„Framherjinn þeirra fór á fjærsvæðið hjá okkur og við réðum ekki nógu vel við það. Þetta voru tvö frekar einföld mörk og þriðja markið líka. Þær gerðu þetta samt gríðarlega vel. Það er erfitt að eiga við Leu Schüller í loftinu þegar hún kemst í þessar stöður

„Framherjinn þeirra fór á fjærsvæðið hjá okkur og við réðum ekki nógu vel við það. Þetta voru tvö frekar einföld mörk og þriðja markið líka. Þær gerðu þetta samt gríðarlega vel. Það er erfitt að eiga við Leu Schüller í loftinu þegar hún kemst í þessar stöður. Þetta er pirrandi því við viljum að þær hafi aðeins meira fyrir mörkunum en þetta,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir í samtali við RÚV eftir leik.

Glódísi fannst leikurinn breytast við meiðsli Sveindísar Jane og að íslenska liðið hefði spilað betur en í 4:0-tapinu í síðustu heimsókn til Þýskalands.

„Við fáum öðruvísi leikmann inn á. Bryndís er ekki með þennan hraða sem Sveindís er með, heldur er hún góð að fá boltann í lappir. Við töluðum um að halda betur í boltann og ekki fara í þetta beina spil sem var í fyrri hálfleik. Það gekk á köflum fínt og Bryndís hélt vel í boltann. Við sköpuðum meira núna en síðast þegar við komum til Þýskalands. Það er jákvæður punktur,“ sagði Glódís.

Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson var ánægður með leikinn fram að meiðslum Sveindísar. „Fyrri hálfleikurinn var í fínu lagi. Við fengum þrjú dauðafæri eftir föst leikatriði og þær voru í basli þar. Það heppnaðist margt sem við vorum að gera í byrjun. Þær ná hins vegar að þrýsta okkur aftar þegar við þurfum að gera breytingu,“ sagði Þorsteinn.

Lengri viðtöl við þau má sjá á mbl.is/sport.