Máltíð Tómas Tómasson þar sem ævintýrið byrjaði árið 2004, á Búllunni við Geirsgötu. Borgarinn rann vel niður.
Máltíð Tómas Tómasson þar sem ævintýrið byrjaði árið 2004, á Búllunni við Geirsgötu. Borgarinn rann vel niður. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Tómas Tómasson veitingamaður fagnar því í dag að 20 ár eru liðin frá því að hann opnaði fyrstu Hamborgarabúlluna við Geirsgötu í Reykjavík. Síðan hafa tvær milljónir hamborgara farið á grillið góða þar og Búllan smám saman orðið eitt af þekktustu vörumerkjum í veitingabransanum á Íslandi. Í dag eru níu Búllur reknar á Íslandi, tvær í London, ein í Oxford, ein í Kaupmannahöfn og ein í Berlín.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Tómas Tómasson veitingamaður fagnar því í dag að 20 ár eru liðin frá því að hann opnaði fyrstu Hamborgarabúlluna við Geirsgötu í Reykjavík. Síðan hafa tvær milljónir hamborgara farið á grillið góða þar og Búllan smám saman orðið eitt af þekktustu vörumerkjum í veitingabransanum á Íslandi. Í dag eru níu Búllur reknar á Íslandi, tvær í London, ein í Oxford, ein í Kaupmannahöfn og ein í Berlín.

„Þetta er óneitanlega mjög ánægjuleg þróun sem hefur átt sér stað,“ segir Tómas þegar hann er spurður um þennan mikla vöxt. Fyrstu árin var hann á kafi í rekstri Búllunnar og grillaði ofan í gestina sjálfur. Þegar fram liðu stundir eftirlét hann syni sínum að standa í brúnni og í dag kveðst hann ekki koma mikið að rekstrinum.

„Við getum orðað það svo að ég er hafður upp á punt,“ segir hann og vísar þannig til þess að fyrir um 15 árum tóku hann og Úlfar Eysteinsson, veitingamaður á Þremur frökkum, upp á því að mótmæla háum stýrivöxtum með því að safna skeggi og hári. Þá var tekin af honum fræg ljósmynd sem hefur verið áberandi æ síðan. „Það virðist vera vörumerki staðarins, karl með skegg. Ef ef það er eitthvað um að vera þá mæti ég oftast og tek þátt í því. Auk þess fer ég reglulega og fæ mér einn hamborgara. Í tíu ár fékk ég mér einn á dag en það hefur breyst og nú fæ ég mér kannski 2-3 á viku.“

Rúm 40 ár eru liðin síðan Tómas Tómasson opnaði fyrsta Tommaborgarastaðinn. Hann var að finna á Grensásvegi 7 og þá kostaði stakur Tommaborgari með osti 25 krónur. Fyrsta kastið kostaði stakur Búlluborgari með osti 450 krónur en í dag kostar hann 2.090 krónur.

Lítið hefur breyst á Búllunni á þessum 20 árum fyrir utan verðið. Það var enda uppleggið að sögn Tómasar, að hafa þetta eins einfalt og hægt er. Hann horfir bjartsýnn til framtíðar. „Við tökum alltaf einn dag í einu en það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé eitthvað að fara að breytast. Við höfum verið heppnir með starfsfólk og nokkuð heppnir með samstarfsfólk. En maður getur ekki staðið og ætlast til að þetta gangi af sjálfu sér. Það þarf að sinna þessu mjög vel.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon