Sjávarútvegshúsið Þegar endurbætur hófust á húsinu kom í ljós að það var verr farið en reiknað var með. Meðal annars fundust þar rakaskemmdir.
Sjávarútvegshúsið Þegar endurbætur hófust á húsinu kom í ljós að það var verr farið en reiknað var með. Meðal annars fundust þar rakaskemmdir. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á undanförnum árum hafa um 26 þúsund fermetrar húsnæðis í eigu ríksins verið teknir úr notkun vegna myglu og rakaskemmda. Hefur vandamálið farið hríðversnandi. Þessar upplýsingar fékk Morgunblaðið hjá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum (FSRE)

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Á undanförnum árum hafa um 26 þúsund fermetrar húsnæðis í eigu ríksins verið teknir úr notkun vegna myglu og rakaskemmda. Hefur vandamálið farið hríðversnandi.

Þessar upplýsingar fékk Morgunblaðið hjá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum (FSRE). Stofnunin hefur umsjón með 350 ríkiseignum sem eru samtals 530 þúsund fermetrar. Fyrrnefnd tala um myglu nær yfir eignir í umsjá FSRE og nemur um 5% af eignasafninu.

Árið 2018 voru tómir fermetrar (m2) vegna rakaskemmda aðeins 325. Síðan hefur ástandið versnað stöðugt. Árið eftir var talan komin upp í 5.642 fermetra, 2020 (10.575 m2), 2021 (13.485 m2), 2022 (18.348 m2) og loks 2023 (26.030 m2).

En hér er ekki öll sagan sögð. Í skriflegu svari FSRE við fyrirspurn Morgunblaðsins kemur fram að til viðbótar við eignir á þessum lista eru byggingar sem ákveðið hefur verið að gera upp og rakaskemmdir hafa komið í ljós í viðgerðum. Í því samhengi má nefna Skúlagötu 4, en miklar tafir hafa orðið á endurgerð þess húss vegna rakaskemmda.

Ekki liggur fyrir hversu háar upphæðir hafa farið í viðgerðir sérstaklega vegna rakaskemmda. Viðhald húsnæðis hefur oftast annan tilgang en beinar viðgerðir rakaskemmda sem eru framkvæmdar samhliða, segir í svari FSRE.

Framkvæmdaýslan – Ríkseignir hefur ekki umsjón með öllum húseignum ríkisins. Eins og fram hefur komið í fréttum fjölmiðla hafa rakaskemmdir fundist í fleiri ríkishúsum á landinu og hefur starfsemi verið hætt í þeim.

Eins og fram kom í frétt í Morgunblaðinu í september sl. hafa undanfarin misseri staðið yfir viðgerðir og endurbætur á stórhýsinu Skúlagötu 4, Sjávarútvegshúsinu. Þær hafa reynst umfangsmeiri en lagt var upp með.

Fljótlega varð ljóst að ástand hússins var mun verra en talið var í fyrstu. Við blasti að gera þurfti við innra og ytra byrði hússins. Sprungur höfðu myndast í gegnum tíðina og húsið lekið á mörgum stöðum með tilheyrandi rakavandamálum. Einnig hefur þurft að skipta út öllum gluggum hússins. Kostnaðurinn skiptir milljörðum króna.

Vegna framkvæmdanna flutti sjávarútvegsráðuneytið, nú matvælaráðuneytið, í Borgartún. Skúlagata 4 er skráð 6.165 fermetrar að stærð í fasteignaskrá. Þarna verða í framtíðinni fimm ráðuneyti.

Í byrjun þessa árs flutti mennta- og barnamálaráðuneytið frá Sölvhólsgötu 4 á efstu hæð í Borgartúni 33. Ástæðan var sú að húsið hentaði illa fyrir starfsemina og var að auki illa farið, meðal annars vegna rakaskemmda.

Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) reisti húsið og var það fullbúið 1920. SÍS var um árabil stórveldi í íslensku athafnalífi en hætti starfsemi seinni hluta síðustu aldar (1992) í kjölfar mikilla fjárhagserfiðleika. Ríkissjóður eignaðist Sambandshúsið árið 1987.