Grétar Benediktsson bifvélavirki fæddist í Skagafirði 20. nóvember 1941. Hann lést 21. mars 2024.

Foreldrar Grétars voru Benedikt Pétursson, f. 4.11. 1892, d. 11.9. 1964, og Margrét Benediktsdóttir, f. 24.12. 1913, d. 20.3. 1942.

Systkini Grétars eru: Elísa Dagmar, f. 11.2. 1934, og Benedikt, f. 7.9. 1938.

Eftirlifandi eiginkona Grétars er Margrét Erna Blomsterberg, f. 3.12. 1942. Foreldrar Ernu voru Bjarni Blomsterberg, f. 17.2. 1917, d. 28.2. 2014, og Ásta Sigrún Hannesdóttir, f. 16.7. 1920, d. 10.12. 2003.

Börn Grétars og Ernu eru: 1) Benedikt Ingi Blomsterberg, f. 4.4. 1962. Maki Ragnheiður Hreiðarsdóttir, f. 20.11. 1961. Börn þeirra eru: Margrét Vera, f. 6.1. 1984, maki hennar er Gunnar Már Gunnarsson, f. 24.10. 1984, og eiga þau Bjarnhéðin Hrafn og Kveldúlf Snjóka; Grétar Húnn, f. 9.2. 1986; Tómas Karl, f. 19.12. 1993, hans sonur er Benedikt Tumi, f. 8.2. 2015, og Benedikt Fáfnir, f. 17.4. 1998. 2) Sigurlaug Ásta Blomsterberg, f. 23.2. 1964, dóttir hennar er Erna Rún, f. 1.11. 2002.

Útför fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 9. apríl 2024, klukkan 13.

Það er óveður í aðsigi. Kólgubakkar í norðri og sögð þæfingsfærð á heiðinni. Að líkindum best að tygja sig hið snarasta. Inn fjörðinn, nær heiðinni bjarmar af degi og undarleg ró yfir. Hrossin beggja vegna vegarins hin rólegustu og ekki útlit fyrir að þeirra glöggskyggni kalli á að þau hnappi sig saman og hími af sér stórviðrið. Þeirra dagskipun er önnur. Í andanum fara þau fyrir vagninum gullna sem í dag flytur einn af vænstu sonum Skagafjarðar milli vistarvera í tilverunni. Frómt ættaður frá Fjalli og Stóra-Vatnsskarði tengdafaðir minn Þorvaldur Grétar Benediktsson hefur kvatt. Stundin eru komin.

En ferðumst nú ögn í tíma. Sveitapilturinn ungi kominn til Akureyrar. Upp á arminn fínasta unnusta að sunnan og lífið allt með opinn faðminn. Eins og ungra manna er háttur á hann sér stóra drauma því í dag er hann tvítugur og fótar sig bara býsna vel í nýjum veruleika. Hann er reyndar alveg ómeðvitaður um að einmitt í dag er honum að fæðast tengdadóttir. Grunlaus með öllu enda einkasonurinn og dóttirin góða enn aðeins það ljúfasta í framtíðardraumnum. Tíminn flýgur, tuttugu ár upp á dag og þá sé ég undirrituð hann í fyrsta sinn. Tengdaföðurinn sem forsjónin hefur af gæsku sinni ákveðið að gefa mér í afmælisgjöf. Gleðin er við völd í húsi hans þetta nóvemberkvöld. Lífsdansinn hefur verið stiginn af fullkomnu öryggi. Uppáklæddur töffari, vinamargur gleðinnar maður sem í ógáti lánar syni sínum forláta Bronco-bifreið. Og teningunum er kastað.

Af öllu framansögðu deilum við tengdafeðginin því stjörnumerki og er óhætt að fullyrða að hann hafi verið sá okkar sem hafi haft til að bera alla þá mannkosti sem það inniber og suma hverja í ríkum mæli. Þéttur og hlýr persónuleiki sem unni sínu og sínum heitt og eilíflega. Gerði ekkert að óathuguðu máli en alltaf þátttakandi, fullur ástríðu og þrautseigju. Áhuginn fyrir mönnum og málefnum óbilandi og afkomendunum tamt að tala um „afamóment“ þegar umræðan og spurningaflóðið ratar á hinar ólíkustu slóðir mannlífs og samtíma. En nú skilja leiðir um stundarsakir.

Það er við hæfi að í næstu sýslu baði sólin fjörðinn er ég kveð minn góða tengdaföður. Hann var gull af manni, sporðdreki og að sjálfsögðu „skagfirskur töffari“.

Ragnheiður.

Í dag kveðjum við elskulegan bróður og mág hann Grétar Ben. Um leið og við þökkum góðum guði fyrir að hafa veitt okkur þá miklu mildi að fá að hafa Grétar í lífi okkar, auðga það og gleðja með návist sinni, þá syrgjum við og söknum þessa yndislega drengs sem hann Grétar okkar var. Samgangur fjölskyldnanna var mikill og ekki hvað síst þegar líða tók á æviárin, börn okkar og barnabörn nutu samvista með frændfólki sínu og fleiri stundir gáfust til að líta upp úr amstri dagsins og njóta samvista og lífsins. Fyrir allar þessar stundir erum við hjónin á Stóra-Vatnsskarði ævinlega þakklát. Stóri bróðir á Vatnsskarði minnist litla bróður síns með eftirfarandi orðum.

Hefur kvatt í hinsta sinn,

heiðursdrengurinn ljúfi snjalli.

Býsna ungur bróðir minn,

borinn var til ömmu á Fjalli.

Óx úr grasi ungur sveinn,

ýmsum störfum sinnti.

Var þó aldrei svifaseinn,

sauðfé og kúnum brynnti.

'54 úr fjallanna brúnum,

féllu hér skriður og grjót.

Bráðungur drengurinn bjargaði
kúnum,

því býsna var aðkoman ljót.

Gæfusporin gekkstu mörg,

gjarnan með léttu spori.

Sífellt að færa í búið björg,

bæði að hausti og vori.

Öll ég þakka okkar ár,

indælt er þau að muna.

Þú varst nú jafnan kallinn klár,

og kátur sem lækjarbuna.

Okkar daga ég mun sakna,

oft var glatt um vorar slóðir.

Það mun erfitt verða að vakna,

og vita að þú ert horfinn, bróðir.

Við hjónin á Vatnsskarði, Benedikt og Marta, vottum elsku Ernu, Benna, Systu og afkomendum þeirra okkar innilegustu samúð og biðjum góðan Guð að veita elsku Grétari góða heimkomu þar sem eflaust verður mikið um söng, glens og grín eins og Fjallsfólkinu var einu lagið.

Benedikt Benediktsson.

Í dag kveðjum við með sorg í hjarta elskulegan mág okkar og kæran vin til meira en 60 ára.

Sárt er vinar að sakna,

sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna,

margar úr gleymsku rakna,

svo var þín samfylgd góð.

Góðar minningar að geyma,

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma,

þér munum við ei gleyma,

sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Við erum þakklát fyrir að hafa haft Grétar í lífi okkar öll þessi ár. Hugur okkar er hjá Ernu systur, Benna, Systu og fjölskyldum þeirra. Blessuð sé minning góðs drengs.

Samúðarkveðjur til ykkar allra frá okkur öllum.

Ingunn, Anna Lísa, Júlíus og fjölskyldur.

Létt er að stíga lífsins spor,

ljúf er gleðin sanna,

þegar eilíft æsku vor,

er í hugum manna.

(Ragnar S. Gröndal)

Í dag kveðjum við föðurbróður okkar, hann Grétar Ben, sem svo sannarlega hafði hið eilífa æskuvor í huga sínum. Grétar frændi var grallari og húmoristi sem neitaði að taka aldur alvarlega og þótti til dæmis alveg agalegt að vera ekki boðið í tvítugsafmæli hjá bróðursyni sínum sökum aldursmunar. Já, hann Grétar var svo sannarlega með Vatnsskarðshúmorinn eins og Erna nefndi oft, sem hallar sér þó kannski frekar yfir í góðlátlega stríðni eins og sannaðist þegar að hann kom eitt sinn í heimsókn þegar við vorum stödd í göngum. Hann sá sér leik á borði, fann lyklana að bílnum hennar Ástu og færði bílinn svo hinum megin við húsið. Skilaði svo lyklunum á sinn stað, vitandi sem var að þarna tæki við heilmikil heilaleikfimi hjá okkur að loknum smalamennskum við að ráða þessa ráðgátu.

Það var líkt og sumarboði hjá okkur systkinum þegar Fordinn renndi í hlað, nýbónaður og gljáandi og út úr bílnum kom Grétar léttklæddur og sólbrúnn þó svo að enn væri dágóður tími í að sumarklæðnaður væri boðlegur á Skörðum. Já, Grétar var töffarinn, heimsborgarinn og gleðipinninn sem við litum upp til og vorum stolt af að eiga sem frænda.

Eftir að Grétar og Erna eignuðust svo sitt eigið athvarf í Varmahlíð urðu innlit þeirra á Stóra-Vatnsskarð örari og þátttaka þeirra í þorrablótum með okkur í Miðgarði alveg ómissandi hluti af tilverunni og þá var nú ekki tekið annað í mál hjá þeim hjónum en að gista á Vatnsskarði því hápunkturinn var að opna trogið við heimkomu um nóttina og gæða sér á smáþorramat fyrir svefninn. Já, það gladdi okkur systkinin mikið hve samgangur Grétars, Ernu og foreldra okkar óx með árunum og hversu hvetjandi þau voru foreldrum okkar að ferðast og uppskera eftir óeigingjarnt ævistarf.

Það var okkur systkinum eins og öðrum erfitt að horfa á eftir frænda okkar inn í þennan illvíga sjúkdóm en nú hefur hann Grétar okkar fengið hvíld og frið og við treystum því að fólkið okkar frá Fjalli og Vatnsskarði hafi tekið vel á móti honum í sumarlandinu.

Svo, vinur kæri, vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín gæta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Elsku Ernu, Benna, Systu og fjölskyldunni allri sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að vaka yfir ykkur og veita styrk á þessum erfiðu tímum.

Systkinin frá Stóra-Vatnsskarði og fjölskyldur,

Guðmundur Rúnar
Benediktsson.

Grétar frændi minn var fjórtán ára þegar ég kom fyrst að Fjalli til sumardvalar, átta ára strákur að sunnan. Þar bjuggu þá hjónin Halldór bóndi Benediktsson og Þóra Þorkelsdóttir og kjördóttir þeirra, Margrét Sigurbjörg. Þar bjó einnig móðir Halldórs bónda, Sigurlaug Sigurðardóttir. Sú góða kona var móðuramma Grétars. Hún hafði tekið hann að sér nýfæddan eftir að dóttir hennar, Margrét Benediktsdóttir, lést 29 ára gömul. Margrét var húsfreyja á Stóra-Vatnsskarði og hafði nokkrum árum áður eignast soninn Benedikt sem seinna varð bóndi þar. Þannig ólust þessir myndarlegu bræður og hestamenn upp hvor á sínum bæ undir Grísafelli, Benni hjá föðurnum, Bensa á Stóra-Vatnsskarði, en Grétar hjá móðurömmunni, Sigurlaugu á Fjalli. Sannarlega leit maður upp til þeirra. – Grétar þótti nauðalíkur dr. Jakobi Benediktssyni móðurbróður sínum.

Oft var glatt á hjalla þegar Grétar tók nikkuna og Magga gítarinn enda var mikil músík í þeim báðum. Stundum bættist Valdís í Valadal í hópinn með gítarinn sinn, og svo „kaupakonurnar“ Berta og Soffía og kúasmalinn Helgi Sævar. Indæl er þessi minning.

Grétar gaf mér eitt sinn mynd af sér, tekna á ljósmyndastofu og gat eins verið af kvikmyndastjörnu. Ég límdi hana inn í albúmið mitt þegar ég kom heim um haustið. Svo var það einhvern tíma um veturinn að vinkona systur minnar kom í heimsókn, alin upp í Sæmundarhlíðinni, og þær höfðu farið að skoða myndir. Næst þegar ég opnaði albúmið var myndin af Grétari horfin, aðeins svört eyðan blasti við augum ásamt litlum hvítum flekk þar sem límið hafði verið.

Grétar var hetja í augum okkar kúasmalanna. Hann eignaðist ólman fola, Grétars-Jarp. Það var aðdáunarvert að fylgjast með frænda þegar hann var að fást við þennan tryllta klár. Honum tókst ætlunarverkið, en enginn annar vogaði sér nokkurn tíma á bak þessum hesti svo ég muni.

Innan við fermingu hafði Grétar bjargað kúnum á Fjalli frá bráðum dauða. Það hafði gert úrhellisrigningu; hann var á ferð ríðandi og kom að kúnum þar sem þær hímdu í hnapp um miðjan dag við túngirðinguna. Hann hleypti þeim inn fyrir og heim í fjós. Örstuttu síðar féll mikil aurskriða yfir túnið og blettinn þar sem kýrnar höfðu staðið.

Ekki vantaði dugnaðinn við búskapinn; en hugurinn leitaði annað. Grétar fór ungur að heiman og var um tíma á vertíð í Vestmannaeyjum. Þar kynntist hann sinni yndislegu konu, henni Margréti Ernu Blomsterberg. Þau komu í heimsókn norður í sveitina, og ferskur var blærinn sem fylgdi þeim. Svo leið ekki á löngu áður en hestamaðurinn slyngi var kominn á ameríska drossíu. Minna mátti það ekki vera.

Þótt Grétar og Erna settust að á Akureyri hélt vinurinn alltaf tryggð við heimasveitina. Þau hjónin eignuðust lítið hús í Varmahlíð og vörðu þar gjarnan fríum sínum, og þá var ekki langt að fara til bróðurins á Vatnsskarði.

Milli okkar frændanna slitnaði aldrei sambandið. Skemmtileg voru jólakortin hans; í þeim var hann lifandi kominn með sínar glettnu athugasemdir og gamanyrði. Með þakklæti kveð ég minn góða frænda.

Baldur Hafstað.

Í dag kveðjum við Grétar Benediktsson, okkar kæra vin og vinnufélaga til áratuga.

Margs er að minnast þegar hugurinn hvarflar til gömlu góðu daganna. Árin eru sannarlega orðin mörg, vorum ungir og hressir strákar sem hófum nám í bifvélavirkjun á BSA á Akureyri, við komum úr ýmsum áttum og vorum á mismunandi aldri. Á BSA var mikið félagslíf og þetta var stór vinnustaður. Fljótlega var stofnað starfsmannafélag til þess að halda utan um skemmtanalífið. Haldin voru þorrablót, farið í útilegur, leikhúsferðir til Reykjavíkur og ekki má gleyma öllum skemmtilegu utanlandsferðunum, þá var nú gaman. Grétar og Erna voru miklir drifkraftar í þessum ferðum okkar.

Þegar Grétar, með sína fallegu rödd, og vinir okkar Óskar og Siggi sungu með þá lifnuðu allir við og tóku undir. Rútuferðirnar voru sannarlega skemmtilegri þegar söngurinn hljómaði.

þegar Grétar tók síðan við verkstjórn á BSA fórst honum það vel úr hendi, enda einstakt snyrtimenni, geðgóður og lipur í samskiptum, verklaginn og úrræðagóður eins og þessi litla saga segi okkur: Þegar verkstæðið var flutt úr Strandgötunni í Laufásgötu, sem var minna húsnæði, var margt sem erfitt var að flytja og koma þar fyrir. Þar má nefna rennibekkinn góða sem alls ekki var hægt að vera án að okkar mati. Grétar hugsaði málið og kom með lausn. Við sögum af honum ca. 30 sentímetra og þá mun hann komast fyrir. Þetta var svo gert að kvöldi til og bekkurinn settur niður þar sem hann er trúlega enn þann dag í dag.

Á þessum árum myndaðist góður vinahópur sem hefur hist reglulega og brallað margt saman, þrátt fyrir að sum okkar hafi flust frá Akureyri. Það er svo óendanlega dýrmætt að eiga góða vini og ekki sjálfgefið og þar að auki að það endist svona lengi. Mjög oft hefur hópurinn komið saman í bústað þeirra hjóna í Varmahlíð og þá var alltaf glatt á hjalla.

Það eru forréttindi að eiga samleið með svona góðum vinum og vináttu sem aldrei hefur borið skugga á.

Elsku Erna og fjölskylda þín, við hugsum til ykkar og minnumst vinar okkar með virðingu og þökk.

Páll og Kristín.