Þórarna Sesselja Hansdóttir, Lóa, fæddist 11. janúar 1936 á Asknesi í Mjóafirði. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 25. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Hans Guðmundsson Wíum, f. 19.10. 1893, d. 24.7. 1982, bóndi í Asknesi og kona hans Anna Ingigerður Jónsdóttir, f. 1.12. 1908, d. 6.9. 1977 frá Melum í Fljótsdal. Kjörmóðir hennar var Sesselja Þórarna Jónsdóttir, f. 10.9. 1891, d. 3.11. 1963, frá Leiti í Mjóafirði.

Systkini Lóu eru 10 og eru þrjú þeirra á lífi, þau Þórunn Stefanía Hansdóttir, f. 16.10. 1928, d. 11.3. 1991, Guðný Jóna Hansdóttir Wíum. f. 3.11. 1930, d. 29.10. 2020, Inga Hansdóttir Wíum, f. 24.5. 1933, d. 20.1. 1996, Guðmundur Þór Hansson Wíum, f. 2.3. 1938, d. 30.4. 2020, Jón Arnar Hansson Wíum, f. 3.2. 1938, d. 3.7. 1997, Gísli Hansson Wíum, f. 10.3. 1941, d. 28.9. 1997, Ólafur Óskar Hansson, f. 5.6. 1943, Nanna Guðfinna Hansdóttir, f. 19.3. 1945, Sigríður Lilja Hansdóttir, f. 18.11. 1948, Arnfríður Hansdóttir Wíum, f. 3.1. 1951, d. 12.5. 2017.

Eiginmaður Lóu var Nikulás Már Brynjólfsson, f. 9.9. 1936 á Akranesi, d. 12.4. 1997. Foreldrar hans voru Brynjólfur Nikulásson, f. 18.11. 1890, d. 4.1. 1979. og Sigfúsína Ólafsdóttir, f. 14.8. 1900, d. 18.8. 1986. Þau trúlofuðust 21.5. 1960 og giftust 25.12. 1960. Dóttir Nikulásar er Þóra Björk, f. 20.10. 1959, móðir hennar var Erna Jónsdóttir, f. 11.7. 1936, d. 9.6. 1985. Maður hennar er Björgvin Valur Guðmundsson, f. 24.2. 1959. Börn: Erna Valborg, f. 4.11. 1988, maður Kjartan Már Rúnarsson, börn þeirra Bergdís Adda, f. 2015, Björgvin Heiðar og Garðar Logi, f. 2018; Haukur Árni, f. 18.3. 1992, eiginkona Unnur Ösp Hannesdóttir, börn þeirra Guðmunda Kristbjörg, f. 2017, og Svanur Þór, f. 2021; og Axel Þór, f. 18.3. 1992, eiginkona Kamilla Borg Hjálmarsdóttir, barn þeirra Valur Borgar, f. 2023.

Synir þeirra eru Brynjólfur, f. 3.3. 1961, eiginkona hans er Ingunn Halldóra Rögnvaldsdóttir, f. 21.4. 1961. Börn: Rakel, f. 15.10. 1982, eiginmaður hennar er Sigurvin Lárus Jónsson, barn þeirra Jón Tómas, f. 2015; Bryndís, f. 14.8. 1986; og Þórarna Salóme, f. 8.1. 1993, maður hennar er Jón Böðvarsson, barn þeirra Þula, f. 2020. Axel Arnar, f. 2.6. 1962, d. 21.1. 2022, eftirlifandi eiginkona hans er Guðný Reynisdóttir, f. 22.2. 1965. Börn: Fríða, f. 16.11. 1995; Egill, f. 10.8.1998; og Bjargey, f. 9.2. 2005. Óskar Þór, f. 2.6. 1962, eiginkona hans er Ragna Ingibjörg Halldórsdóttir, f. 7.5. 1966, barn hans er Kristín, f. 6.1. 1993, móðir hennar Ólína Hulda Guðmundsdóttir, f. 2.6.1962, maður hennar er Arnar Helgi Jónsson, barn þeirra Jón Óskar, f. 2023. Börn þeirra eru Anna Lóa, f. 1.1. 1999; Nikulás Dóri, f. 9.5. 2001; Halldóra, f. 8.4. 2006.

Þórarna gekk í Eiðaskóla og húsmæðraskólann á Laugum. Þau hjón byrjuðu búskap á Akranesi og fluttu til Keflavíkur þar sem hún bjó frá árinu 1966 með manni sínum. Síðustu ár dvaldi hún á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hún lést þann 25. mars síðastliðinn.

Lóa verður jarðsungin frá Keflavíkurkirkju í dag, 9. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku amma, hvílík lífsins gjöf að hafa fengið að eiga þig að í rúmlega 41 ár. Þegar ég var barn sagðir þú mér sögur frá bernskubrekum þínum í sveitinni og ég hlustaði af áhuga. Frásögnin af því þegar þú klipptir veiðihárin af kettinum kallaði alltaf fram hlátur og sagan af litla lambinu sem datt í gjótuna og þú bjargaðir var hetjusaga eins og þær gerast bestar. Ótal minningar á ég af ferðalögum með þér og afa Nikka um landið þar sem við heimsóttum ættingja, fórum í berjamó og tíndum fjallagrös. Í þinni návist leið öllum vel og alltaf áttir þú opinn faðm fyrir þinn stóra hóp af barnabörnum og langömmubörnum sem stækkaði með hverju árinu. Takk fyrir hlýjuna, faðmlögin og ráðleggingarnar sem munu ávallt fylgja mér. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig og á seinni árum þótti mér vænt um að geta endurgoldið það. Ég veit að þú varst tilbúin þegar kallið kom og þó það sé erfitt að kveðja þá er þakklæti mér efst í huga. Við Jón Tómas höfum síðustu daga verið að skoða myndir frá þér og mikið sem það er dýrmætt að hann muni eiga fallegar minningar um langömmu Lóu, sem alltaf átti ís og faðmlag þegar við kíktum í heimsókn. Elsku amma Lóa, þú varst yndisleg amma og við öll erum ríkari af því að hafa átt þig að. Ég elska þig.

Við sjáum að dýrð á djúpið slær,

þó degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin færist nær,

og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóst þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt,

og svanur á bláan voginn.

(Davíð Stefánsson)

Rakel Brynjólfsdóttir og Jón Tómas Sigurvinsson.

Elsku Lóa er látin. Þegar ég hugsa um Lóu þá kemur Smáratún 25 upp í hugann, yndislegt heimili og vinsæll viðkomustaður ættingja og vina og síðast en ekki síst vina strákanna, Axels, Óskars og Binna. Lóa var gestgjafi af lífi og sál, sá um að elda og baka ofan í alla, hvort sem það voru fimm manns eða tuttugu. Hún vílaði ekki fyrir sér að baka stafla af pönnukökum, vera með þorrablót eða steikja 47 kótilettur, allt lék í höndunum á henni. Lóa var sjómannskona á meðan strákarnir voru litlir og lítið annað í boði en að sinna uppeldi og öllum öðrum verkefnum heimilisins.  Hún var skipulögð að eðlisfari, var alltaf skrefinu á undan, alltaf undirbúin ef ske kynni að eitthvað færi úrskeiðis. Við gerðum oft grín af ofur stundvísinni. Þegar verið var að ná í hana þá var hún iðulega tilbúin hálftíma fyrir áætlaðan brottfarartíma, - að hennar sögn var fátt hræðilegra en að láta bíða eftir sér. Lóa var pólitísk, fylgdist vel með þjóðmálum og var góður samfélagsrýnir. Íþróttir voru sérstakt áhugamál og hún sat við sjónvarpið þegar boltaíþróttir voru á skjánum og þá var handboltinn í mestu uppáhaldi þar sem hún þekkti alla leikmenn með nafni. Barnabörnin elskuðu hana, enda veitti hún þeim óskipta athygli og hlýju en var alls ekki eftirlátssöm. Hún hafði sínar reglur á heimilinu og þau lærðu fljótt að virða þær. Þó svo að áhyggjur og kvíði væri henni stundum til trafala þá lét hún það ekki alltaf stoppa sig.  Hún og Nikki heimsóttu okkur fjölskylduna til New York og hún eyddi jólum með okkur í London. Stærsta afrekið var þó án efa árið sem hún varð sjötug og heimsótti okkur alla leið til Beijing í Kína. Hún sagði einhvern tíman við mig að hún skildi ekkert í sjálfri sér að fara út í svona brjálæði! Þetta voru ómetanlegar stundir fyrir okkur fjölskylduna.

Lóa þoldi ekki óheiðarleika eða kjaftagang, kom til dyranna eins og hún var klædd og gerði aldrei mannamun. Hún var mikill húmoristi en fór hljóðlega með það, læddi oft inn fyndnum athugasemdum og mannlýsingum sem fékk alla til að skella upp úr. Kímnigáfan var henni án efa hjálpartæki á erfiðum tímum. Hún fékk sinn skammt af áföllum, löng veikindi og fráföll bæði Nikka og Axels reyndu mikið á hana en alltaf stóð hún keik og hélt áfram lífsins göngu. Þegar Nikki dó gekk hún í öll þau verk sem þurfti að sinna, hvort sem það voru fjármálin eða salan á Smáratúninu og kaup á íbúðinni í Hólmgarðinum. Hún var einfaldlega með allt á hreinu. Ég reyndi oft að minna hana á hvað hún stæði sig vel og að hún mætti gefa sjálfri sér smá klapp á bakið, en þá brosti hún bara og sagði í leiðinni frá einhverju sem hún taldi að hún hafi nú gleymt eða ekki gert nógu vel. Húmorinn var enn til staðar síðustu dagana. Ég kvaddi hana rúmri viku áður en hún fór frá okkur en hún var þá orðin mjög máttfarin.  Við Fríða sátum hjá henni og ég hvíslaði að Fríðu að henni hafi hrakað mikið. Þá opnaði hún skyndilega augun og sagði brosandi „já, henni hefur hrakað mikið!“

Hjartans þakkir fyrir allt Lóa mín. Minningarnar sem við fjölskyldan eigum með þér eru margar og við öll ríkari fyrir vikið. Hvíldu í friði mín kæra.

Guðný.