Svana Hér í tökum við Goðafoss, líkust frelsisstyttu þar sem hana ber við himin. Hvílíkur kvennakraftur.
Svana Hér í tökum við Goðafoss, líkust frelsisstyttu þar sem hana ber við himin. Hvílíkur kvennakraftur. — Ljósmyndir/Þurý Bára Birgisdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef lært í gegnum tíðina að treysta á innsæið, þegar maður gerir það þá tekst yfirleitt vel til,“ segir Sigrún Vala Valgeirsdóttir kvikmyndagerðarkona um það þegar hún, þrátt fyrir að hafa nánast ekkert þekkt hana, fékk Svanlaugu…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég hef lært í gegnum tíðina að treysta á innsæið, þegar maður gerir það þá tekst yfirleitt vel til,“ segir Sigrún Vala Valgeirsdóttir kvikmyndagerðarkona um það þegar hún, þrátt fyrir að hafa nánast ekkert þekkt hana, fékk Svanlaugu Jóhannsdóttur til samstarfs við sig við gerðar kvikmyndarinnar Draumar, konur og brauð, sem frumsýnd verður í næstu viku.

„Í kringum Svönu er einhver dýnamík sem fer ekki framhjá neinum sem hittir hana, mér finnst ég mjög heppin að hún skuli hafa sagt já við beiðni minni um að vera með í þessu verkefni. Ekki fannst mér verra að hún mætti á námskeiðið þar sem við sáumst fyrst, í gulum jakka og bleikum kjól,“ segir Sigrún og Svana bætir við að námskeiðið hafi verið í handritagerð hjá Nönnu Kristínu. „Örlagastaðurinn var Skaftafell, þar sem Sigrún vann þetta sumar og ég hafði unnið þar í gamla daga. Þangað bauð hún okkur og við byrjuðum að spjalla. Hún var ekkert að hika, spurði hvort ég væri til í að taka að mér aðalhlutverkið í myndinni sem hún væri að vinna að, hvort ég vildi vera með henni í að þróa handritið og hvort ég væri til í að leikstýra myndinni með henni. Ég sagði já við þessu öllu og þakkaði henni fyrir að hafa svona mikla trú á mér.“

Kvikmynd Sigrúnar og Svönu, Draumar, konur og brauð, dansar á línu heimildamyndar og leikinnar bíómyndar. Hún er heimildarmynd um konur sem reka kaffihús á landsbyggðinni en áhorfandinn er líka tekinn með í ævintýralegt ferðalag tveggja vinkvenna, listakonunnar Svönu sem Svana leikur og líffræðingsins Agnesar sem Agnes Eydal leikur. Þær leggja upp í hringferð þar sem húmor og tónlist tvinnast við ferðalagið, sem og þjóðsögur og minni í anda töfraraunsæis.

Fleiri kjóla og annan hatt

Sigrún segist hafa verið búin að taka viðtöl við kaffihúsakonurnar þegar hún fékk Svönu til liðs við sig, en með aðkomu hennar hafi verkefnið þróast í nýjar áttir.

„Gerð þessarar myndar er tilraunaverkefni, þetta er tilraun okkar til að gera skemmtilega heimildarmynd þar sem inn fléttast leikin bíómynd. Galdurinn í skapandi samstarfi okkar Svönu felst í því að ég gef hugarfluginu lausan taum og Svana grípur boltann og kemur með nýjan snúning sem steinliggur. Það skiptir líka miklu máli fyrir mig að hafa húmor í samvinnu og hjá Svönu vantar ekkert upp á hann. Við höfum vissulega stundum ólíka sýn, en það er samt einhver sameiginlegur listrænn þráður sem næst að spinna úr á skemmtilegan hátt. Við vorum mjög samtaka um að hafa að leiðarljósi hinn skemmtilega frásagnarmáta sem kallast töfraraunsæi og við ákváðum líka að hafa myndina litríka. Svana var alltaf að segja „fleiri kjóla, annan hatt, það vantar rauðan varalit“.

Svana segir að kjólar, hattar og hár fjúki þó nokkuð til í myndinni, því í tökunum hafi verið rosalega mikið rok.

„Við tókum myndina upp í júní en það var gul viðvörun alla tökudagana, nema daginn sem var appelsínugul viðvörun. Þetta er því heiðarleg birtingarmynd af Íslandi, það sést aðeins einu sinni í bláan himin, en í þessu roki er einhver sérstök fegurð.“

Heiðarlegt og vinnusamt fólk

Sigrún segir að sig hafi langað til að koma til skila í myndinni þeirri menningu sem hún ólst upp við.

„Þema myndarinnar er ást mín til landsins og fólksins míns sem ég ólst upp með, það var heiðarlegt fólk og vinnusamt í sveit þar sem lífsbaráttan gat verið hörð. Mér fannst líka mikilvægt að skjalfesta tungumálið. Við finnum þessa menningu þegar við ferðumst um landið, til dæmis á kaffihúsum kvenna í heimabyggð. Þessar konur áttu sér ekki endilega draum um að reka kaffihús, en þær bregðast við þörf á sínum svæðum fyrir þjónustu og leggja sig allar fram. Á einu kaffihúsinu hafa konur hist í tuttugu ár á hverjum laugardegi. Þetta er mikill stuðningur við samfélagið og þær leggja mikið til ferðaþjónustunnar. Ég er sagnfræðingur og með þessari kvikmynd er ég meðal annars að skrá kvennasögu,“ segir Sigrún og Svana bætir við að okkur vanti sögur af konum sem eru skrifaðar af konum, út frá kvenlegum gildum.

„Það skiptir ofboðslega miklu máli að saga okkar kvenna sé skrifuð og hvernig hún er skrifuð, að hún sé skrifuð af okkur sjálfum, konum. Fjallkonan, völvur, galdrar og fleira kventengt kemur við sögu í myndinni, enda lögðum við áherslu á að leyfa konum að njóta sín.“

Meiri sprellikerlingarnar

Sigrún segir að konurnar sem leika í myndinni séu í raun allar að leika sjálfar sig, þótt þar birtist ýkt útgáfa af þeim.

„Agnes hefur unnið sem líffræðingur í tuttugu ár og Svana er listakona í raunheimum en sjálf er ég með bakgrunn í áhugaleikhúsi og ég leik konu sem er að reyna að sigra í kökukeppni á sólstöðuhátíð. Við getum velt fyrir okkur hvort lífið sé ein stór kökukeppni.“

Svana segir að þær Sigrún séu harla góðar saman í kvikmyndagerðinni, þótt ólíkar séu.

„Sigrún er djúp og hæg og pælir mikið í stjörnum og merkjum, en ég er með brjálaðan athyglisbrest og fyrir vikið fer mér fljótt að leiðast og vil drífa hlutina áfram. Við erum hvor með sinn takt, en úr því kemur eitthvað fallegt. Hljóðmaðurinn sem vann fyrir okkur á lokametrunum sagði eftir að hafa horft á myndina: „Þið eruð nú meiri sprellikerlingarnar.“

Draumar, konur og brauð verður frumsýnd í Bíó Paradís 20. apríl.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir