Blaðamennska Lasse Skytt varð uppvís að ritstuldi og uppspuna.
Blaðamennska Lasse Skytt varð uppvís að ritstuldi og uppspuna.
Tugir greina eftir danska blaðamanninn Lasse Skytt, sem búsettur hefur verið hér á landi, hafa verið dregnar til baka af norrænum fjölmiðlum eftir rannsókn á þeim vegna gruns um ritstuld og uppspuna, sem nú hefur verið staðfestur

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Tugir greina eftir danska blaðamanninn Lasse Skytt, sem búsettur hefur verið hér á landi, hafa verið dregnar til baka af norrænum fjölmiðlum eftir rannsókn á þeim vegna gruns um ritstuld og uppspuna, sem nú hefur verið staðfestur. Danska stórblaðið Jyllands-Posten hefur auk þess krafist jafnvirði 3 milljóna íslenskra króna í skaðabætur.

Fram kemur í Journalisten, málgagni danska blaðamannafélagsins, að við rannsókn norska tímaritsins Aftenposten Innsikt hafi fundist slíkir „ágallar“ á 23 af 43 greinum hans fyrir blaðið að nauðsynlegt hafi reynst að draga þær til baka.

Öll skrif Skytts fyrir tímaritið voru tekin úr umferð á sínum tíma, en fyrirhugað er að setja þær sem út af standa aftur í birtingu með leiðréttingum og réttum heimildum. Mikið af fölsunum Skytts fólust í að tína upp tilvitnuð ummæli í fólk úr öðrum miðlum og setja saman líkt og hann hefði tekið viðtalið.

Skaðabótakrafa Jyllands-Posten, sem dró til baka 39 greinar Skytts, miðast við að endurheimta það sem greitt var fyrir greinarnar og þá vinnu, sem fór í að komast að hinu sanna, en ekki þann áfelli, sem blaðið hefur orðið fyrir.

Allmargir norrænir miðlar aðrir hafa farið yfir skrif Skytts fyrir þá, eftir að Kristeligt Dagblad varð fyrst áskynja um ritstuld í greinum frá honum. Þar á meðal eru norsku blöðin Vårt Land, Dagbladet og Klassekampen, og dönsku blöðin Berlingske, Weekendavisen, Information, Journal­isten sjálft og Politiken.