Varði Arnar Freyr stöðvar KA-mann í dauðafæri á Akureyri.
Varði Arnar Freyr stöðvar KA-mann í dauðafæri á Akureyri. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
Arnar Freyr Ólafsson, markvörður HK, var besti leikmaðurinn í fyrstu umferð Bestu deildar karla í fótbolta á keppnistímabilinu 2024, að mati Morgunblaðsins. Arnar átti mjög góðan leik í marki Kópavogsliðsins þegar það náði nokkuð óvæntu jafntefli…

Arnar Freyr Ólafsson, markvörður HK, var besti leikmaðurinn í fyrstu umferð Bestu deildar karla í fótbolta á keppnistímabilinu 2024, að mati Morgunblaðsins.

Arnar átti mjög góðan leik í marki Kópavogsliðsins þegar það náði nokkuð óvæntu jafntefli gegn KA á Akureyri á sunnudaginn, 1:1, og fékk tvö M fyrir frammistöðu sína hjá Morgunblaðinu. Hann varði tvívegis einn á móti sóknarmanni KA og auk þess nokkur skot heimamanna á glæsilegan hátt.

Arnar er leikjahæsti leikmaðurinn í sögu HK í efstu deild en þetta var hans 83. leikur í marki liðsins í deildinni.

Níunda árið í marki HK

Arnar Freyr er 31 árs og ólst upp hjá Fjölni. Hann spilaði með varaliði félagsins, Birninum, í 3. deild 2012 og með Ægi í 2. deild 2013. Árið 2014 lék hann einn leik í marki Fjölnis í úrvalsdeildinni og fór síðan í Leikni í Reykjavík þar sem hann lék líka einn úrvalsdeildarleik árið 2015.

Frá 2016 hefur Arnar varið mark HK og þetta er því níunda tímabilið hans í marki Kópavogsliðsins. Auk leikjanna með því í úrvalsdeild hefur Arnar spilað 78 leiki fyrir félagið í 1. deild og tvisvar farið með HK upp í úrvalsdeildina, fyrst árið 2018 og aftur 2022.

Fyrsta úrvalslið tímabilsins má sjá hér fyrir ofan og þar er Arnar að sjálfsögðu í markinu. Auk hans fengu Framararnir Kennie Chopart og Kyle McLagan, KR-ingarnir Luke Rae og Atli Sigurjónsson og Blikinn Viktor Karl Einarsson tvö M fyrir frammistöðu sína í umferðinni, og eru allir í liði umferðarinnar ásamt því að hafa tekið forystuna í M-gjöfinni.

KR, Valur, Fram, Breiðablik og Víkingur eiga tvo leikmenn hvert félag í úrvalsliðinu.

Leiðrétting

 Þorri Stefán Þorbjörnsson, varnarmaður Fram, fékk eitt M fyrir frammistöðu sína gegn Vestra en vegna mistaka kom það ekki fram í blaðinu á mánudaginn og er beðist velvirðingar á því.