Oddný Harðardóttir
Oddný Harðardóttir
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs sendi frá sér gríðarlega mikilvæga yfirlýsingu í gær 8. apríl um að Norðurlöndin ættu að beita sér fyrir friðarumleitunum vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs. „Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til…

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs sendi frá sér gríðarlega mikilvæga yfirlýsingu í gær 8. apríl um að Norðurlöndin ættu að beita sér fyrir friðarumleitunum vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs. „Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna að þær hvetji Ísraelsmenn og Palestínumenn og veiti þeim stuðning til að stuðla að friði og sáttum með friðarsamningi sem byggi á alþjóðarétti og ályktunum Sameinuðu þjóðanna.“

Samhljóða tilmæli voru samþykkt á Norðurlandaráðsþingi í nóvember 2015 og eiga ekki síður við í dag og þá.

Norðurlönd hafa komið fram á alþjóðavettvangi sem boðberar friðar og hvatt til alþjóðlegra samninga um frið og afvopnun ásamt því að skapa umgjörð fyrir mikilvægar friðarviðræður í gegnum tíðina. Nægir þar að nefna friðarviðræðurnar á milli Reagans og Gorbachevs á Íslandi árið 1986 og Oslóarsamkomulagið 1993 og 1995 milli Palestínu og Ísraels.

Norðurlönd hafa lagt áherslu á að styrkja alþjóðastofnanir, einkum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, og að efla og standa vörð um alþjóðalög og sáttmála.

Stríðið á milli Hamas og Ísraels, sem staðið hefur frá því í október 2023, hefur nú þegar valdið miklu mannfalli óbreyttra borgara. Daglega fáum við fréttir af börnum sem búa við hræðilegar aðstæður. Við fáum af því fréttir að á síðastliðnum sex mánuðum hafi um 100.000 manns fallið, særst eða sé saknað. Við fáum fréttir af hjálparstarfi sem er hindrað og fær ekki að fara fram til að sinna fólki í mikilli neyð og að hjálparstarfsmenn hafa verið drepnir við störf sín. Ásakanir og vísbendingar um að hungri sé beitt í hernaði eru háværar. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er margbrotinn. Langflestir þeirra sem líða fyrir ástandið er fólk sem ber ekki sökina af því sem gerðist 7. október í Ísrael.

Ástandið er sannarlega flókið og hatrammar deilur hafa staðið árum saman. Því mikilvægara er fyrir lönd sem segjast virða alþjóðasamþykktir og mannréttindi með ráðum og dáð að beita sér fyrir friðarumleitunum og láta friðarraddir heyrast á pólitískum vettvangi. Það höfum við í Norðurlandaráði áður gert og það er ekki síður mikilvægt að við gerum það nú.

Með yfirlýsingunni sendum við í Norðurlandaráði skýr skilaboð um fyrir hvað við stöndum og að við sitjum ekki þegjandi hjá þegar börn og almennir borgarar í mikilli neyð þurfa á okkur að halda. Friður er eitt af grunngildum okkar í norrænu ríkjunum og í þeim öllum ríkir þverpólitísk sátt um að leita ávallt friðsamlegra lausna. Við höfum verið eindregnir talsmenn alþjóðlegra samninga um frið og afvopnun. Og við munum halda því áfram.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar og varaforseti Norðurlandaráðs. oddnyh@althingi.is