Ragnheiður Nanna Björnsdóttir fæddist á Hofi í Fellum 28. maí 1940. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Reykjavík 23. mars 2024.

Hún var dóttir hjónana Björns Gunnarssonar, f. 22. júlí 1904, d. 20. apríl 1990, og Sigurlaugar Jónsdóttur, f. 28. febrúar 1910, d. 8. mars 1998. Nanna var önnur í röð fjögurra systkina. Elstur var Ingibergur, f. 1935, hann er látinn, Sigurveig, f. 1945, búsett á Egilsstöðum og yngstur er Gunnar, f. 1947, búsettur á Egilsstöðum.

Nanna giftist Þorsteini J. Þórhallssyni frá Langhúsum í Fljótsdal 17. desember 1961 hann lést 3. september 2016. Synir þeirra eru: 1) Sigurbjörn, f. 2. ágúst 1962, giftur Helgu Sigurðardóttir, börn Helgu og stjúpbörn Sigurbjörns eru Heiðar Lár, Sigrún og Halldór Karl, barnabörn eru fimm og barnabarnabörn eru þrjú. 2) Þórhallur Unnar, f. 23. apríl 1968, synir hans og Emilíu Kr. Rigensborg, en þau slitu samvistir, eru Andri Freyr, f. 1999, Erik Nói, f. 2005, og Unnar Þorri, f. 2007.

Nanna fór ung að heiman og var í Alþýðuskólanum á Eiðum einn vetur og fór annan vetur í Húsmæðraskólann á Laugalandi í Eyjafirði. Hún vann ýmis störf hjá KHB Egilstöðum, m.a. í mjólkurbúi og kjörbúð.

Eftir hússtjórnarskólann fór hún að vinna á Skriðuklaustri þar sem hún kynntist Þorsteini, þau unnu svo á búinu á Egilstöðum einn vetur áður en þau fluttu á Reyðarfjörð þar sem þau höfu búskap.

Hún var heimavinnandi húsmóðir þar til 1978, þá fór hún á vinnumarkað og vann á saumastofunni Hörpu, Gunnarsbakaríi, KK matvælum og í Landsbanka Íslands og svo var farið í síldarsöltun þegar þurfti.

Hún var mjög virk í öllu félagsstarfi og var mjög félagslynd, var í kirkjukór, sóknarnefnd, kvenfélagi, saumaklúbb og virk í starfi eldri borgara og verkalýðsfélagi. Árið 2008 fluttu þau hjón til Reykjavíkur en þá voru þau bæði hætt að vinna og Þorsteinn kominn með alzheimersjúkdóm sem hann lést úr 2016.

Þau hjónin ferðuðust eins mikið saman og þau gátu, bæði innan lands og utan, þá var farið hringferð um landið reglulega og upp í hérað næstum hverja helgi. Einnig ferðuðust þau töluvert til útlanda, m.a. til Ísraels og Egyptalands.

Síðustu þrjú og hálft ár hefur hún dvalist á Hjúkrunarheimilinu Skjóli og Hrafnistu í Reykjavík þar sem hún lést.

Útför hennar fer fram frá Áskirkju í Reykjavík í dag, 9. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku mamma.

Mig langar til að minnast þín með nokkrum orðum. Alla mína æsku varstu heimavinnandi húsmóðir, þú fórst ekki að vinna úti fyrr en ég var búinn með grunnskólann þannig að ég man ekki eftir þér öðruvísi en að vera eitthvað að stússast í eldhúsinu að baka eitthvert góðgæti til að hafa með kaffinu eða að elda eitthvað gott í matinn en það var alltaf heitur matur bæði í hádeginu og á kvöldin, það var gott að geta komið heim sársvangur því það var alltaf eitthvað til hvenær dagsins sem maður vildi fá eitthvað að borða.

Ég man þegar ég var í skóla í Reykjavík þá sendir þú mér alltaf eitthvert bakkelsi ef það var ferð suður, kleinur, lagkökur, eitthvað af smákökum og alltaf fylgdi einn kaffipakki með. Eftir að ég flutti suður til Reykjavíkur var alltaf gott að koma heim til ykkar pabba á Túngötuna, þá var alltaf slegið upp veislu. Þið pabbi fluttuð suður 2008 og bjugguð ykkur fallegt heimili í Skipasundi 85 og það var gott að koma til ykkar í kaffi og mat og njóta samverustunda með ykkur.

Þegar pabbi fór á Sólteig á Hrafnistu þá fluttir þú á Dalbraut 20 og áttir þar góðan tíma, varst mikið í félagsstarfi sem þar fór fram eins og t.d. að þú sást um félagsvistina sem var spiluð þar einu sinni í viku og svo spilaðir þú félagsvist alls staðar sem hún var í boði í borginni. Seinustu þrjú árin dvaldir þú á Hjúkrunarheimilinu Skjóli og frá því um mitt sumar 2023 fórst þú yfir á Hrafnistu Laugarási. Elsku mamma, hvíldu í friði.

Þú gengin ert hugglöð á frelsarans fund

og fagnar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

Nú kveðja þig vinir með klökkva og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Þinn sonur,

Sigurbjörn.

Það eru ekki allir jafn heppnir og við feðgar að hafa unnið í bæði mömmu- og ömmulottóinu því þú varst alltaf til staðar ef við þurftum á þér að halda með mat og skjól og ást og hlýju.

Ég fór ungur að heiman og minnist þess að hafa alist upp á yndislegu heimili þar sem ég fékk gott veganesti út í lífið og alltaf var jafn yndislegt að koma heim og fá frábæran mat og kökur sem þú galdraðir fram af þinni alkunnu snilld og spjall við ykkur pabba um lífið og tilveruna.

Þú varst mikill dugnaðarforkur sem þurfti alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni og bar heimilið þess svo sannarlega merki, alltaf allt hreint og hver hlutur á sínum stað og þegar kom að mat var stanslaus veisla og alltaf nóg til, þið hjónin sáuð um það. Svo varstu nýjungagjörn og alltaf opin fyrir að prófa eitthvað nýtt. Ég minnist þess hvað mér fannst hrikalega gaman að hjálpa þér að baka og sérstaklega fyrir jól og það er sennilega þér að þakka að ég fór að læra bakstur og er bakari í dag, áhugi minn kviknaði hjá þér enda voru bakaðar 15-20 sortir af kökum fyrir jól þegar ég var að alast upp og var oft fjör hjá okkur í bakstrinum.

Þú varst mikil félagsvera og alltaf tilbúin að hjálpa öðrum ef þú varst beðin, og frændrækin varstu.

Þú varst mikið í félagsstarfi þegar þið bjugguð á Reyðarfirði og tókst mjög virkan þátt í samfélaginu. Þú elskaðir ferðalög, man ég vel eftir öllum hringferðunum sem við fórum í á Bjöllunni með vinafólki sem er ógleymanlegt, einnig öllum ferðunum í Hof, Langhús og Arnaldsstaði, þangað fórum við um helgar og áttum yndislegar stundir með frændfólki okkar.

Það var yndislegt að fá ykkur pabba til Reykjavíkur árið 2008 og þið bjugguð ykkur fallegt heimili í Skipasundi 85 sem var yndislegt að koma á. Þar var uppteknum hætti haldið og hver veislan á fætur annarri framreidd af þinni alkunnu snilld. Vissulega var pabbi orðinn veikur af alzheimer og annaðist þú hann af ástúð og natni fram að andláti hans 2016.

Það er ekki hægt að minnast þín öðruvísi en að tala um hvað þú hafðir gaman af að spila og notaðir þú hvert tækifæri sem gafst til þess og þú spilaðir félagsvist eins oft og færi gafst. Síðustu árin þín spiluðum við næstum daglega annaðhvort rússa eða kasínu, þeirra stunda er ég nú þegar farinn að sakna mikið. Strákarnir mínir minnast þín líka fyrir spilamennskuna og fannst skrítið að þú ynnir alltaf því það var ekkert gefið eftir og var mikið grínast með að amma væri með svindlgleraugun, þess vegna ynni hún alltaf. Þeir minnast þess hvað var gott að koma til ykkar afa og oft er ég beðinn að elda læri eins og amma gerði.

Þú ferðaðist töluvert til útlanda og fórum við í ferðalag saman til Frakklands árið 2004 ásamt pabba, Emilíu og Andra sem er ógleymanlegt og oft ræddum við þá ferð þar sem við fórum til Monarkó í Korsíku og skoðuðum lítil fjallaþorp.

Elsku mamma og amma takk fyrir allt, þú verður alltaf í hjörtum okkar. Ég veit að pabbi tekur á móti þér með hlýjan faðminn.

Strákarnir þínir,

Unnar, Andri, Erik
og Unnar Þorri.

Ég veit af lind, er líður fram

sem ljúfur blær.

Hún hvíslar lágt við klettastall

sem kristall tær.

Hún svalar mér um sumardag,

er sólin skín.

Ég teyga af þeirri lífsins lind,

þá ljósið dvín.

Og þegar sjónin myrkvast mín

og máttur þver,

ég veit, að ljóssins draumadís

mér drykkinn ber.

Svo berst ég inn í bjartan sal

og blessað vor.

Þá verður jarðlífs gatan gleymd

og gengin spor.

En lindin streymir, streymir fram,

ei stöðvast kann,

og áfram læknar þunga þjáðan,

þyrstan mann.

(Hugrún)

Með þökk fyrir allt elsku Nanna, þín tengdadóttir,

Helga.