Mark Jason Daði Svanþórsson skorar fyrsta mark Breiðabliks á tímabilinu í Bestu deild karla en hann sendi boltann laglega í markhornið nær eftir fyrirgjöf Viktors Karls Einarssonar frá hægri. Þrír FH-ingar verjast.
Mark Jason Daði Svanþórsson skorar fyrsta mark Breiðabliks á tímabilinu í Bestu deild karla en hann sendi boltann laglega í markhornið nær eftir fyrirgjöf Viktors Karls Einarssonar frá hægri. Þrír FH-ingar verjast. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Breiðablik slóst í hóp þriggja Reykjavíkurfélaga sem öll unnu leiki sína 2:0 í fyrstu umferð Bestu deildar karla og lagði FH að velli á Kópavogsvellinum í gærkvöld með sömu markatölu. Liðin þrjú sem nær allir hafa spáð þremur efstu sætunum, Valur,…

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Breiðablik slóst í hóp þriggja Reykjavíkurfélaga sem öll unnu leiki sína 2:0 í fyrstu umferð Bestu deildar karla og lagði FH að velli á Kópavogsvellinum í gærkvöld með sömu markatölu.

Liðin þrjú sem nær allir hafa spáð þremur efstu sætunum, Valur, Víkingur og Breiðablik, unnu því nákvæmlega eins sigra í umferðinni en Blikar fengu heldur betur að hafa fyrir hlutunum í seinni hálfleiknum í Kópavogi.

FH-ingar, sem áttu í vök að verjast í fyrri hálfleik, áttu þann síðari nánast með húð og hári, eftir að Heimir Guðjónsson breytti um leikaðferð og setti reynsluboltana Björn Daníel Sverrisson og Finn Margeirsson inn á í byrjun síðari hálfleiks. En þá vantaði herslumuninn til að jafna metin. Í staðinn gerði norski framherjinn Benjamin Stokke út um leikinn, nýkominn inn á sem varamaður, þegar hann skoraði seinna mark Blikanna á 77. mínútu.

Viktor átti þátt í báðum mörkum

Viktor Karl Einarsson var drjúgur fyrir Kópavogsliðið því hann kom að báðum mörkunum. Átti góða fyrirgjöf á Jason Daða Svanþórsson í fyrra markinu og það síðara skoraði Stokke eftir að skot Viktors var varið.

Blikum er spáð toppbaráttu og það er engin ástæða til að ætla annað eftir þennan fyrsta leik en að þeir geti staðið vel undir því. Þeim gekk þó óvenju illa að halda boltanum í seinni hálfleik en þar sýndu FH-ingar hins vegar að þeir geta vel velgt sterkustu liðunum undir uggum á góðum degi. En til að ná úrslitum þurfa þeir að skora mörk og það tókst þeim ekki í gærkvöld.