Ásgeir Jón Ámundsson netagerðarmeistari fæddist á Landamótum á Hánefsstaðaeyrum 1. apríl 1943. Hann andaðist á Hjúkrunarheimilinu Fossahlíð á Seyðisfirði 28. apríl 2023.

Foreldrar hans voru Kristbjörg Ásgeirsdóttir, f. 23. desember 1915 á Brimbergi við Seyðisfjörð, d. 16. ágúst 2003, og Amund Willy Abrahamsen, f. í Skien í Noregi 8. ágúst 1920, d. 10. maí 1986. Systkini sammæðra: Sigríður, f. 1949, Sigtryggur, f. 1950, og Jóhanna, f. 1951, Sigurjónsbörn. Systur samfeðra: Aina, f. 1946, og Inger, f. 1952.

Eiginkona Ásgeirs er Sigrún Sigfúsdóttir, f. í Grindavík 3. ágúst 1941. Foreldrar hennar: Sigfús Sveinsson og Guðrún Gissurardóttir, bæði látin. Ásgeir og Sigrún gengu í hjónaband í Vestmannaeyjum 10. október 1963. Börn þeirra eru: 1) Guðrún, f. 1964, gift Herði Erlendssyni. Börn þeirra eru: Ásgeir Rúnar, í sambúð með Lilju Björk Lárusdóttur; Vilhelm Þór, kvæntur Helgu Guðrúnu Gunnarsdóttur og eiga þau fjögur börn, Tómas Elí, Sigrúnu Helgu, Hafrúnu Emmu og Gunnar Óla; Salóme Rut, gift Birni Ágústi Olsen Sigurðssyni, dætur þeirra eru tvær: Heiðrún María og Eyrún Hödd. 2) Björn, f. 1968, kvæntur Jóhönnu Aurelíu Heidenreich og eiga þau eina dóttur, Júlíu, í sambúð með Hjalta Stefáni Árnasyni.

Ásgeir lærði netagerð í Iðnskólanum í Vestmannaeyjum og starfaði í Netagerð Ingólfs. Hann flutti aftur til Seyðisfjarðar eftir gosið í Heimaey og starfaði þar við netagerð og rak eigið fyrirtæki, Fjarðanet.

Útför fór fram 8. maí 2023.

Elsku afi, ég á svo margar góðar minningar um þig og ömmu frá því ég var ungur strákur á Seyðisfirði. Alltaf var gott að koma á Seyðisfjörð og mikið ævintýri fyrir ungan strák að koma í heimsókn í netagerðina. Áramótin á Seyðisfirði eru líka ógleymanleg og lifa vel í minningunni. Hef enn þá gaman af því hvað þú sýndir því mikinn áhuga þegar við bræður söfnuðum öllu rusli eftir gamlársdag og færðum þér.

Bátsferðirnar okkar um Norðfjörð voru líka skemmtilegar svo og allir bryggjurúntarnir, eftirminnilegastur er sennilega rúnturinn okkar þegar við og Björn Ágúst skoðuðum hverja einustu bryggju á höfuðborgarsvæðinu. Alltaf var spurt um skipin og aflabrögð þegar við hittumst. Einnig um leik og störf hjá öllum fjölskyldumeðlimum og var kötturinn í miklu uppáhaldi. Þú vildir fylgjast vel með og alltaf tilbúinn að fara á rúntinn. Alltaf var stutt í kímnigáfuna og ávallt varstu flottur í tauinu, það skipti þig miklu máli. Man eftir því þegar við fjölskyldan vorum á Kanarí yfir jól og þér fannst komið nóg af verslunarferðunum og tókst þá til þinna ráða, stökkst í næsta rúllustiga og veifaðir okkur bless og hvarfst svo inn í mannfjöldann. Það lýsir þér vel, drífa hlutina af og fara svo í næsta verk. Síðustu jólin þín lýsa því einnig vel hvað þú vildir drífa verkin áfram og ekkert vera að bíða með hlutina, enda oft engin ástæða til. Ég hlæ enn að uppátæki þínu um þau jól og mun ég minnast þess lengi.

Hvíldu í friði elsku afi minn, minning þín mun lifa um ókomna tíð og enda ég þetta á þínum orðum frá því á Ísafirði forðum daga: Takk fyrir kvöldið strákar.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Ásgeir Rúnar Harðarson.