30 ára Högni Hjálmtýr er fæddur og uppalinn í Reykjavík, nánar tiltekið í Vogahverfinu. Högni er menntaður hagfræðingur frá Háskóla Íslands, en í dag starfar hann sem framkvæmdastjóri hjá Kaldalóni fasteignafélagi

30 ára Högni Hjálmtýr er fæddur og uppalinn í Reykjavík, nánar tiltekið í Vogahverfinu. Högni er menntaður hagfræðingur frá Háskóla Íslands, en í dag starfar hann sem framkvæmdastjóri hjá Kaldalóni fasteignafélagi. Þar hefur hann starfað undanfarin tæp þrjú ár en félagið var skráð á aðalmarkað Kauphallar Íslands fyrir áramót. Áður starfaði Högni hjá Heild fasteignafélagi og hefur því byggt upp mikla þekkingu á fasteignamarkaði.

Laugardalurinn hefur átt stóran stað í hjarta Högna en hann lék knattspyrnu með Knattspyrnufélaginu Þrótti á yngri árum en í dag er hann iðinn við að styðja félagið. Samhliða knattspyrnunni var Högni keppnismaður á skíðum og eyddi miklum tíma í fjallaloftinu, bæði í Bláfjöllum, norður í landi en ekki síður í Ölpunum þar sem æfinga- og keppnisferðir voru þónokkrar yfir ferilinn. Einnig stundaði Högni tónlistarnám við Tónskóla Sigursveins og lék þar á klarinett en hann tók þátt í fjölda tónleika, lék einleik, spilaði með öðrum og tók þátt í starfi blásturshljómsveitar skólans. Síðar hóf hann að stunda crossfit og lyftingar og keppti m.a. á Norðurlandamóti í ólympískum lyftingum, en sá ferill leiddi síðar út í þjálfun í CrossFit Reykjavík.

„Íþróttir og hreyfing hefur alltaf verið ofarlega á blaði hjá mér. Eftir að keppnisferlinum lauk hef ég tekið þátt í alls kyns hreyfingu, tók nokkur ár í götuhjólreiðum af krafti, endurvakti golfáhugann sem hafði kviknað þegar ég var yngri og næsta markmið er að prófa fjallaskíði en reynslan úr skíðaferlinum ætti að nýtast vel þar. Skemmtilegast í dag er þó þegar hægt er að blanda saman íþrótt og félagslífi. Síðustu ár hafa verið viðburðarík en stærsta verkefni mitt blasir við í sumar þegar frumburðurinn kemur í heiminn.“

Fjölskylda Sambýliskona Högna er Hlín Sigurðardóttir, f. 2000, en þau eiga von á sínu fyrsta barni í júní. Foreldrar Högna eru hjónin Kristján Kristjánsson, f. 1962, fjölmiðlamaður, og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, f. 1963, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. Systkini Högna eru Þórunn Bryndís, f. 1992, Brynja Björg, f. 2000 og Kári, f. 2004.