[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er mjög mikilvægt að vera meðvitaður um neikvæð áhrif ofþyngdar mæðra við upphaf meðgöngu,“ segir Heiðdís Valgeirsdóttir kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir á Landspítalanum. „En það þarf að nálgast viðfangsefnið af varfærni, því það að…

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Það er mjög mikilvægt að vera meðvitaður um neikvæð áhrif ofþyngdar mæðra við upphaf meðgöngu,“ segir Heiðdís Valgeirsdóttir kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir á Landspítalanum. „En það þarf að nálgast viðfangsefnið af varfærni, því það að koma inn skömm hjá mæðrum hefur neikvæð áhrif og er aldrei markmiðið,“ segir hún og bætir við að það þurfi að grípa inn í strax og aðstoða barnshafandi konur í áhættuhópum með markvissri áætlun frá upphafi meðgöngu.

Í nýrri rannsókn sem birt er í Læknablaðinu í apríl kemur fram að líkamsþyngd mæðra við upphaf meðgöngu eykst stöðugt. Rannsóknin tekur til gagna frá Sjúkrahúsinu á Akureyri á árunum 2004-2022 og sýnir að árið 2004 voru 53% kvenna á Norðurlandi í kjörþyngd við upphaf meðgöngu, en sú tala lækkaði á tímabilinu niður í 40%. Þá hefur hlutfall mæðra í offituflokkum hækkað mikið, og mest í þyngstu flokkunum. Þannig tvöfaldaðist hlutfall mæðra með líkamsþyngdarstuðulinn 35-39,9 og þrefaldaðist með líkamsþyngdarstuðulinn 40 og yfir.

80% í kjörþyngd 1972-1975

Þessar tölur eru í samræmi við tölur úr viðamikilli erlendri rannsókn með upplýsingum frá 29 löndum, sem eru þó ívið hærri hérlendis, en Íslendingar hafa þyngst heldur meira og hraðar en íbúar annarra Evrópulanda undanfarin ár. Rannsóknin fyrir norðan sýnir að þessi 19 ár hefur hlutfall barnshafandi kvenna í kjörþyngd lækkað um fjórðung. Sjúkrahúsið á Akureyri gerði sambærilega könnun á árunum 1972-1975 og þá var hlutfall kvenna í kjörþyngd við upphaf meðgöngu 80% og aðeins 12% í ofþyngd eða með offitu.

Íslendingar eru meira í ætt við Bandaríkin þegar kemur að vaxandi líkamsþyngdarstuðli heldur en nágrannalöndunum. Staðan annars staðar á Norðurlöndum er talsvert betri, en bæði í Danmörku og Noregi er ein af hverjum sex konum með líkamsþyngdarstuðul 30 og hærri við upphaf meðgöngu á móti einni af hverri þremur hérlendis. Þótt þyngd hafi aukist á þessu 19 ára tímabili hefur aukningin verið 67% á Norðurlandi á meðan hún er 25% í Danmörku. Þetta er sláandi munur.

Mál sem þarf að ræða

Þetta mál er viðkvæmt fyrir marga, en þessar tölur sýna að offita er orðin að alvarlegu lýðheilsuvandamáli hérlendis. Vitað hefur verið lengi að aukin þyngd mæðra við upphaf meðgöngu getur haft neikvæð áhrif og aukið fylgni ýmissa meðgöngukvilla og valdið auknu inngripi í fæðingu. Vísbendingar eru einnig um að aukin þyngd mæðra hafi einnig áhrif á nýburana. Rannsóknir hafa sýnt að börn of þungra kvenna séu mun líklegri til að glíma við offitu sjálf á lífsleiðinni og fá lífsstílssjúkdóma tengda offitunni, eins og hjarta- og æðasjúkdóma, efnaskiptasjúkdóma, astma og taugaþroskaraskanir heldur en börn kvenna í kjörþyngd.

„Það er alveg ljóst að offita er vaxandi lýðheilsulegt vandamál sem þarf að bregðast við og það þarf að styðja verðandi mæður í heilbrigðum lífsstíl þegar kemur að hreyfingu og mataræði,“ segir Heiðdís.

Rannsókn frá 2010

Ofþyngd er áhættuþáttur

Lengi hefur verið vitað að ofþyngd barnshafandi kvenna er áhættuþáttur í fæðingu, bæði þegar kemur að móður og barni. Í íslenskri rannsókn sem birt var í Læknablaðinu í nóvember 2010 voru áhrif þyngdar mæðra við upphaf meðgöngu á fylgikvilla í fæðingu skoðuð. Var þýðið 600 konur og þar af voru 300 í kjörþyngd, 150 of þungar (þyngdarstuðull 25-29,9) og 150 í yfirþyngd eða með þyngdarstuðul yfir 30.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að mæður í þyngsta hópnum væru líklegri til að hafa langvinnan háþrýsting, fá meðgöngueitrun, fá einkenni frá stoðkerfi og að framkalla þyrfti fæðingu eða fara í keisaraskurð, heldur en þær sem eru í kjörþyngd eða eru of þungar. Þá eru nýburar þyngstu mæðranna líka þyngri, með stærra höfuðummál og oftar lagðir inn á nýburagjörgæslu en börn mæðra í kjörþyngd og ofþyngd.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir