Eftir að önnur umferðin í 4. riðli A-deildar undankeppninnar var leikin í gær hafa línur skýrst talsvert. Austurríki vann útisigur á Póllandi, 3:1, í hinum leiknum í Gdynia og þar með er staðan í riðlinum sú að Þýskaland er með sex stig, Austurríki þrjú, Ísland þrjú og Pólland ekkert

Eftir að önnur umferðin í 4. riðli A-deildar undankeppninnar var leikin í gær hafa línur skýrst talsvert. Austurríki vann útisigur á Póllandi, 3:1, í hinum leiknum í Gdynia og þar með er staðan í riðlinum sú að Þýskaland er með sex stig, Austurríki þrjú, Ísland þrjú og Pólland ekkert.

Þjóðverjar stefna því hraðbyri á EM í Sviss á næsta ári og geta gulltryggt sér sæti þar með því að vinna Pólverja í leikjum þjóðanna 31. maí og 4. júní en þá eru þriðja og fjórða umferð riðilsins leiknar.

Austurríki og Ísland eru nánast komin í einvígi um annað sætið, sem gefur einnig keppnisrétt á EM 2025. Þjóðirnar mætast í þriðju og fjórðu umferð riðilsins, fyrst 31. maí í Ried im Innkreis í Austurríki og síðan á Laugardalsvellinum 4. júní.

Markatala liðanna er nánast hnífjöfn, Austurríki er ofar í töflunni með markatöluna 5:4 á meðan markatala Íslands er 4:3.

Vinni annað liðanna báða leikina tryggir það sér sæti á EM. Annars ráðast úrslitin í fimmtu og sjöttu umferð þegar báðar þjóðir mæta Þýskalandi og Póllandi en þeir leikir fara fram um miðjan júlí. Ísland á þá heimaleik gegn Þýskalandi og síðan útileik gegn Póllandi.

Liðin tvö sem enda í þriðja og fjórða sæti riðilsins eiga áfram ágæta möguleika á að komast á EM því þau fara í umspil í haust ásamt þjóðum sem verða í efstu sætum riðlanna í
B- og C-deildum undankeppninnar.