Fögnuður Steinunn, fyrir miðju í bakgrunninum, fagnar sigrinum á Færeyjum og EM-sætinu vel og innilega í leikslok á Ásvöllum á sunnudaginn.
Fögnuður Steinunn, fyrir miðju í bakgrunninum, fagnar sigrinum á Færeyjum og EM-sætinu vel og innilega í leikslok á Ásvöllum á sunnudaginn. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Línukonan Steinunn Björnsdóttir lék sinn fyrsta landsleik í tæpt ár þegar hún og liðsfélagar hennar í íslenska landsliðinu í handbolta gulltryggðu sér sæti á lokamóti EM í lok árs með sigri á Færeyjum á Ásvöllum, 24:20, á sunnudag

EM 2024

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Línukonan Steinunn Björnsdóttir lék sinn fyrsta landsleik í tæpt ár þegar hún og liðsfélagar hennar í íslenska landsliðinu í handbolta gulltryggðu sér sæti á lokamóti EM í lok árs með sigri á Færeyjum á Ásvöllum, 24:20, á sunnudag. Ísland er á leiðinni á fyrsta Evrópumótið frá árinu 2012. Fer mótið fram í Sviss, Ungverjalandi og Austurríki frá 28. nóvember til 15. desember.

„Þetta var æðislegt og maður er svolítið að taka þetta inn núna. Stundum gleymir maður hversu stórt sviðið er þegar maður spilar fyrir Ísland. Maður festist í þessu einfalda, fallega lífi sem maður á, að vera móðir og í fæðingaorlofi. Svo fer maður á þetta svið og er minntur á það hvers vegna maður er að þessu,“ sagði Steinunn í samtali við Morgunblaðið.

Ótrúlega mikilvægt að vinna

Ísland hefði farið á lokamótið, sama hvernig leikurinn við Færeyjar fór. Með sigrinum á sunnudag tryggði íslenska liðið sér hins vegar endalega sæti í þriðja styrkleikaflokki á EM, sem getur skipt sköpum.

„Það var ótrúlega mikilvægt að klára þetta með sigri. Við vorum ekkert að spá í einhverja markatölu eða að við hefðum mátt tapa. Sigurinn gaf liðinu mikið og það var gott að klára þetta þokkalega sannfærandi. Það segir okkur að við erum á góðri vegferð með liðið,“ sagði hún.

Steinunn viðurkenndi að það hefði verið öðruvísi tilfinning að fara í leikinn í gær en aðra landsleiki í gegnum tíðina.

„Á tímabili leið mér eins og ég hefði aldrei farið úr liðinu en svo fann ég stresshnút í maganum þegar ég var að keyra í leikinn og í upphituninni. Maður var byrjaður að venjast þessum leikjum áður fyrr en það var aðeins öðruvísi núna. Það var ákveðin pressa að sýna hvað ég get.

Það voru einhverjar efasemdaraddir í höfðinu um hvort maður gæti haldið í fyrra form. En ég held að þetta hafi tekist eins vel og hægt er, miðað við fyrsta leik eftir árs fjarveru. Mér líður vel í skrokknum, en ég hefði þegið betri nætursvefn og að sonur minn hefði verið aðeins samvinnuþýðari,“ sagði Steinunn hlæjandi.

Steinunn skoraði fimm mörk í leiknum og lék afar vel, fjórum mánuðum eftir að hún fæddi barn. Hún hélt sér í góðri æfingu meðan á meðgöngunni stóð og strax í kjölfar fæðingarinnar.

„Það eru margir þættir sem spila inn í. Ég legg inn gríðarlega mikla vinnu, bæði á meðgöngu og eftir fæðingu. Hreyfing fyrir mér er ákveðið geðlyf og það hjálpar. Ég og líkami minn erum samt ekki alltaf frábærir vinir. Ég þjösnast svolítið á sjálfri mér og gef mér lítinn afslátt.

Ég var svo í fínni mömmuþjálfun eftir barnsburð. Ég fór fyrr af stað en gengur og gerist vegna þess að mér leið vel. Ég var ekki óskynsöm, heldur hlustaði á líkamann eftir bestu getu og svo er þetta að einhverju leyti bara heppni. Við erum misbyggðar í þetta og þetta tekst vel til hjá mér með mikilli vinnu,“ sagði hún.

Ísland fékk boðssæti á HM í fyrra, eftir tap gegn Ungverjalandi í umspili. Steinunn var nýbúin að eiga þegar HM-ævintýrið fór af stað og fylgdist með mótinu heima í stofu. Hún á því enn eftir að fara á stórmót með landsliðinu.

„Ég hef varla þorað að leiða hugann að því, því það þurfti margt að ganga upp. Tilhugsunin um að ég ætti eftir að vera ólétt, ganga í gegnum fæðingu og koma til baka. Maður var ekki viss hvernig myndi takast til. Maður er fyrst að átta sig á því í dag að þetta er raunverulegur möguleiki sem maður getur tekið þátt í. Það er mikil tilhlökkun,“ sagði hún.

Fylgdist með HM á bleiku skýi

Steinunn fylgdist með HM í lok síðasta árs heima í stofu, nýbúin að eignast barn. Ísland varð í 25. sæti og vann Forsetabikarinn, sigurverðlaunin fyrir að enda efst þeirra liða sem ekki komust í milliriðil.

„Ég var með nokkurra daga gamalt barn og á bleiku skýi. Það gekk vel í fæðingunni og stráknum heilsaðist vel. Svo naut ég þess í botn að fylgjast með stelpunum. Það var gaman að horfa á þær taka þetta næsta skref. Það eru ungar stelpur sem eiga framtíðina fyrir sér í liðinu og HM gaf þeim aukakraft og reynslu sem við þurfum á að halda. Það var dásamlegt að fylgjast með þeim.“

Ísland verður í þriðja styrkleikaflokki af fjórum á EM og fær því einn andstæðing sem á að teljast slakari. Flest liðin í fyrsta og öðrum flokki eru hins vegar gríðarlega sterk.

„Ég var að skoða þetta í morgun og það eru mörg lið þarna sem ég væri til í að forðast. Vonandi verðum við þokkalega heppnar með dráttinn og fáum ekki allra sterkustu liðin. Við værum til í að sleppa við 4-5 sterkustu þjóðirnar,“ sagði hún.

Steinunn vonast einnig til að ferðalagið á keppnisstaðinn verði þægilegt, bæði fyrir stuðningsmenn og fjölskyldur leikmanna. „Vonandi verður staðsetningin þægileg fyrir Íslendinga sem vilja fylgja okkur og vonandi verður þetta á góðum stað fyrir okkur mömmurnar svo að öll þessi börn geti fylgt liðinu. Ég bið bara um þægilegt flug,“ sagði Steinunn glöð í bragði.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson