Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Meira en 60% stúdenta eru 19 ára eða yngri við útskrift og eru því að standast stúdentspróf samkvæmt áætlun. Það er mikil framför frá því sem áður var, áður en menntaskólanám var stytt úr fjórum árum í þrjú, þegar aðeins tæp 45% stúdenta útskrifuðust á áætlun.
Líkt og sjá má af línuritinu að ofan er þessi breyting mjög afdráttarlaus, en það er byggt á gögnum um námsframvindu á framhaldsskólastigum sem Hagstofan gaf út í fyrri viku.
Þar kemur fram að 61,2% brautskráðra stúdenta á skólaárinu 2021-2022 voru 19 ára og yngri, en 13,2% voru 20 ára. Hlutfall 19 ára og yngri stúdenta hefur hækkað mikið síðustu ár í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs, en hlutfall 20 ára lækkað að sama skapi frá breytingunni.
Fyrir breytinguna útskrifuðust hlutfallslega mun færri á réttum tíma, aðeins tæp 44% að jafnaði, en þá var stúdentsnámið ári lengra og miðað við að fólk útskrifaðist tvítugt ef allt gekk vel. Hins vegar töfðust nær 12% um eitt ár að jafnaði á tímabilinu 2004-2017 og annað eins um 2-3 ár.
Árs töf á stúdentsútskrift er enn á svipuðu róli og var fyrir styttingu, en var raunar mun meiri fyrstu árin eftir styttinguna og hefur minnkað ört. Ekki er ljóst hvort þeirri þróun sé lokið. Eftirtektarvert er að hlutfall þeirra sem tefjast meira en ár hefur einnig lækkað töluvert.
Áhrif heimsfaraldurs á aldur við stúdentsútskrift eru merkjanleg en óveruleg. Þá fækkaði útskrifuðum stúdentum talsvert skólaárið 2021-22 frá fyrra ári. Þar kann faraldursins að gæta, en eins kann styttingin að hafa orðið til þess að beina námsmönnum sem stúdentsnám á síður við á aðrar brautir.