Við störf Spáð er 3,5% til 3,7% atvinnuleysi í aprílmánuði.
Við störf Spáð er 3,5% til 3,7% atvinnuleysi í aprílmánuði. — Morgunblaðið/Eggert
Skráð atvinnuleysi á landinu var 3,8% í seinasta mánuði og lækkaði úr 3,9% frá febrúar. Er þetta í fyrsta skipti frá í júlí í fyrra sem atvinnuleysi minnkar á milli mánaða. Mest atvinnuleysi var á Suðurnesjum en þar minnkaði það þó frá mánuðinum á undan úr 6,9% í 6,5% í mars

Skráð atvinnuleysi á landinu var 3,8% í seinasta mánuði og lækkaði úr 3,9% frá febrúar. Er þetta í fyrsta skipti frá í júlí í fyrra sem atvinnuleysi minnkar á milli mánaða. Mest atvinnuleysi var á Suðurnesjum en þar minnkaði það þó frá mánuðinum á undan úr 6,9% í 6,5% í mars. Minna atvinnuleysi mældist á flestum stöðum á landinu frá febrúar, nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem það stóð í stað (3,8%).

Þetta kemur fram á yfirliti Vinnumálastofnunar um ástandið á vinnumarkaðinum í seinasta mánuði. Stofnunin spáir því nú að áfram muni draga úr atvinnuleysi í apríl og að það gæti orðið á bilinu 3,5% til 3,7%.

Að meðaltali voru 7.518 atvinnulausir í mars, 4.344 karlar og 3.174 konur, og fækkaði atvinnulausum um 71 á milli mánaða.

„Atvinnulausum fækkaði í flestum atvinnugreinum í mars, mest var fækkunin í farþegaflutningum með flugi, ferðaþjónustu og gistiþjónustu.

Atvinnulausum fjölgaði lítillega í lok mars í nokkrum atvinnugreinum, mest þó í iðnaði,“ segir í samantekt Vinnumálastofnunar.

Fram kemur að alls voru 7.780 án atvinnu í lok mars, 4.410 karlar og 3.370 konur. 838 atvinnuleitendur sem voru án atvinnu voru á aldrinum 18-24 ára.

„Alls höfðu 1.253 verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok mars 2024 og fjölgaði um 11 frá febrúar. Í mars 2023 var fjöldi þeirra hins vegar 1.644 og nemur fækkunin 391 á milli ára.

Þeir sem höfðu verið atvinnulausir í 6-12 mánuði voru hins vegar 1.861 í mars síðastliðnum en voru 1.481 í mars 2023.“ omfr@mbl.is