Fasteignafélagið Skuggi 4 ehf. greiðir um tíu milljarða króna fyrir byggingarheimildir á Ártúnshöfða. Seljandi var Þorpið 6 ehf., dótturfélag Þorpsins vistfélags, en um var að ræða um 80 þúsund fermetra byggingarheimildir

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fasteignafélagið Skuggi 4 ehf. greiðir um tíu milljarða króna fyrir byggingarheimildir á Ártúnshöfða. Seljandi var Þorpið 6 ehf., dótturfélag Þorpsins vistfélags, en um var að ræða um 80 þúsund fermetra byggingarheimildir. Það er heldur meira en skilja mátti af frétt Morgunblaðsins um söluna í gær.

Þar kom fram að ekki var einhugur innan Þorpsins um söluna.

Áslaug Guðrúnardóttir, stjórnarformaður Þorpsins vistfélags og eigandi Blævængs, kveðst afar leið yfir kaupum Skugga á lóðum Þorpsins á Höfða.

„Mín viðbrögð eru að ég er afar sorgmædd yfir þessari niðurstöðu. Við fáum þá ekki að halda áfram að gera það sem við ætluðum að gera sem er að byggja íbúðir í nýjum borgarhluta og hafa þannig áhrif á hvers konar hús verða byggð og hvers konar samfélag verður á svæðinu. Mér finnst umhugsunarvert að þetta skuli geta gerst en ég er svolítið ný í þessum bransa

Það má hins vegar koma fram að ég skil vel hluthafana sem mæta á fund og fá svona tilboð sem er fast í hendi. Hluthafar eru að ávaxta peningana sína og ég skil að þeir hafi viljað selja. Ég er ekkert að áfellast þá. Þrátt fyrir vonbrigðin óska ég Kristjáni [Ríkharðssyni] í Skugga velfarnaðar með verkefnið og vona einlæglega að hann spili vel úr því sem hann hefur,“ segir Áslaug sem kveðst hafa haft viku til að leggja fram tilboð í gegnum félag sitt Blævæng ehf. Því tilboði hafi hins vegar ekki verið tekið.

Róbert Wessmann hluthafi

Listi yfir hluthafa er sýndur á grafinu hér fyrir ofan. Birta lífeyrissjóður er stærsti hluthafinn (15,6%) en næst koma ótilgreindir hluthafar (15,1%). Áslaug Guðrúnardóttir (14,25%), Sigurður Smári Gylfason fjárfestir (14,25%) og Eiríkur Vignisson (9,18%), fjárfestir og fyrrverandi útgerðarmaður, eru þriðju til fimmtu stærstu hluthafarnir. Meðal annarra hluthafa eru Gyða Dan Johansen jógakennari, Róbert Wessman, forstjóri Alvotech (í gegnum Hrjáf), Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, og Davíð Másson, fv. stjórnarmaður í WOW air.

Áslaug upplýsir að við undirbúning tilboðsins hjá Blævæng hafi hún skoðað þann möguleika að kaupa lóðir af Klasa á Höfða og bæta við safnið. Af því hafi ekki orðið en það komi engu að síður til greina síðar að kaupa lóðir af Klasa á svæðinu. Hvort og þá hvernig það verði útfært, og í gegnum hvaða félög, eigi eftir að koma í ljós.

Byggði íbúðir í Gufunesi

Fyrsta verkefni Þorpsins vistfélags var að byggja 137 íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Gufunesi.

Áslaug segir þrjár til fjórar umsóknir hafa borist um hverja íbúð, slík hafi umframeftirspurnin verið. Eftir söluna á Höfðanum eigi Þorpið vistfélag eftir óbyggða lóð á svonefndum brunareit á Bræðraborgarstíg en hugmyndin var að skapa samfélag fyrir konur. Nokkur andstaða hafi verið meðal nágranna við hugmyndirnar, og áformað byggingarmagn, og hafi arkitektar því gert nokkrar atrennur að nýrri hönnun. Nú sé stefnt að því að byggja þar íbúðir fyrir almennan markað. Þá eigi Þorpið vistfélag lóð á Gufunesvegi 32 þar sem teiknaðar hafa verið 70 íbúðir og jafnframt lóð við bryggjuna í Gufunesi. Hugsunin er að bryggjan verði nokkurs konar félags- og samgöngumiðstöð. Nú sé óvissa um framvindu verkefnanna.

Ekki aðeins skammtímagróði

Áslaug segir hugmyndir Þorpsins vistfélags hafa snúist um annað og meira en aðeins að byggja íbúðir og selja. Meðal annars hafi félagið haft hugmyndir um íbúðir fyrir tímabundna leigu með sameiginlegri skrifstofuaðstöðu o.fl. á Breiðhöfða 27.

Þá hafi félagið verið í viðræðum við borgina og Grundarheimilin um uppbyggingu lífsgæðakjarna fyrir eldra fólk á Höfðanum. Skapa þannig blandaða byggð fyrir unga sem aldna. „Nú veit maður ekki hvernig þetta fer allt saman,“ segir Áslaug um stöðu mála.

Höf.: Baldur Arnarson