Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Stjórnvöld í Ísrael ætla að kaupa 40.000 tjöld sem ætlað er að hýsa um hálfa milljón íbúa Gasasvæðisins. Talið er að tjöldin séu ætluð óbreyttum borgurum í Rafah-borg, en Ísraelsmenn hafa sagst ætla að flytja þá þaðan áður en þeir hefja „lokasókn“ gegn hryðjuverkasamtökunum Hamas í borginni.
Greint var fyrst frá áformunum á heimasíðu ísraelska varnarmálaráðuneytisins í gær, en þar var auglýst útboð á tjöldunum. Ætlunin er að hvert þeirra hýsi 12 manns. AFP-fréttastofan fékk í gær staðfestingu frá heimildarmanni innan ísraelska stjórnkerfisins á að útboðið væri hafið.
Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels sagði í fyrradag að búið væri að ákveða upphafsdag hernaðaraðgerða í Rafah, og ítrekaði hann það í gær. „Það er enginn máttur í heiminum sem getur stöðvað okkur,“ sagði Netanjahú þegar hann ávarpaði nýliða í Ísraelsher og bætti við að mörg „öfl“ í heiminum væru að reyna að halda aftur af Ísraelsmönnum. Hins vegar myndi það ekki ganga upp, þar sem tryggja þyrfti að Hamas-samtökin myndu aldrei aftur ráðast á Ísrael líkt og 7. október sl.
Ísraelsher hefur áætlað að Hamas-samtökin séu með fjögur stórfylki í Rafah-borg, en það er á bilinu 10.000-20.000 manna lið. Um 1,5 milljónir Palestínumanna dvelja nú í borginni. Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði í gær að hann teldi ekki að Ísraelsmenn myndu hefja aðgerðir í Rafah-borg á næstunni, en áætlað er að sendinefnd frá Ísrael fari til Bandaríkjanna í næstu viku til þess að ræða áform Ísraelsmanna.
Blinken sagði að Bandaríkjastjórn myndi áfram lýsa yfir áhyggjum sínum af landhernaði í Rafah-borg, og sagði hann að Bandaríkjamenn teldu að aðrar leiðir væru betri til þess að berjast gegn Hamas-samtökunum.
Viðræður um mögulegt vopnahlé standa enn yfir í Kaíró. Talsmenn Hamas sögðu hins vegar í gær að vopnahléstillaga Ísraelsmanna gengi allt of skammt og kæmi ekki til móts við neinar af kröfum samtakanna, en þau hafa m.a. krafist þess að Ísraelar dragi herlið sitt frá Gasa.