Sigurður Reynir Guðmundsson fæddist 6. júlí 1930. Hann lést 16. febrúar 2024.

Útför Sigurðar fór fram 27. febrúar 2024.

Mig langar að minnast í nokkrum orðum vinar míns og fjölskyldu okkar, Sigurðar Guðmundssonar, en hann var einn af þeim sjö ofurhugum sem hófu uppbyggingu í Ásgarði árið 1961 og stofnuðu síðan Skíðaskólann í Kerlingarfjöllum. Nú eru þeir allir horfnir á braut nema öðlingurinn Valdimar Örnólfsson. Eigendurnir byggðu sér hver sitt hús með A-lagi sem varð einkenni í dalnum. Flest þeirra og aðalskálinn voru reist við Ásgarðsána en handan hennar byggði faðir minn Einar fyrsta húsið árið 1966, svo Valdimar Valdastól og síðan reisti Sigurður Sælugerði og svo pabbi annað hús við hlið Sigga. Fjölskyldur okkar, mín, Sigga og Valdimars, voru því nágrannar í fjöllunum í rúma hálfa öld sem aldrei bar skugga á. Þetta voru stórhuga menn sem létu ekkert stoppa sig, hvorki vegleysur né vatnsföll, en ferðirnar inn eftir á vorin voru hinar mestu svaðilfarir, mikil aurbleyta og árnar oft erfiðar.

Í mörg ár var viku námskeið í Kerlingarfjöllum vinsælasta fermingargjöfin. Ekki var alltaf blíða en þá var spilað á spil, sungið og trallað eða farið vel búin í gönguferð oft í bullandi slagveðri.

Kvöldvökur voru á hverju kvöldi og þá skiptust hópar á að vera með skemmtiatriði og fara í leiki. Þá voru allir með bæði tjaldbúar og aðrir gestir á staðnum. Í lok hverrar kvöldvöku var svo ball og þar söng og spilaði Siggi ýmist á gítar eða harmonikku af sinni alkunnu snilld.

Þegar kokkurinn dunaði og gólfið í aðalskálanum dúaði var farið út og marserað í marga hringi kringum aðalskálann.

Það hafa orðið mikil umskipti í Ásgarði. Aðalskálinn og fjöldi annarra A-laga húsa sem einkenndu staðinn hafa horfið og í staðinn er komið annars konar umhverfi en húsin fjögur standa enn handan árinnar til merkis um liðna tíð.

Eins er með fjöllin, þau verða áfram í sínum stað um ókomna tíð, því getur engin mannlegur máttur breytt.

Hugur minn gleðst þegar ég hugsa til veru minnar í Kerlingarfjöllum sem barn og unglingur. Siggi var mikill foringi sem við unglingarnir bárum mikla virðingu fyrir. Hann gat verið hvass en alltaf sanngjarn og uppeldislega voru unglingsárin mín undir stjórn Sigga mikil gæfa. Við sem áttum þar sumardvöl lærðum að vinna og taka fullt tillit hvert til annars. Ég fór fyrst í fjöllin með foreldrum mínum Unni og Einari Eyfells mjög ung en eyddi síðan unglingsárum mínum þar við leik og störf.

Ég er óendanlega þakklát fyrir mína góðu æsku sem ég átti í Kerlingarfjöllum undir handleiðslu Sigga og annarra góðra manna og kvenna. Eftir að Siggi var orðinn einn hittum við hjónin hann oft í fjöllunum og áttum góðar stundir. Fórum í göngu um hverasvæðið, böðuðum okkur í gilinu og elduðum svo góðan mat í húsinu okkar á kvöldin.

Þá var lagið tekið undir gítarleik Sigga og rifjaðar upp góðar gamlar minningar.

Ég kveð Sigurð Guðmundsson vin minn með söknuði og af virðingu og við fjölskyldan sendum börnum hans og afkomendum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Margrét Eyfells.