Madríd Jack Grealish og Dani Carvajal í baráttu um boltann.
Madríd Jack Grealish og Dani Carvajal í baráttu um boltann. — AFP/Pierre-Philippe Marcou
Tvö fyrri einvígin í átta liða úrslitum Meistaradeildar karla í fótbolta eru opin upp á gátt eftir að Real Madrid og Manchester City skildu jöfn, 3:3, í Madríd í gærkvöld og Arsenal og Bayern gerðu jafntefli í London, 2:2

Tvö fyrri einvígin í átta liða úrslitum Meistaradeildar karla í fótbolta eru opin upp á gátt eftir að Real Madrid og Manchester City skildu jöfn, 3:3, í Madríd í gærkvöld og Arsenal og Bayern gerðu jafntefli í London, 2:2.

Leikurinn í Madríd var stórskemmtilegur og Bernardo Silva kom City yfir strax á 2. mínútu. Eftir 14 mínútur höfðu hins vegar Madrídingar skorað tvisvar, fyrst kom sjálfsmark eftir skot Eduardo Camavinga og síðan skoraði Rodrygo, 2:1.

City komst yfir á ný með tveimur mörkum á fimm mínútum um miðjan síðari hálfleik, Phil Foden gerði glæsimark og Josko Gvardiol annað litlu síðra þannig að City var komið í 3:2.

Real Madrid var ekki lengi að jafna, Federico Valverde gerði þar enn eitt glæsimarkið og lokatölur urðu 3:3.

Kane skoraði hjá Arsenal

Í London skoraði Bukayo Saka fyrir Arsenal strax á 10. mínútu og Ben White nýtti ekki dauðafæri til að bæta öðru marki við. Í staðinn skoraði Serge Gnabry eftir varnarmistök enska liðsins og Harry Kane skoraði úr vítaspyrnu á 32. mínútu þannig að Bayern var komið í 2:1.

Leandro Trossard var bjargvættur Arsenal en hann kom inn á sem varamaður og jafnaði metin í 2:2 á 76. mínútu.

Saka féll í vítateig Bayern í lok uppbótartímans en mat dómaranna var að hann hefði reynt að fá vítaspyrnu með því að setja fótinn í Neuer markvörð.