavík. Skuggi vinnur nú að áreiðanleikakönnun vegna viðskiptanna.

Handhafar 45,14% hlutafjár í Þorpinu 6 samþykktu tilboðið 25. mars en handhafar 14,25% hlutafjár greiddu atkvæði á móti. Nánar tiltekið hafnaði eigandi Blævængs, Áslaug Guðrúnardóttir, tilboðinu en hún lagði fram tilboð sem ekki var tekið. Áslaug og maður hennar Runólfur Ágústsson hafa fylgt Þorpinu vistfélagi frá upphafi. Nú er hins vegar óvissa um framtíð Þorpsins sem selt hefur stærstan hluta lóðaréttinda sinna.

Lóðir undir 111 og 65 íbúðir

Lóðirnar sem Skuggi kaupir eru annars vegar tvær lóðir við Breiðhöfða; Breiðhöfði 15 og Breiðhöfði 27.

Samkvæmt vef borgarinnar er gert ráð fyrir 111 íbúðum á Breiðhöfða 15 en lóðin er sögð byggingarhæf. Þar við hlið átti Þorpið Breiðhöfða 27 en á lóðinni er gert ráð fyrir 65 íbúðum. Lóðin er sögð í skipulagsferli enda sé tillaga í vinnslu. Samkvæmt áðurnefndri vefsíðu á félagið Skuggi 5 ehf. lóðina Breiðhöfða 9. Lóðin sé byggingarhæf og gert ráð fyrir 50 íbúðum.

Samkvæmt kaupsamningi greiddi Skuggi 5 ehf. alls 683 milljónir fyrir lóðina Breiðhöfða 9 í byrjun þessa árs. Kaupverðið var hvorki með gatnagerðargjöldum né öðrum opinberum gjöldum sem kaupandi greiðir.

Hins vegar kaupir Skuggi lóðaréttindi af Þorpinu vistfélagi á byggingarsvæðinu Ártúnshöfða 2a. Samkvæmt heimildum blaðsins veita lóðakaupin heimild til að byggja um 500 af samtals 600 íbúðum á Ártúnshöfða 2a. Viðmælandi blaðsins sagði að með þessum viðskiptum ætti Skuggi sennilega lóðir undir fleiri íbúðir í borginni en nokkurt annað fasteignafélag á landinu. Skuggi hefur gert sig gildandi á markaðnum og m.a. byggt um 360 íbúðir á RÚV-reitnum en þær lóðir voru meðal annars seldar til að stytta skuldahala RÚV.

Höf.: Baldur Arnarson