[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frambjóðendur til embættis forseta Íslands gætu mögulega orðið fleiri, í kosningunum sem fram undan eru, en nokkurn tíma áður í lýðveldissögunni miðað við stöðuna eins og hún blasir við nú. Katrín Jakobsdóttir, Eiríkur Ingi Jóhannsson og Halla Hrund …

Baksvið

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Frambjóðendur til embættis forseta Íslands gætu mögulega orðið fleiri, í kosningunum sem fram undan eru, en nokkurn tíma áður í lýðveldissögunni miðað við stöðuna eins og hún blasir við nú.

Katrín Jakobsdóttir, Eiríkur Ingi Jóhannsson og Halla Hrund Logadóttir hafa á undanförnum dögum bæst í hóp þeirra sem lýst hafa yfir framboði opinberlega en forsetakosningarnar eru fyrirhugaðar hinn 1. júní næstkomandi.

Framboðsfrestur er til hádegis 26. apríl og enn er því nokkur tími til stefnu fyrir áhugasama. Þegar nær dregur kosningum auglýsir landskjörstjórn fyrirkomulag móttöku framboða en framboðum skal skila til landskjörstjórnar sem úrskurðar um gildi þeirra.

Sex segjast hafa náð lágmarki

Á upplýsingasíðu fyrir forsetakosningarnar á Island.is má sjá að 69 einstaklingar hafa stofnað rafræna meðmælasöfnun. Erfitt er að rýna í hversu mikil alvara er á bak við slíkt en eflaust leynast þar einhverjir spéfuglar sem skemmta sér yfir því að setja nafnið á blað. Rétt er að geta þess að til að skrá sig þarf rafræn skilríki og því er ekki hægt að skrá einhvern annan sem frambjóðanda nema hafa aðgang að rafrænum skilríkjum viðkomandi.

Mbl.is leitaði svara á dögunum hjá frambjóðendum við söfnun meðmælenda en 3. apríl sögðust fimm hafa náð lágmarksfjölda meðmælenda. Voru það Arnar Þór Jónsson, Ástþór Magnússon, Baldur Þórhallsson, Halla Tómasdóttir og Jón Gnarr. Halla Hrund lýsti því yfir í gær að hún hefði náð tilskildum fjölda og bleik yrði verulega brugðið ef Katrín Jakobsdóttir næði ekki 1.500 meðmælendum.

Þá væru sjö frambjóðendur með nægan meðbyr til að halda framboði til streitu en auk þess hefur þjóðþekkt fólk eins og Ásdís Rán Gunnarsdóttir, Guðmundur Felix Grétarsson og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir lýst yfir framboði. Eins og fram hefur komið þykir þröskuldurinn vera ansi lágur eða 1.500 undirskriftir en sú tala hefur ekki breyst þrátt fyrir þá fólksfjölgun sem orðið hefur á Íslandi. Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur, Alma Möller landlæknir og Jakob Frímann Magnússon alþingismaður gefa ekki kost á sér en voru í umræðunni.

Metfjöldi árið 2016

Í kosningum árið 2016 voru níu frambjóðendur sem er Íslandsmet í forsetakosningum. Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn forseti og er nú að ljúka öðru kjörtímabili sínu. Hann lýsti því sem kunnugt er yfir í nýársávarpi sínu að hann myndi láta staðar numið. Mbl.is tók púlsinn á Guðna 27. mars þegar hann hafði mælst vel í könnunum þrátt fyrir að vera ekki í framboði. Viðurkenndi Guðni að hann hefði fengið fjölda áskorana um að endurskoða ákvörðun sína en það myndi hann ekki gera nema rík ástæða væri til.

Eins og rifjað var upp í sunnudagsblaðinu um liðna helgi voru fjórir í framboði í kosningunum árið 1980 og þótti mikið. Vigdís Finnbogadóttir var þá kjörin og sat á Bessastöðum í 16 ár við miklar vinsældir. Aftur voru fjórir í framboði árið 1996 þegar Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn. Guðrún Pétursdóttir dró framboð sitt reyndar til baka einungis tíu dögum fyrir kosningar og drjúgan hluta kosningabaráttunnar 1996 höfðu því verið fimm frambjóðendur.

Fyrsti forseti Íslands, Sveinn Björnsson, er sá eini sem ekki hefur þurft að keppa við aðra frambjóðendur í slíkum kosningum á Íslandi. Var hann fyrst kosinn af Alþingi árið 1944 og var í framhaldinu sjálfkjörinn bæði 1945 og 1949. Ásgeir Ásgeirsson tók við af Sveini árið 1952 og voru þá þrír í framboði þótt yfirleitt sé talað um slag Ásgeirs og séra Bjarna Jónssonar sem var býsna jafn en tæplega 1.900 atkvæðum munaði á þeim. Kristján Eldjárn og Gunnar Thoroddsen voru hins vegar einungis tveir í framboði árið 1968 og fékk Kristján afgerandi kosningu.

Þrjú virðast skera sig úr

Maskína birti í gær niðurstöður úr nýrri könnun um fylgi frambjóðenda og fór Katrín beint á toppinn með 32,9% þeirra sem tóku afstöðu. Baldur Þórhallsson er með 26,7% samkvæmt könnuninni og Jón Gnarr 19,6%.

Þar sem rúmar tvær vikur eru enn eftir af framboðsfrestinum er of snemmt að segja til um hvort metfjöldi frambjóðenda verði í boði fyrir kjósendur. Landskjörstjórn kemur saman að morgni föstudagsins 26. apríl og gefst þá frambjóðendum tækifæri til að ræða við kjörstjórnina. Að sögn Kristínar Edwald formanns landskjörstjórnar mun kjörstjórnin nota helgina 27. og 28. apríl til að fara yfir listana. Hún telur að auglýst verði í síðasta lagi 2. maí hverjir verða í framboði til forseta Íslands og í framhaldinu verður hægt að greiða atkvæði utan kjörstaðar.

Þess má geta að ýmsar reglur gilda varðandi meðmælendur. Til að mæla með frambjóðanda þarf viðkomandi að vera með kosningarétt. Þarf því að vera íslenskur ríkisborgari, með lögheimili á Íslandi og hafa náð 18 ára aldri á kjördag. Ekki er leyfilegt að mæla með fleiri en einum frambjóðanda og fólk sem tekur að sér störf í kjörstjórnum getur ekki mælt með frambjóðanda. Þegar misbrestur verður á atriðum sem þessum er viðmælandinn strokaður út. Frambjóðendur þurfa því að hafa borð fyrir báru en efri mörkin í meðmælendasöfnuninni eru 3 þúsund.

Eins og gengur eru frambjóðendur misjafnlega langt komnir í sinni vinnu. Einhverjir þeirra hafa ferðast um landið til að kynna sig og áherslumálin og aðrir eru að leggja í slíkan leiðangur.