Margrét Molitor fæddist 19. júlí 1944 í Wadersloh í Nordrhein-Westfalen, Þýskalandi. Hún lést á heimili sínu 25. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Anton Molitor, múrari og bóndi, f. 1909, d. 1977, og Christine Molitor húsmóðir, f. 1912, d. 1997.

Systkini Margrétar eru Maria Illigens, f. 1939, d. 2013, eiginmaður hennar var Wilhelm Illigens (látinn), börn þeirra eru Peter, Anette, Hartmut og Stephan; Franz-Josef Molitor, f. 1940, d. 2006, eftirlifandi eiginkona hans er Margret Molitor og börn þeirra Thomas og Sonja; Wilhelm Molitor, f. 1942, eiginkona hans er Amélie Molitor og sonur þeirra Benedikt; Christel Eggers, f. 1955, eiginmaður hennar er Uwe Eggers og börn þeirra Axel og Isabell.

Margrét útskrifaðist úr hjúkrunarnámi í Hamborg 1973 og ferðaðist víða um Evrópu. Hún kom til Íslands frá Noregi árið 1976 til að starfa sem hjúkrunarfræðingur, fyrst á Landspítalanum og síðar á húðdeildinni á Vífilsstöðum þar sem hún bjó og vann frá 1981-2000. Þá flutti hún sig yfir á Sólvang í Hafnarfirði þar sem hún vann þar til hún fór á eftirlaun.

Hún eignaðist eina dóttur með barnsföður sínum Jóni Birni Friðrikssyni málarameistara frá Ísafirði, f. 1948, d. 2021. Dóttir þeirra er Nína Margrét, f. 1980, sambýlismaður Ágúst Manuel Rivera, f. 1978. Börn þeirra eru Elmar Rökkvi, f. 2016, og Fannar José, f. 2020.

Margrét var alla tíð glaðlynd og vinnusöm en gaf sér alltaf tíma til að hjálpa öðrum og gefa góð ráð. Hún gat töfrað fram dýrindis veislur og var með eindæmum barngóð og gjafmild. Síðustu árin áttu ömmustrákarnir hennar, sem voru svo heppnir að fá að búa með henni, hug hennar og hjarta.

Útför Margrétar fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 10. apríl 2024, klukkan 13.

Margrét móðir mín fæddist í Þýskalandi en útþráin leiddi hana unga til annarra landa og loks til Íslands sem varð hennar annað föðurland. Þar leið henni vel, eignaðist hún fjölda vina og bjó lengstan hluta ævi sinnar. Það helsta sem hún saknaði fyrir utan fjölskyldu sína í Þýskalandi voru kirsuberjatré sem hægt var að borða safarík berin beint af og blóm af öllum stærðum og gerðum. Hún reyndi af mikilli natni og þrautseigju að rækta alls kyns blóm hér heima og ég man hve glöð hún var þegar við fluttum í Hrísholtið og komst að því að þar væri kirsuberjatré í garðinum. Gleðin súrnaði reyndar aðeins þegar við smökkuðum saman fyrsta berið sem reyndist vera Sauerkirsche eða súr kirsuberjategund, en mamma hélt ótrauð áfram með tilraunastarfsemi sína í garðinum sem hún var mjög stolt af. Síðustu vikurnar minnti hún okkur reglulega á að kíkja út í beð og athuga hvort krókusarnir væru ekki að koma upp. Hún lést svo skyndilega og fékk ekki tækifæri til að sjá þá spretta núna en við bíðum spennt eftir að næturfrostið sleppi takinu og munum minnast hennar með söknuði í hvert sinn sem litlu grænu topparnir kíkja upp úr moldinni.

Þegar ég minnist elsku bestu mömmu minnar er mér innilegt þakklæti efst í huga.

Mig langar að þakka henni fyrir að gefa mér yndislega æsku, fulla af lífi og skemmtilegum uppákomum eins og dúkkuskírn og afmælum sem fólk man ennþá eftir. Mig langar að þakka henni fyrir að styðja mig í einu og öllu, jafnvel þótt við værum ekki alltaf sammála. Mig langar líka að þakka henni fyrir öll þau tonn af þvotti sem hún hjálpaði mér að brjóta saman eftir að fjörugu ömmustrákarnir, sem hún sá ekki sólina fyrir, komu loksins. Mig langar að þakka henni fyrir að hugga okkur og hvetja og vera alltaf til staðar. Mig langar að þakka fyrir allar hennar góðu ráðleggingar um allt milli himins og jarðar. Mig langar að þakka fyrir hennar hlýja faðm sem lagaði allt sem amaði að mér, fjögurra ára jafnt sem fertugri.

Elsku mamma og amma, takk fyrir allt.

Að harðasta vetrinum loknum

fer svo að vora

og yljandi vindar

taka aftur um þig að leika

og litskrúðug

ólýsanlega fögur blóm

gera vart við sig,

hvert af öðru.

Þau taka að spretta

umhverfis lind minninganna.

Blessaðir séu þeir

sem gefa sér tíma

til að strjúka vanga

og þerra tár af kinn

bara með því að faðma

og vera.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Þín

Nína og fjölskylda.

Í dag kveðjum við góða konu, Margréti Molitor. Það var okkar gæfa að fá Nínu dóttur Margrétar í fjölskyldu okkar sem tengdadóttur. Missir litlu fjölskyldunnar í Hrísholti er mikill því amma Margrét bjó á neðri hæðinni hjá þeim og ömmustrákarnir tveir, Elmar og Fannar, áttu þar hauk í horni. Það var þannig að alltaf þegar komið var við í Hrísholtinu var stoppað fyrst hjá Margréti sem ævinlega tók á móti okkur með bros á vör, spurði frétta af öllum og fékk að skoða nýjustu myndirnar í símanum af börnum og barnabörnum, faðmur hennar var alltaf opinn öllum börnum.

Alltaf gátu ömmustrákarnir kíkt við, fengið eitthvað gott í gogginn eða hreiðrað um sig í sófanum með ömmu Margréti og horft á sjónvarpið.

Nú þegar komið er að kveðjustund þökkum við fyrir ómetanlega væntumþykju og vináttu sem aldrei bar skugga á.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Við lítum eftir litlu fjölskyldunni í Hrísholti og vitum að amma Margrét vakir yfir og allt um kring.

Laila Margrét Arnþórsdóttir og Jose Rivera Vidal.

Nú eru komin ferðalok hjá henni Margréti, falleg vegferð endar. Margrét kom inn í fjölskylduna okkar með Jóni Birni bróður um það leyti sem Nína Margrét dóttir þeirra fæddist. Margrét var þýskur hjúkrunarfræðingur en hafði fallið fyrir Íslandi og flutt hingað með vinkonu sinni og helgaði landinu megnið af starfsævi sinni. Hún var sérlega vönduð kona í alla staði og það fylgdi henni trúmennska, tryggð, dugnaður, umhyggjusemi og elskulegheit við okkur fjölskylduna, vini og ekki síst sjúklingana. Svo fæddist Nína, sólargeislinn og einkadóttirin, og hefur mæðgnasamband þeirra verið alveg sérlega fallegt, svo mikill kærleikur, vinátta og sterk einstök tengsl. Margrét bjó þeim fallegt heimili, ræktað af ást og alúð og garðurinn og öll blómabeðin með fallegum litskrúðugum blómum.

Hún var mjög gestrisin og naut þess að fá gesti, fólkið sitt að utan, okkur fjölskylduna og vini þeirra. Hún var listakokkur og var gaman að borða þjóðarrétti hennar og allt hjá henni og í mörg ár kom þýskt Stollen og kökur til okkar í jólapökkunum og við kynntumst hennar siðum. Það beið alltaf uppbúið rúm og notalegheit þegar maður var á ferðinni og er það þakkað hér af öllu hjarta sem og allur kærleikurinn sem hún og Nína hafa gefið okkur og sýnt alla tíð og umhyggjusemin í veikindum pabba á sínum tíma, mat hann þær mikils og afastelpuna.

Margrét var glaðlynd og þrátt fyrir lasleika seinni ár var hún félagsvera, fjölskyldu- og vinarækin og hafði gaman af að hitta fólk. Það var henni líka mikils virði að hún, gamlir vinnufélagar og vinir hittust reglulega eftir að þær hættu að vinna.

Í mörg ár fór hún til Þýskalands í sumarfrí með Nínu að hitta fjölskylduna og þau komu hingað til þeirra. Síðast þegar ég hitti hana í mars var hún að undirbúa afmæli sitt í sumar og átti von á systur sinni og fjölskyldu til landsins og hlakkaði til. Þegar Nína og Ágúst maður hennar eignuðust synina fallegu og líflegu Elmar og Fannar veitti það Margréti mikla lífsgleði. Þau keyptu sér saman hús og bjó Margrét niðri og nutu þau þess, mikill samgangur og nánd og það er mikil sorg og missir fyrir litla stráka sem eru enn að gá að ömmu niðri og þau öll. Margrét fylgdist vel með þjóðmálunum hér heima og erlendis og var löngu orðin íslensk og fylgdist vel með íþróttum, landsliðinu í handbolta og fótbolta og hélt alltaf með Íslandi en kannski báðum liðum ef liðið var að spila við Þjóðverja og ánægð með að báðir ömmustrákarnir voru komnir í fótbolta og íþróttir.

Hún hefur verið góð, gefandi og ánægjuleg, samferðin í lífinu með henni Margréti og við þökkum áratuga einstaka vináttu og tryggð.

Elsku hjartans Nína mín og okkar, þú hefur sýnt mömmu og þið hvor annarri aðdáunarverða umhyggju og gefið henni og sýnt dásamlega fagra dótturumhyggju og við fjölskyldan þín á Ísafirði sendum þér, Ágústi, Elmari og Fannari og Krystel systur hennar og ástvinum úti okkar innilegustu og fallegustu samúðarkveðjur og minningin um yndislega konu lifir.

Bjarndís.

Kynni okkar Margrétar hófust þegar Nína dóttir hennar og Ágúst Manúel barnabarn mitt hófu sambúð sína og ég hitti hana á heimili þeirra. Margrét var einstök kona og samband þeirra mæðgna svo innilegt og kærleiksríkt. Litlu ömmustrákarnir Elmar Rökkvi og Fannar José voru svo heppnir að fá að hafa ömmu svona nálægt sér og geta alltaf leitað til hennar.

Ég vil þakka Margréti fyrir okkar góðu kynni og bið Guð og góða vætti að vaka yfir henni og litlu fjölskyldunni sem hefur misst svo mikið.

Sofðu, hvíldu sætt og rótt,

sumarblóm og vor þig dreymi!

Gefi þér nú góða nótt

guð, sem meiri' er öllu' í heimi.

(G. Guðm.)

Halldóra Guðmundsdóttir (Dóra).