Sjarmi Sögumannssjarmi Einars Kárasonar er vel þekktur og þrautreyndur.
Sjarmi Sögumannssjarmi Einars Kárasonar er vel þekktur og þrautreyndur. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir utan þá umtalsverðu ánægju sem kvöldstund með sögumanninum býður upp á skilur Heimsmeistari á Söguloftinu eftir sig ýmis atriði til hugleiðingar. Ekki síst um ólík áhrif orða á blaði og úr munni sagnamanns.

Af listum

Þorgeir

Tryggvason

Það fer ekki mikið fyrir því, leikhúsinu á lofti Landnámssetursins í Borgarnesi, sem þau Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir stofnuðu og hefur verið í rekstri í rúman áratug. Engu að síður er þarna við Brákarsundið haldið úti merkri tilraunastarfsemi á smæstu einingum, eiginlega frumefnum leiklistarinnar: Einleiknum og sagnamennskunni.

Undanfarið hafa endursagnir höfunda á bókum sínum verið áberandi: Vilborg Davíðsdóttir hefur leitt okkur um víkingaöldina með bókum sínum um Auði djúpúðgu, Einar Kárason hefur rakið efni Sturlungabókanna og sagt okkur frá KK, og dóttir hans Júlía Margrét hefur unnið sýningu upp úr skáldsögunni Guð leitar að Salóme. Og nú er Einar mættur aftur, að þessu sinni með glóðvolga skáldsögu úr síðasta flóði, byggða á síðustu árunum í lífi Bobbys Fishers. Heimsmeistari var frumsýndur á Söguloftinu 16. mars, en undirritaður sá sýninguna laugardaginn fyrir páska.

Sögumannssjarmi Einars Kárasonar er vel þekktur og þrautreyndur. Það blasir við um leið og hann hefur upp raust sína að það gildir um orð mælt af munni fram, ekki síður en prentuð orð á blaði. Mögulega hefði farið vel á að skera niður nokkur atriði svo betur loftaði um efnið þessa kvöldstund á loftinu. Það var hægt að greina smá stress, sem virtist frekar stafa af hve miklu þyrfti að koma á framfæri en frammistöðukvíða. Þegar upp er staðið, eftir um tvo tíma með einu hléi, hefur Einar farið í gegnum lungann af efni bókarinnar, kafla fyrir kafla.

Fyrir utan þá umtalsverðu ánægju sem kvöldstund með sögumanninum býður upp á skilur Heimsmeistari á Söguloftinu eftir sig ýmis atriði til hugleiðingar. Ekki síst um ólík áhrif orða á blaði og úr munni sagnamanns.

Afstaða textans til söguhetjunnar er í bókinni sú að í gegnum hann sjáum við í hug skákmeistarans, nánast hlutlaust eða jafnvel eins og hann sjálfur myndi vilja birtast okkur. Allt sem fyrir augu ber og öll samskipti og atferli fólks í umhverfi hans er túlkað og skilið eins og hann skilur það og sér, þótt frásögnin sé að forminu til verk sögumanns sem sér í hug heimsmeistarans.

Það sama gildir um texta sýningarinnar, en áhrifin verða allt önnur þegar kunnuglegur maður stendur fyrir framan mann og segir söguna. Þá verður til írónísk fjarlægð á hina órakenndu heimsmynd söguhetjunnar með öllum sínum ógeðfelldu samsæriskenningum og stríðu lund. Jafnvel þótt innihaldið sé það sama og orðin jafnvel líka, að frádregnum skekkjumörkum hinnar munnlegu geymdar, og hita leiksins.

Sýningin á Söguloftinu að þessu sinni veitir því tvöfalda ánægju. Hér er sögð nokkuð átakanleg saga með kafkaískum yfirtónum þótt sönn sé, af hörðum lífsskilyrðum og þeim sjálfskaparvítum sem langþróuð sérlund skapar aðalpersónunni. Og um leið gefst tækifæri til að skoða hvernig þetta eldforna listform, sagnamennskan, virkar í samanburði við hina miklu yngri en núorðið mun plássfrekari list skáldsögunnar.