Stríðinu lýkur ekki meðan Hamas getur enn barist

Nú er hálft ár frá því að heimsbyggðin fór að gera sér grein fyrir umfangi og hryllingi árásar Hamas á Ísrael, þar sem bókstaflega engu var eirt og óhæfuverkin svo viðurstyggileg að vart má færa í orð.

Enginn þarf að efast um það, því Hamasliðar sjálfir voru duglegir við að útbreiða myndir af ódæðunum á netinu; hreyktu sér af þeim.

Á þessum tímamótum er rétt að minnast fórnarlamba árásarinnar þennan hörmungardag fyrir hálfu ári, versta fjöldamorðs á gyðingum allt frá helförinni. Nærri 700 almennir borgarar voru drepnir, þar af 36 börn, auk 373 hermanna og 71 útlendings. Margir biðu bana með skelfilegum hætti, sættu nauðgunum, pyntingum og aflimun, en þar voru börn ekki undanskilin.

Hamas heldur enn um 130 gíslum, sem margir hafa sætt skelfilegri meðferð.

Síðan eru liðnir sex mánuðir og fréttir þaðan snúa einvörðungu að hernaði Ísraelsmanna á Gasasvæðinu með það að markmiði að gera út af við Hamas sem hreyfingu. Eins og skiljanlegt er, það má ekki gera lítið úr mannfalli almennra borgara þar eða eyðileggingu stríðsins. En það er fjarri sanni að þar eigi sér stað þjóðarmorð; hvorki hernaðaraðgerðir né mannfall benda til slíks ásetnings.

Aftur er hörmulegt að sjá hvernig andstaða við hernað Ísraela hefur kynt undir óduldu gyðingahatri víða um veröld. Menn segjast bara vera á móti síonistum, en allir vita hvað þeir meina.

Allt stríð er hryllingur og því skyldi enginn mæla bót. En stundum verður ekki hjá því komist að grípa til vopna, til dæmis þegar árás dynur yfir. Það er mergurinn málsins, því það ríkti vopnahlé 6. október í fyrra, en það var rofið þegar Hamas gerði árásina á Ísrael hinn 7. október. Ísraelsríki ber skylda til þess að verja borgara sína árásum. Það var Hamas sem hóf þetta stríð, en það verður Ísrael, sem bindur enda á það.

En um leið má ekki gleyma að hafa meðaumkun með almennum borgurum á Gasasvæðinu, sem einnig eru á sinn hátt fórnarlömb Hamas.
Fyrir þeim, líkt og þeim sem eiga um sárt að binda í Ísrael,
er hryðjuverkaárásin 7. október nefnilega ekki að baki og verður það ekki fyrr en Hamas hefur verið upprætt.