Íhugull „Einn helsti kosturinn við skrif [Erlings] Kagge um þögnina er hvað hann kemur víða við í ferðalaginu sem hann býður okkur lesandum með sér í,“ segir í rýni um bók Kagge.
Íhugull „Einn helsti kosturinn við skrif [Erlings] Kagge um þögnina er hvað hann kemur víða við í ferðalaginu sem hann býður okkur lesandum með sér í,“ segir í rýni um bók Kagge. — Ljósmynd/Lars Pettersen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hugleiðingar Þögn á öld hávaðans ★★★★· Eftir Erling Kagge. Magnús Þór Hafsteinsson íslenskaði. Ugla, 2024. Mjúk kápa, 143 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Stundum er það besta í lífinu ókeypis. Kyrrðina sem ég hef í huga getur maður fundið þar sem maður er hverju sinni, þegar það hentar manni, inni í höfði manns og kostar ekki neitt. Maður þarf ekki að fara til Srí Lanka. Maður getur fundið hana sitjandi í baðkarinu heima“ (75).

Hér skrifar norski rithöfundurinn og útgefandinn Erling Kagge (f. 1963) um leit sína að þögninni, leit að mikilvægri ró og kyrrð í áreiti nútímalífsins. Fyrir utan að hafa náð eftirtektarverðum árangri sem forleggjari og einnig höfundur, þá er Kagge menntaður heimspekingur og mjög þekktur ævintýramaður. Hann varð fyrstur til að ljúka því sem hefur verið kallað „þriggja póla þolraun“ og felst í því að ganga einn og án aðstoðar á norður- og suðurpólinn og á tind Everest, og svo hefur hann siglt langar vegalengdir og lagt á sig alls kyns og ólík önnur ferðalög sem má kalla þolraunir, til að mynda gengið yfir Vatnajökul og eftir holræsakerfi New York-borgar. Svo er Kagge kunnur safnari samtímamyndlistar og má sjá dæmi um þann áhuga í þessari býsna athyglisverðu og læsilegu bók.

Þögn á öld hávaðans nefnist ritið og lýsir titillinn viðfangsefninu vel; þá hnykkir undirfyrirsögnin á aðferð ævintýramannsins við að leita þagnar: „Ánægjan af að loka heiminn úti.“ Í upphafi greinir Kagge frá mikilvægi þagnar í lífi sínu; kveðst hann hafa „grundvallarþörf fyrir þögn“ og reynir að útskýra fyrir dætrum sínum að „leyndardómar veraldarinnar fælust í þögninni“ (9). Það eru dramatískar fullyrðingar og viðbrögð ungu kynslóðarinnar að hans mati ekkert sérstök. Í framhaldinu heldur Kagge áfram að hugleiða þögnina og hvers vegna hann telji hana svo mikilvæga. Reynir hann að skýra það fyrir lesendum í 33 tilraunum hvað sé þögn, sem líka megi kalla kyrrð eins og í skýringu höfundarins hér að framan.

Einn helsti kosturinn við skrif Kagge um þögnina er hvað hann kemur víða við í ferðalaginu sem hann býður okkur lesandum með sér í. Og það er býsna skemmtilegt flakk og áhugavert. Ferðin er undirbyggð af þekkingu höfundarins á heimspeki, sem hann vitnar í með áhugaverðum hætti, til að mynda í skrif og þögn Wittgensteins og hugmyndir Kierkegaards um eilífð. Hann vísar líka í frásagnir af áhugaverðu og ólíku fólki, eins og Elon Musk, og verk og hugmyndir listamanna eru fyrirferðarmikil í hugleiðingunum, til dæmis Nóbelsskáldsins Jons Fosse og skáldbræðra hans Bashos og Hauges, og tónskáldanna Bachs, Beethovens og Cage. Þá prýða á annan tug vel valinna myndverka bókina og þar er blái liturinn áberandi, litur þagnar, himins og eilífðar. Sumar myndanna eru frá einsemdarlegum göngum höfundarins, aðrar sýna heimkynni okkar jarðarbúa utan úr geimnum, og svo eru birt myndverk eftir samtímalistamennina Doug Aitken og Ed Ruscha. Hin tímafreku ferðalög um fáfarna staði jarðarinnar hafa skiljanlega mótað afstöðu Erlings Kagge til lífsins og þar með þagnarinnar. Og hann gerir vel í að útskýra hugmyndir sínar um það hvers vegna kyrrð og þögn séu sér, og um leið að hans mati okkur öllum, svo mikilvæg. Hreinlega til að halda andlegri heilsu og jafnvægi, og líka til að geta lifað skapandi lífi. Ef hann getur ekki farið í göngu eða út í náttúruna að leita þagnar, hefur hann til dæmis lært að finna hana við jógaiðkun. En ferðalög hans eru annars áberandi í hugleiðingunum.

Í bókarlok útlistar Kagge heimildir og rit listamanna sem hann fjallar um í hverri hinna 33 tilrauna til að útskýra þögnina. Listinn er gagnlegur. Magnús Þór Hafsteinsson þýðir bók Kagge og rennur textinn lipurlega á fínni íslensku hjá þessum reynda þýðanda. Magnús bætir við skýringum á því þegar hann leitar til eldri þýðinga annarra, til að mynda á ljóðabrotum og heimspekitextum. Þegar kemur að víðfrægri og vitaskuld örstuttri hæku japanska meistarans Matsuos Basho (1644-1694) um froskinn sem stekkur í tjörnina, hæku sem rómuð skáld út um heimsbyggðina hafa tekist á við að þýða á sín móðurmál, þá er að sjá sem Magnús hiki ekki við að snara sjálfur ljóðinu, sem sagt er í skýringunni vera „endurort“ af norskum manni, Dørumsgaard að nafni. Það vandasama verk að þýða ljóð má svo sem kalla að enduryrkja en þýðing Magnúsar er hvað sem því líður klaufaleg og sérkennilegt að hann hafi ekki notað einhverja útgefna íslenska þýðingu viðurkenndra ljóðaþýðenda á hæku Bashos, eins og þeirri í safni hækuskáldsins Óskars Árna Óskarssonar á ljóðum eftir Basho, rétt eins og stuðst er við þýðingu eftir Bergsvein Birgisson á ljóði eftir Olav H. Hauge. En hvað sem því líður þá er þetta athyglisvert verk og hugleiðingarnar góðar og oft óvæntar. Til dæmis er öflugasta öskur sem Kagge hefur „reynt“ hljóðlaust – það er málverkið „Ópið“ eftir landa hans Edvard Munch: „Við að horfa á það verð ég þögull. Gagnkvæm þögn með tengslum milli mín og málverksins. Jú, ég veit að ég get ekki stokkið inn í verkið, og kannski verið sá sem leggur hönd á hægri öxl hins æpandi, en mér finnst samt að ég sé fyllilega hluti af reynslu þess sem veinar“ (112).