Flugrekstur Gengi bréfa í Play var við lok markaða í gær 4,36 kr. á hlut og hefur lækkað um 44% það sem af er ári.
Flugrekstur Gengi bréfa í Play var við lok markaða í gær 4,36 kr. á hlut og hefur lækkað um 44% það sem af er ári. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is „Við viljum gefa minni fjárfestum tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu félagsins. Það á bæði við um þá sem nú eru hluthafar og vilja verja hlut sinn og eins þá sem kunna að hafa áhuga á því að koma inn í hluthafahópinn.“

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

„Við viljum gefa minni fjárfestum tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu félagsins. Það á bæði við um þá sem nú eru hluthafar og vilja verja hlut sinn og eins þá sem kunna að hafa áhuga á því að koma inn í hluthafahópinn.“

Þetta segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, í samtali við Morgunblaðið spurður um fyrirhugað hlutafjárútboð félagsins sem hefst í dag og stendur fram á fimmtudag.

Play sótti sér sem kunnugt er um 4,5 milljarða króna, um 32 milljónir Bandaríkjadala, í nýtt hlutafé í febrúar sl. en þá var um leið tilkynnt að til stæði að halda almennt útboð að andvirði um 500 milljóna króna. Samhliða því var tilkynnt að félagið hygðist færa sig af First North-markaðinum yfir á Aðalmarkað Kauphallarinnar.

Hlutafjáraukningin í febrúar kom til með fjármagni frá stærstu hluthöfum félagsins á áskriftargenginu 4,5 kr. á hvern hlut. Svo er einnig nú, til stendur að selja á sama gengi.

Það er ekkert launungarmál að hlutabréfamarkaður hefur verið rólegur upp á síðkastið. Það er því tilefni til að spyrja Einar Örn hvort hann telji mikinn áhuga á útboðinu sem hefst í dag.

„Það er alveg rétt, markaðurinn hefur verið rólegur og við stillum væntingar okkar eftir því. Aftur á móti gáfum við það út að við myndum auka hlutafé félagsins, bæði með aðkomu stærri fjárfesta og minni. Við höfum nú þegar safnað 4,5 milljörðum króna og teljum að rekstur félagsins sé á góðri leið. Útboðið nú er í samræmi við þá áætlun sem við höfðum áður gefið út og það er við hæfi að gefa minni fjárfestum kost á því að taka einnig þátt,“ segir Einar Örn.

Segir fjárhaginn tryggðan

Tap Play nam í fyrra um 35 milljónum dala, jafnvirði 4,9 ma.kr., og minnkaði um rúmar 10 milljónir dala á milli ára. Félagið hefur áður gefið út að ekki sé búist við hagnaði í ár en að öllu óbreyttu gera áætlanir félagsins ráð fyrir hagnaði á næsta ári. Laust fé var tæpar 22 milljónir dala í árslok.

Í farþegatölum Play, sem birtar voru í gær, kemur fram að farþegafjöldi félagsins jókst um 65% á milli ára í marsmánuði og sætanýtingin var um 88%. Aukinn fjöldi farþega segir þó ekki alla söguna, því framboð félagsins hefur einnig aukist á milli ára. Frekar þarf að horfa til tekna og gjalda á hvern floginn kílómetra, sem er sá mælikvarði sem flugfélög miða almennt við og segir til um arðsemi þeirra. Tekjur Play voru 5,2 bandarísk sent á hvern sætiskílómetra á síðasta ári.

„Tapið í ár verður mun minna en í fyrra, það er nokkuð ljóst,“ segir Einar Örn spurður um rekstur félagsins.

„Með því hlutafé sem við höfum áður safnað, og með hliðsjón af rekstri félagsins í dag, þá má segja að fjárhagur félagsins sé tryggur til næstu tveggja ára. Það eru þó afstæðar tölur, því reksturinn er sífellt að verða betri og við erum að ná fram aukinni framlegð. Við erum að selja fleiri sæti en í fyrra og á hærri verðum auk þess sem við sjáum að hliðartekjur félagsins eru að aukast.“

Sér fram á gott sumar

Spurður almennt um stöðuna í flugi og ferðaþjónustu segir Einar Örn að útlitið sé bjart fyrir sumarið.

„Við eigum von á því að ferðamenn verði álíka margir og í fyrra, frekar fleiri en færri,“ segir hann.

„Það er ljóst að jarðhræringar á Reykjanesi, og þá sérstaklega villandi fréttaflutningur af því erlendis, hafði neikvæð áhrif á ferðir til landsins en það horfir til betri vegar. Á sama tíma sjáum við sterka bókunarstöðu í ferðum Íslendinga til útlanda auk þess sem nokkur erlend félög hafa dregið lítillega úr framboði á flugi hingað til lands, meðal annars vegna hreyfla- og viðhaldsmála. Það eru því ýmsir þættir sem hafa áhrif en heilt yfir er útlit fyrir aukningu í flugi en einnig betri afkomu hjá okkur.“

Vill fylgja fjárfestingunni eftir

Einar Örn tók óvænt við starfi forstjóra Play um miðjan mars sl. þegar Birgir Jónsson lét af störfum. Einar Örn var áður stjórnarformaður félagsins og hefur um árabil verið stærsti hluthafi þess, en fjárfestingarfélag hans á tæplega 11% hlut í Play.

„Svona skipti eiga sér oft skamman fyrirvara, en við Birgir höfðum áður rætt um að þarna kynnu að eiga sér stað einhverjar breytingar. Birgir skilaði góðu starfi og á mikið lof skilið fyrir uppbyggingu félagsins fyrstu árin,“ segir Einar Örn spurður um aðdragandann að forstjóraskiptunum.

„Það má segja að ég hafi verið í hlutastarfi hér sem stjórnarformaður, og kannski virkari en almennt gerist. Ég er búinn að fjárfesta töluvert í félaginu og vildi fylgja því eftir, sem ég geri nú í starfi forstjóra.“

Þetta er ekki fyrsta forstjórastarf Einars Arnar, því hann var forstjóri Skeljungs í um fimm ár og hefur þess utan gegnt stjórnendastörfum víða.