60 ára Jóhann fæddist í Reykjavík, ólst upp í Borgarnesi og er nú búsettur í Kópavogi. „Það var mikið lán að alast upp í Borgarnesi sem þá var í örum vexti og mikið frelsi. Þá fékk ég að dvelja hjá afa mínum hrossaræktanda í Gufunesi, en mitt…

60 ára Jóhann fæddist í Reykjavík, ólst upp í Borgarnesi og er nú búsettur í Kópavogi. „Það var mikið lán að alast upp í Borgarnesi sem þá var í örum vexti og mikið frelsi. Þá fékk ég að dvelja hjá afa mínum hrossaræktanda í Gufunesi, en mitt fyrsta starf var vinnumaður í Eskiholti II í þrjú sumur. Á þeim tíma kom ekkert annað til greina en að verða bóndi.“

Jóhann er stúdent frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. „Samhliða námi vann ég skemmtileg sumarstörf í Borgarnesi, m.a. hjá Mjólursamlaginu, Borgarnesbæ, Vegagerðinni við mælingar og síðan hjá Beyki ehf. eftir að ég kom til Reykjavíkur að elta körfuboltadrauma.“

Jóhann er menntaður iðnaðartæknifræðingur frá Tækniskóla Íslands og stofnaði þar árið 1993 ásamt fjórum samnemendum Íslenska vöruþróun ehf., sem spannst út frá lokaverkefnum þeirra. Árið 1999 tók Jóhann við starfi framkvæmdastjóra hjá Radiomiðun ehf., sem starfaði á sviði sölu og þjónustu á fiskileitar-, siglinga- og fjarskiptabúnaði, ásamt hugbúnaðargerð, og var þar til 2006.

Jóhann er framkvæmdastjóri hjá Inmarsat Solutions ehf., sem veitir sjófarendum netsamband yfir gervihnetti í samstarfi við þeirra stærsta hluthafa, Inmarsat Global sem á og rekur hnattrænt gervihnattakerfi.

„Íþróttir hafa skipað stóran sess í mínu lífi en ég varð heltekinn af körfubolta, lék með mínu uppeldisfélagi Skallagrími, unglingalandsliði, Fram og Val. Þá var ég svo lánsamur að þjálfa sigursælt kvennalið Íþróttafélags stúdenta samhliða námi í þrjú ár.

Helstu áhugamálin eru golf, ferðalög, saga og að borða góðan mat. Golfið getur sameinað þetta allt og þá spillir ekki fyrir að við hjónin stundum golfið bæði og getum deilt þessu með vinum og kunningjum.“

Fjölskylda Maki Jóhanns er Sigríður Vilhjálmsdóttir, f. 1966. Börn þeirra eru Hildur Helga, f. 1994, og Tinna Guðrún, f. 2000. Foreldrar Jóhanns: Guðný Þorgeirsdóttir, búsett í Kópavogi, og Bjarni Hlíðkvist Jóhannsson, d. 2008.