Hagmunasamtök telja ýmsa vankanta vera á fyrirhuguðum lögum.
Hagmunasamtök telja ýmsa vankanta vera á fyrirhuguðum lögum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök verslunar og þjónustu, Samorka ásamt Viðskiptaráði Íslands segja að grundvallarbreytinga sé þörf og telja ótækt að boðuð lög um rýni á…

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök verslunar og þjónustu, Samorka ásamt Viðskiptaráði Íslands segja að grundvallarbreytinga sé þörf og telja ótækt að boðuð lög um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna öryggis og allsherjarreglu nái fram að ganga í núverandi mynd. Í sameiginlegri umsögn samtakanna við frumvarpið segir að gildissvið laganna sé óskýrt og til þess fallið að fæla erlenda fjárfestingu frá, auk þess eru ráðherra veittar afar víðtækar heimildir til að krefja erlenda aðila um upplýsingar.

„Verði frumvarpið að lögum munu erlendir aðilar ekki geta gert samninga við ýmsa innlenda aðila nema með fyrirvara um samþykki ráðherra sem kann að taka allt að 100 virka daga að veita. Í heimi viðskipta eru 100 virkir dagar langur tími og kann margt að breytast á þeim tíma,“ segir í umsögninni.

Samtökin leggja sérstaka áherslu á að boðuð lög verði skoðuð í samhengi við önnur markmið stjórnvalda. Þá sérstaklega á sviði utanríkisviðskipta og erlendrar fjárfestingar. Þá hvetja samtökin íslensk stjórnvöld til að móta skýra sýn og stefnu með tilliti til erlendrar fjárfestingar sem hafi almennt hvetjandi áhrif.

„Nýjar reglur á þessu sviði þurfa að hafa það að markmiði að auka fyrirsjáanleika um hvers konar hindranir kunni að vera í vegi erlendra aðila sem hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi. Fyrirhuguð löggjöf gerir hið gagnstæða og mun skapa óvissu um skilyrði til fjárfestinga á Íslandi,“ segir einnig í umsögn samtakanna.