[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árið 2021 hefðu þeir Hjálmtýr Heiðdal og Einar Steinn Valgarðsson farið á límingunum ef þeir hefðu einhvern tíma verið á þeim. Þeir kalla sig friðarsinna en eru í raun málsvarar allra þeirra sem mola vilja niður vestræn gildi

Ljúfa lífið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Árið 2021 hefðu þeir Hjálmtýr Heiðdal og Einar Steinn Valgarðsson farið á límingunum ef þeir hefðu einhvern tíma verið á þeim. Þeir kalla sig friðarsinna en eru í raun málsvarar allra þeirra sem mola vilja niður vestræn gildi. Gildir þá einu hvort um er að ræða fjöldamorðingja sem fylgja Hamas að málum eða morðhundana sem slátruðu fjórðungi íbúa Kambódíu undir dýrðlegri forystu Pols Pots á 8. áratug síðustu aldar. Væri raunar hægt að telja afrekalista stuðningsmannanna upp og taka alla þessa grein undir það, en nægir að nefna þessi tvö dæmi hér áður en lengra er haldið.

Ástæða uppþotsins fyrir þremur árum var það að íslenskt fyrirtæki, norður í landi, hóf innflutning og sölu á rauðvíni frá ágætri víngerð í Ísrael. Þótti íslensku kmerunum þetta ótækt, enda halda þeir fast við þá söguskoðun að stofnun Ísraelsríkis hafi falið í sér landrán og að ekkert réttlæti fáist fyrr en landinu verði skilað. Sú afstaða stendur hins vegar á veikum grunni og það vita allir þeir sem með yfirveguðum hætti kynna sér sögu ríkisins, hvernig til þess var stofnað og á grunni hvers.

Fólk sér í gegnum þá

Hinir hugumprúðu friðarsinnar roðans í austri hvöttu samlanda sína til þess að neita sér um hin ísraelsku vín. Ótækt væri að fólk tíndi flöskur af þessu tagi úr hillum Vínbúðanna og nú væri rétt að sýna Ísraelunum í tvo heimana. Auðvitað höfðu æsingar þessar þveröfug áhrif. Salan á víninu margfaldaðist. Fólk sá í gegnum plottið og vissi sem var að uppbygging víngerðar í Ísrael hefur fært auðsæld til gyðinga og múslima sem þar starfa hlið við hlið og í sátt og samlyndi.

Og nú er sami söngurinn hafinn að nýju – og úr gamalkunnum áttum. Nú á að nýta hörmungarnar á Gasa, sem stofnað var til af Hamas-samtökunum með einhverju viðurstyggilegasta hryðjuverki allra tíma þann 7. október síðastliðinn, til þess að koma í veg fyrir að Íslendingar bragði á víni sem á uppruna sinn í Landinu helga. Nú er önnur víngerð í skotlínu friðarhöfðingjanna og því upplagt að skyggnast undir korkinn og sjá hvað þar er í boði.

Amorítakonungarnir

Þar er um að ræða vín frá víngerðinni Clos de Gat, sem staðsett er u.þ.b. miðja vegu milli ísraelsku borganna Tel Avív og Jerúsalem. Við rætur fjallanna í Júdeu að sunnanverðu, rétt á þeim slóðum þar sem Jósúa sigraði Amorítakonungana fimm í Ajalon. Clos vísar til afgirts víngarðs en Gat er ævafornt hugtak, sótt í hebresku og merkir vínpressa. Því má upp á íslensku nefna víngerðina Vínpressugarðinn. Er talið að víngerð hafi verið stunduð á þessu svæði um langan aldur, raunar löngu áður en Rómverjar hösluðu sér völl þar allt frá árinu 63 f.Kr.

Eitthvað hefur raunar valdið því að menn ákváðu að planta vínviði á þessu svæði svo snemma. Loftslagið hefur væntanlega unnið með slíkri ákvörðun en það gerði jarðvegurinn einnig. Þunnt lag af lausum jarðvegi sem liggur ofan á miklum og gljúpum kalksteini. Allt hljómar þetta kunnuglega í samhengi við önnur þekkt víngerðarsvæði, m.a. í Champagne sem mér hefur orðið tíðrætt um í pistlum á þessum vettvangi.

Núverandi eigendur víngerðarinnar hafa lagt áherslu á að nýta þessar aðstæður til þess að rækta upp heimsþekktar þrúgutegundir, á borð við Cabernet Sauvignon, Merlot, Petit Verdot, Syrah og Chardonnay. Þá hafa þau einnig gert tilraunir með Sauvignon Blanc og Viognier.

Þau þrjú vín sem ég hafði tök á að smakka eru hins vegar þau sem í boði eru í Vínbúðunum um þessar mundir (og flutt inn af hinu skemmtilega Föroya Bjór-fyrirtæki). Það er Har’el Cabernet Sauvignon 2019 (5.567 kr.), Clos de Gat Chardonnay 2020 (6.536 kr.) og Har’el Merlot 2020 (5.436 kr.)

Cabernet Sauvignon

Ef við byrjum að skyggnast eilítið yfir fyrstnefnda vínið þá er þar um að ræða blöndu af 95% Cabernet Sauvignon og 5% Petit Verdot (reglur heimila blöndun af þessu tagi en nefna á vínið eftir meginþrúgunni sem notast er við). Það er 13% að alkóhólstyrk sem er þó ekki áberandi í víninu. Það fyrsta sem maður tekur eftir er dökkrauður liturinn sem leitar jafnvel út í brúnt. Þá tekur við í glasinu léttur eikartónn sem sóttur er með því að láta vínið hvíla í 12 mánuði í eikartunnum en 30% blöndunnar liggja á nýrri eik sem gefur kraftmesta tóninn. Með eikinni finnur maður svo áberandi ávaxtatóna og krydd sem minna á kryddilminn sem tekur á móti manni þegar gengið er um hrjóstrugar hæðirnar umhverfis Jerúsalem. Vínið er þétt og svipmikið í ágætu jafnvægi og tannínin, sem ég hefði fyrir fram talið að yrðu nokkuð afgerandi, eru þægileg. Og þar hjálpar kannski ekki síst sú staðreynd að vínið er nú þegar orðið 5 ára gamalt og á enn nokkuð inni til þess að ná hátindi síns „ferils“.

Chardonnay

Hvítvínið var það sem ég var hvað spenntastur fyrir að smakka enda er það mun erfiðara í framleiðslu fyrir vínræktarhéruð sem liggja jafn sunnarlega og Júdeufjöllin. Chardonnay er hins vegar mögnuð þrúga, drottning hvítvínsins og hún getur brugðið sér í allra kvikinda líki. Líkt og við var að búast er þetta vín nokkuð margbrotið, á einhvern hátt djúpt. Smjörkennt er það svo sannarlega eða öllu heldur olíukennt (sem er skiljanlegt enda koma bestu ólívur í heimi frá Ísrael og það á reyndar við um döðlur einnig). Kryddtónar, appelsínublóm, sítrusávöxtur. Sýran er þétt en tempruð og gefur víninu það sem mætti kalla „næstum-ferskleika“ þótt það væri ofsagt að segja það frísklegt. Eikin er ekki langt undan en hún er ekki afgerandi eða frek til fjörsins. Þetta er vín sem ég mæli með að neytt sé með góðum mat. Kraftmiklu salati sem „kryddað“ er með olíu, pönnusteikt rauðspretta kæmi vel til greina eða jafnvel humarsalat með miklu smjöri og hvítlauk.

Merlot

Allir muna eftir Miles úr Sideways (þeim sem Paul Giamatti túlkaði svo eftirminnilega). Hann hataði Merlot, ekki síst vegna þess að það var uppáhaldsþrúga eiginkonu hans – en ég verð að viðurkenna að ég er svolítið sama sinnis. Það hefur ekkert með konur að gera. Merlot hefur einfaldlega aldrei höfðað til mín, ekki frekar en Eurovision.

En þarna er það, þetta vín frá Landinu helga. 13,5% bolti sem er allt það sem fólk leitar að einmitt í þessari þrúgu. Brómber, sykraðar plómur og svo kryddtónar sem mynda hugrenningatengsl við fyrstnefnda vínið hér að ofan. Uppbygging vínsins er elegant og það er þétt. Það er Merlot! Fyrir þá sem elska þrúguna er þetta góður kostur. Við Miles myndum alltaf taka Cabernet Sauvignon fram yfir þetta. En það er smekkur, enginn Stóridómur.

Og hvað næst

Og nú rýkur fólk upp til handa og fóta. Fer ekki á límingunum til að fylla flokk með Hjálmtý og öðrum aðdáendum Pots. Heldur til þess að smakka á þessum skemmtilegu flöskum og ýta undir það að frjáls viðskipti, menning og friður geti sprottið upp af sólbrenndu landinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Það verður ekki gert með því að ala á gyðingahatri eða kalla fordæmingu yfir almenning þar í landi með því að svipta það lífsviðurværinu. Heldur einmitt því að standa með frjálsu samfélagi og friðsamlegu. Heimsmynd sem er fjarri forystumönnum Hamas, Rauðu kmeranna, stalínista, marxista og annarra alræðissinna sem alltaf koma heiminum í klandur, hvar sem þeir ná eyrum bláeygðra (orðabók staðfestir að þetta vísar ekki til tiltekinna kynþáttahugmynda).