Sigurlaug Bjarnadóttir, húsfreyja og bóndi í Efri-Miðbæ, fæddist á Ormsstöðum í Norðfjarðarsveit 14. mars 1941 en ólst upp í Þrastarlundi í sömu sveit. Sigurlaug lést á Umdæmissjúkrahúsinu í Neskaupstað 17. febrúar 2024.

Foreldrar hennar voru þau Sigurborg Steindórsdóttir frá Straumi í Hróarstungu, f. 3. maí 1916, d. 3. janúar 2002, og Bjarni Guðlaugur Jónsson frá Ormsstöðum í Norðfjarðarhreppi, f. 15. febrúar 1914, d. 26. ágúst 1996. Þau hófu búskap í Þrastarlundi árið 1940.

Sigurlaug átti tvö systkini, þau Steindór Jón bifreiðarstjóra, f. 8. júlí 1943, d. 29. október 2022, og Jónínu Guðnýju leikskólakennara í Reykjavík, f. 21. nóvember 1953.

Sigurlaug var gift Hákoni Guðröðarsyni bónda í Efri-Miðbæ, f. 10. nóvember 1937, d. 24. apríl 1991. Foreldrar hans voru Guðröður Jónsson, f. 2. janúar 1908, d. 24. júlí 1979 og Halldóra Sigfinnsdóttir, f. 18. ágúst 1911, d. 18. apríl 1986.

Sigurlaug og Hákon áttu fimm börn: 1) Bjarni, f. 30. apríl 1959, d. 21. desember 2023. 2) Halldóra Guðrún, f. 6. september 1960. 3) Sigurborg, f. 28. ágúst 1961. 4) Guðröður, f. 30. apríl 1963. 5) Jón Björn, f. 27. janúar 1973.

Útför fór fram 26. febrúar 2024.

Margar góðar minningar á ég um frænku mína Sigurlaugu Bjarnadóttur.

Silla, eins og hún var nú oftast kölluð, var ótrúleg kona. Hún var mikill dugnaðarforkur og féll sjaldan verk úr hendi. Hún var eldklár og það lék allt í höndunum á henni. Hún eldaði góðan mat og bakaði æðislegar kökur. Ég á margar góðar uppskriftir frá henni frænku minni. Ein af mínum uppáhaldskökum er kókosterta, sem ég fékk nánast alltaf þegar ég kíkti í Miðbæ. Auðvitað skrifaði ég þessa uppskrift niður og í minni bók heitir kakan einfaldlega: Silla.

Silla hafði líka mikinn áhuga á garðrækt og hún átti mjög fallegan garð. Þar hafði hún ræktað falleg tré og blóm í áratugi og hún hafði einstaklega gaman af að segja mér frá þessu öllu saman.

Það var mjög gaman að heimsækja Sillu í Miðbæ. Hún var ákveðin, hún hafði skoðanir á hlutunum og sagði þær umbúðalaust. Við gátum rætt saman um allt mögulegt. Hún fylgdist alltaf vel með sínu fólki.

Sumarið 2023 starfaði ég á HSA á Norðfirði og þá hittumst við Silla nokkuð oft. Hún hafði gaman af því að fara á rúntinn og einn daginn lögðum við leið okkar á Seyðisfjörð. Við skoðuðum bæinn, nýju varnargarðana, fórum á kaffihús og skoðuðum handverk. Þetta var ógleymanlegur dagur. Ég er þakklát fyrir allar þær góðu stundir sem við Silla áttum saman.

Ég sendi fjölskyldu Sillu samúðarkveðju.

Bjarný Sigmarsdóttir.

Tvær litlar tátur og bræðradætur litu dagsins ljós og ólust upp á tveimur ystu bæjunum í sveitinni, Þrastalundi og Ormsstöðum. Reyndar báðar fæddar á Ormsstöðum.

Eðli málsins samkvæmt hittust þær ekki fyrstu árin nema í fylgd með fullorðnum en svo kom að því að þær fóru að trítla á milli bæjanna. Í fyrstu var fylgt yfir Hjáleigulækinn því ekki dugði að láta heimasæturnar detta í lækinn. Og þessar ferðir urðu óteljandi á okkar uppvaxtarárum. Þarna var lagður grunnur að ævilangri vináttu.

Hefðbundin sveitastörf þeirra tíma fylgdu uppvextinum en við tókumst líka á við ýmislegt annað. Eitt langar mig að nefna sem þótti svo merkilegt að það rataði í hádegisfréttir RÚV á þeim tíma. Þar var sagt að svo mikill skortur væri á vinnuafli í Neskaupstað (lesist karlmenn) að kvenfólk væri við vegagerð í Norðfjarðarsveit. Og við vorum sko ekki latar!

Báðar fórum við í húsmæðraskóla, Silla í Laugar, ég í Varmaland. Þetta var afskaplega skemmtilegur tími og við lærðum margt og mikið en ekki var síður mikilvægur grunnurinn frá mæðrum okkar.

Silla mín var mikil matmóðir og þvílík ósköp af mat og bakkelsi sem hún hefur framreitt í sínum búskap, hún með sína stóru fjölskyldu og gestagang. Þess höfum við, ég og mín fjölskylda, notið enda voru þau hjónin höfðingjar heim að sækja, hún og Hákon.

Vegna búsetu minnar í Hafnarfirði hittumst við sjaldnar en við hefðum óskað en grunnurinn sem lagður var á æskuárum var alltaf traustur og gerði vináttuna tímalausa. Enda var það svo að þegar við hittumst var eins og það hefði gerst síðast í gær. Og þannig var það alla tíð.

Elsku Dóra, Sibba, Gurri, Jón Björn og fjölskyldur, missir ykkar er þyngri en tárum taki eftir sviplegt fráfall Bjarna bróður ykkar í desember og svo að mamma ykkar kveður snögglega 17. febrúar.

Við Garðar sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum almættið að vaka yfir ykkur og varðveita elsku vinkonu mína.

Hulda A. Scheving.

Þegar æskuminningarnar eru rifjaðar upp vill svo merkilega til að engar þeirra tengjast sumrum í Reykjavík þar sem við systkinin vorum sannarlega alin upp. Við vorum einfaldlega alltaf á Norðfirði, nema Inga sem fór norður til móðurfjölskyldunnar.

Þegar við systur byrjuðum að dvelja sumarlangt hjá afa og ömmu í Neskaupstað voru dagarnir sem við fengum að fara inn í sveit til Sillu og Hákonar frænda hápunkturinn. Stundum keyrði afi okkur inn eftir um hádegisbil á N-40 en best var þegar við fengum að sitja í mjólkurbílnum með Hákoni og vorum komnar inn í sveit löngu fyrir hádegi.

Svo kom að því að við systur og seinna Guðmundur vorum einfaldlega sumarlangt í Efri-Miðbæ og tókum þátt í öllu því stússi sem fylgir því að reka stórt fjárbú og heimili þar sem gestakomur voru endalausar. Og það þótti sjálfsagt að taka þátt í því sem búskapnum fylgdi svo sem að smala og rýja inni í Fannardal, stinga út úr hlöðunni og hænsnahúsinu og keyra Fergusoninn með vagn í eftirdragi sem tók við heyböggum sem nýja baggavélin spýtti út úr sér og voru alltof stórir.

Þegar tími gafst svo til lékum við frændsystkinin okkur að legg og skel í orðsins fyllstu merkingu en líka ýmsu öðru. Bjarni tók reyndar ekki þátt í leikjum okkar barnanna enda var hann orðinn fullorðinn um 10 ára aldurinn og gekk í öll verk sem slíkur. Og svo var slegist, helst Sigga eða Guðmundur við Gurra, grenjað og hlegið og ekki síst borðað svo sem eins og 6 sinnum á dag.

Það var á við vetrardvöl í húsmæðraskóla að vera í inniverkum í Efri-Miðbæ sumarlangt og við systur lærðum sannarlega til verka hjá Sillu. Sibba og Dóra Gunna voru löngu komnar með meiraprófið í þessum verkefnum þegar við systur mættum á svæðið. Það var dásamlegt að hlusta á Sillu syngja með útvarpinu við eldhúsverkin og það lag sem fyrst kemur upp í hugann er að sjálfsögðu með Geirmundi; Bíddu við! Í sveitinni hjá Sillu lærðum við líka undirstöðuatriðin í barnapössun eftir að örverpið Jón Björn kom í heiminn.

Það var alveg sama hversu margir gestir dúkkuðu upp í Efri-Miðbæ, jafnvel í miðjum slætti, alltaf var tekið jafn vel á móti þeim og bakkelsið sem var til í búrinu og frystikistunni virtist endalaust. Silla bara brosti, lagði á borð og bar fram veitingar og lét eins og hún hefði ekkert annað að gera en að spjalla í rólegheitum við gestina að sunnan. Þrátt fyrir endalausar annir gaf Silla sér alltaf tíma til að hlusta á okkur krakkana og hughreysta þegar á þurfti að halda en sumir voru stundum litlir í sér svona fyrstu dagana eftir aðskilnað frá foreldrum. Silla var kærleiksrík kona en hún var líka sanngjörn og ákveðin og lét fólk ekki komast upp með neinn moðreyk.

Heimurinn er sannarlega fátækari eftir fráfall elsku Sillu en við sem vorum svo heppin að kynnast henni og eiga hana að sem „áhrifavald“ í lífi okkar erum ríkari fyrir vikið.

Elsku Dóra Gunna, Sibba, Gurri og Jón Björn; takk fyrir að deila mömmu ykkar með okkur. Hennar er sárt saknað.

Halldóra, Sigríður
Jóhanna og Guðmundur Karl Friðjónsbörn.

Í dag kveðjum við mæta merkiskonu, hana Sillu í Efri-Miðbæ. Því fylgir sorg og mikill söknuður hjá þeim sem áttu hana að og þeir eru fjölmargir. Silla virtist nefnilega alltaf hafa pláss undir verndarvængnum sínum og eiga aukalega af umhyggju og kærleik. Hún hafði þann hæfileika að gefa af sjálfri sér án þess að vera meðvituð um dyggð sína eða ætlast til nokkurs á móti og frá fæðingu hef ég fengið að njóta gjafa hennar. Það var alltaf mikið tilhlökkunarefni að koma í Miðbæ og hitta frændfólkið þar. Silla stýrði mannmörgu heimilinu styrkri hendi og þau Hákon tóku á móti okkur af einstökum höfðingsskap og hlýju og sýndu öllum áhuga. Vildu vita hvað hver og einn væri að fást við og hvernig gengi. Ekki var minni tilhlökkun tengd því að fá jólapakkana að austan og þeir hittu alltaf í mark, Silla kunni að velja það sem hentaði hverjum og einum.

Þegar ég flutti austur á Norðfjörð með elstu dótturina innlimaði Silla okkur strax í hópinn sinn og fæ ég henni og fjölskyldunni aldrei fullþakkað hversu vel þau tóku á móti okkur. Gestrisnin, alúðin og væntumþykjan sem við fjölskyldan höfum svo fengið að njóta alla tíð síðan er ómetanleg en frá Sillu hendi aldrei nema sjálfsögð. Að prjóna lopapeysur á allar stelpurnar mínar þegar ég gaf mér ekki tíma til þess, færa okkur sultu og nýuppteknar kartöflur á haustin, sýna öllum okkar áhuga og bera fyrir brjósti, þetta var í hennar huga lítilræði og ekkert mál.

Silla var mikill búhöldur og hafði mjög gott lag á skepnum. Hún var alltaf fljót að koma yfir þegar hún vissi að voru komin lömb hjá okkur og fannst sérlega gaman að mislitu fé. Við áttum góðar stundir við að dást að þeim saman og gjarnan fylgdu hagnýt ráð.

Það var gott að leita ráða hjá Sillu og hún var vel heima með ótal margt. Hún kunni að meta myndarbrag á hlutum, ekki síst fallegt handverk en sjálf var hún mjög fær handavinnukona og hafa margir fengið að njóta góðs af því.

Ævin hennar Sillu var alls ekki áfallalaus en hún kaus að takast á við stormviðri lífsins með því að halda áfram að gera eitthvað og finna tilgang lífsins gegnum verk sín. Það átti ekki vel við hana að missa krafta og styrk og geta ekki verið til gagns eins og hún orðaði það. Hún var hún sjálf og hélt reisn sinni til hinstu stundar og þannig munum við minnast hennar. Foringja sem gat sagt svikalaust til og notað til þess mjög kjarnyrta íslensku, en kunni líka að hvetja og hrósa á hárréttum stöðum. Óendanlega kærleiksríkrar manneskju sem elskaði börnin sín og fjölskyldur þeirra umfram allt og átti sínar bestu stundir með þeim. Ættmóðirin mikla sem hefur haldið svo þétt og vel utan um alla, fylgst með hverjum og einum og lagt sig fram um að vera alltaf til staðar er nú kvödd með miklum trega. Minning hennar mun lifa í öllu því góða sem hún miðlaði á ævinni. Frændsystkinum mínum og fjölskyldum þeirra sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum þess að Guð og góðar vættir styrki þau og leiði í þeirri miklu sorg sem að þeim steðjar. Farðu í friði elsku Silla og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þórhalla, Viðar og dætur.

Fyrsta minning mín um Sillu er á barnaskemmtun á Kirkjumel þegar hún var á að giska 6 til 7 ára. Hún var með mikið ljóst hár í hvítum kjól sem mamma hennar hafði saumað í rósabekk með vínrauðu reyrðu garni allan hringinn neðst á pilsinu og sama munstrið efst í blússuna. Strax í barnaskóla kom greinilega fram að Silla hafði hugrekki og þor, hún sagði meiningu sína og lá ekki á henni og hún hélt verndarhendi yfir minni máttar.

Eftir að ég flutti 12 ára frá Norðfirði skrifuðumst við á, það var ekki legið í símanum þá. Við vorum 14 og 15 ára (hún ári eldri) þegar við fengum að fara með tjald á útiskemmtanir bæði í Hallormsstaðar- og Egilsstaðaskógi í eftirliti pabba míns. Silla bar af öðrum ungum stúlkum og strákarnir snerust í kringum hana. Svo kom það fyrir stuttu seinna um sumarið að hún gisti hjá mér, þá vaknaði ég um miðja nótt við það að einn aðdáandi hennar var að skríða inn um eldhúsgluggann því hann vildi ná tali af henni. Ég stillti mér upp í dyrunum eins og úlfynja og hann fór út sömu leið og hann kom.

Á tímabilinu frá 16 ára til tvítugs hittumst við ekki því ég var ekki á staðnum. Við bara skrifuðumst á, það kom kort um jólin ásamt myndum og á hverju ári bættist við nýtt barn á myndunum frá Sillu. Svo var það í ágúst 1962 að ég kom í heimsókn til hennar, hún var þá 21 árs gömul og bjó í pínulitlu húsi í Efri-Miðbæ. Þegar ég kom var hún að baða nokkurra vikna ungbarn í eldhúsvaskinum, það var hennar fjórða barn. Eldri börnin þrjú sváfu í herberginu fyrir innan ásamt barnapíunni. Mér fannst hún sýna ofurmannlegan dugnað að geta þetta. Síðan byggðu Hákon og Silla nýtt hús og nokkrum árum seinna bættu þau við fimmta barninu.

Silla var alltaf með fjölmennt heimili, auk hennar fimm barna voru oft nokkur aukabörn á sumrin og geysilegur gestagangur. Fjölskylda mín naut ríkulega hennar einstöku höfðinglegu gestrisni.

Mér finnst eins og það hafi gerst í einni svipan að börnin hennar uxu upp og barnabörnin hennar líka. Allt í einu var kominn stór hópur barnabarnabarna. Við gerðum grín að því þegar ég hringdi í hana fyrir tæpum fimm árum og sagði henni að ég hefði eignast fyrsta langömmubarnið, þá voru hennar langömmubörn orðin 25 og hefur fjölgað síðan. Unun var að fylgjast með hvernig Silla sinnti þessum stóra hópi, hún fylgdist með framförum og eiginleikum hvers barns, gaf þeim afmælis- og jólagjafir, oftast það sem hún prjónaði eða hafði búið til sjálf.

Alla ævi höfum við Silla ræktað vináttu okkar þó að langt hafi verið á milli. Á seinni árum auðnaðist okkur að hittast oftar en áður. Í rúman áratug höfum við á hverju sumri eytt saman einni viku, oftast á Akureyri. Eftirfarandi ljóðlínur finnst mér eiga vel við lífshlaup Sillu.

Ég þekki konur með eld í æðum

frjálsar í tali fyndnar í ræðum,

sem þekkja lífið og lífsins sorgir

en minnast aldrei á brunnar borgir.

(Höfundur ókunnur).

Við hjónin vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Ingibjörg (Imba).