Brot Tveir strákar með hjól við Hlemm þar sem Gasstöðin var rifin 1958.
Brot Tveir strákar með hjól við Hlemm þar sem Gasstöðin var rifin 1958. — Ljósmynd/Ragnar Vignir, Ljósmyndasafn Reykjavíkur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hámódernískar „hreingerningar“ í miðborginni Um miðjan 6. áratuginn fór skipulagsdeild bæjarins að leita nýrra leiða til að fjármagna og stuðla að endurskipulagningu í miðbænum. Tillögur um breytingar á skipulagslögum sem tryggðu…

Hámódernískar „hreingerningar“ í miðborginni

Um miðjan 6. áratuginn fór skipulagsdeild bæjarins að leita nýrra leiða til að fjármagna og stuðla að endurskipulagningu í miðbænum. Tillögur um breytingar á skipulagslögum sem tryggðu fjármögnun kostnaðarsamrar og róttækrar enduruppbyggingar innan eldri byggðar höfðu ekki gengið eftir. Því var mikilvægt að reyna nýja nálgun í þessum málum. Hún fólst í því að bæjaryfirvöld færu í samningaviðræður við lóðareigendur um stofnun sameiginlegs hlutafélags sem héldi utan um endurskipulagningu einstakra byggingarreita og uppbyggingu þéttari byggðar. Til að gera slík verkefni viðráðanlegri var í auknum mæli farið að horfa á skipulag smærri svæða eða eins eða tveggja götureita í einu. Gunnar H. Ólafsson skipulagsstjóri vék að þessu á síðum Morgunblaðsins sumarið 1957 og talaði þá fyrir þéttingu byggðarinnar innan Hringbrautar: „Það er skoðun skipulagsnefndarinnar að uppbygging ýmissa eldri hluta bæjarins, á grundvelli sameiginlegra átaka lóðaeigenda, og fyrir atbeina bæjarins mundi hafa mjög heillavænleg áhrif á skipulag bæjarins, og draga úr hinni öru útþenslu hans. Því fé, sem sparað yrði vegna minni gatnagerðar mætti verja til ýmissa skipulagslegra endurbóta í gamla bænum.“

Með eflingu skipulagsdeildarinnar um miðjan áratuginn gafst meira svigrúm til að sinna miðbæjarskipulaginu og svæðinu innan Hringbrautar. Það er líklegt að þeir arkitektar sem störfuðu á skipulagsdeildinni hafi þekkt vel til endurbyggingarverkefna í nágrannalöndunum. Eins og oft, bæði fyrr og síðar, var tilhneiging til að horfa til metnaðarfullra endurreisnarverkefna í miklu stærri borgum en Reykjavík. Á eftirstríðsárunum var nærtækast að horfa til höfuðborga Norðurlandanna, sérstaklega Kaupmannahafnar og Stokkhólms. Í báðum þessum borgum voru í mótun tillögur um stórfellda endurnýjun byggðar í miðborgunum og margir íslenskir arkitektar hafa eflaust þekkt vel til þeirra verkefna. Hugmyndir um nútímavæðingu miðborgar Stokkhólms komust raunar á flug strax um miðjan 4. áratuginn en stórtæk endurbygging hófst þó ekki fyrr en á 6. áratugnum. Endurbygging miðborgar Stokkhólms gekk mun greiðlegar fyrir sig en í Kaupmannahöfn. Hún var nátengd framkvæmdum við neðanjarðarlestakerfið, Tunnelbanan, en fyrsti áfangi þess hafði verið tekinn í notkun skömmu eftir 1950. Skúli H. Norðdahl og Aðalsteinn Richter höfðu báðir dvalið í Svíþjóð og hafa örugglega litið þangað eftir fyrirmyndum um hvernig mætti nútímavæða miðbæ Reykjavíkur. Það má vera að skipulagsverkefni eins og Hötorgcity í miðborg Stokkhólms, sem hófst upp úr 1952 og gerði ráð fyrir 18 hæða skrifstofubyggingum og stórtækri útrýmingu eldri byggðar, hafi verið arkitektum skipulagsdeildarinnar innblástur í mótun tillagna að endurreisn byggðar í gamla bænum í Reykjavík. Í það minnsta var dirfskan síst minni í tillögum hinna íslensku arkitekta, en óraunhæfnin að sama skapi meiri.

Á fyrri hluta árs 1956 var á skipulagsdeildinni unnin greining á mögulegri uppbyggingu á reit sem afmarkaðist af Laugavegi, Barónsstíg, Vitastíg og Hverfisgötu. Í framhaldinu voru lagðar fram tillögur um endurbyggingu viðkomandi reits. Óhætt er að segja að hér hafi verið beitt nokkuð nútímalegum vinnubrögðum og staðið faglega að verki, en það voru þeir Gunnar skipulagsstjóri og Skúli sem skrifuðu skýrsluna. Fjallað var ítarlega um fyrirséðan kostnað vegna uppkaupa eldri húsa á reitnum og mat lagt á aðra kostnaðarþætti og þann ábata sem gæti skapast með þéttari byggð á reitnum. Með þeim hætti var reynt að sýna fram á að sá kostnaður sem legðist á bæinn vegna uppkaupa og annars undirbúnings skilaði sér á endanum til baka. Þeir félagar nefndu sérstaklega þá leið að ganga til samstarfs við lóðareigendur og „mynda hlutafélag lóðaeigenda ... og bæjarins. Hlutaframlaga lóðaeigenda yrðu eignirnar og það fé, sem þeir kunna að vilja og geta lagt fram. Hlutur bæjarins yrði þá fjárframlag.“ Til að greiða fyrir framgöngu verkefnisins var lagt til að bærinn sjálfur hefði forgöngu um að byggja upp þann hluta reitsins sem var sameiginlegur mörgum aðilum. Á miðjum reitnum var gert ráð fyrir um 8 hæða háhýsi sem gengi þvert á reitinn milli Laugavegar og Hverfisgötu. Arkitektarnir lögðu áherslu á að það háhýsi yrði byggt hið fyrsta, með stuðningi bæjaryfirvalda, en þeir töldu að með þeirri framkvæmd væri hægt að gefa tóninn sem yrði hvatning fyrir aðra lóða- og húseigendur á reitnum. Endanleg skipulagstillaga náði einnig til næsta reits fyrir vestan, að Frakkastíg, og þar var einnig gert ráð fyrir allsherjar endurskipulagningu. Uppleggið í skýrslu Gunnars og Skúla hafði þó verið að ganga ekki um of á ríkjandi lóðaskipan, en þá var væntanlega átt við forlóðirnar sem snéru að viðkomandi götum. Líkt og í skipulagstillögunni frá 1927, sem gerði ráð fyrir samfelldri randbyggð á reitnum, var gengið út frá útrýmingu allra bakhúsa og baklóða. Hin nýja tillaga gerði einnig í raun ráð fyrir samfelldri byggð fast upp við götulínurnar en þó með meiri fjölbreytni í húshæðum og uppbroti bygginga, auk þess sem gert var ráð fyrir stórbyggingu sem teygði sig inn á baklóðina. „Kransbyggðin“ samkvæmt tillögunni frá 1927, eins og hún var nefnd í skýrslu arkitektanna, var þó gagnrýnd og þá einkum út frá loftræstingu, birtuskilyrðum og fagurfræði. „Ágallar slíkrar kransbyggðar liggja mjög í augum uppi ... bæði arkitektónískum og heilbrigðislegum.“ Skýrsluhöfundar töldu að nauðsynlegt væri að „opna byggðina til suðurs, að Laugavegi, í þeim tilgangi að gera húsagarðana hreinlega, bjarta og vistlega, og til þess að skapa opnari og „arkitónískt ríkari götumynd við Laugaveg.“

Skipulag þessara tveggja götureita við Laugaveginn var til umræðu næstu misseri og birtist skipulagsuppdrátturinn á síðum Morgunblaðsins sumarið 1957, þar sem innra skipulag reitanna var sýnt ásamt útliti húsanna er snéru að Laugaveginum. Á vestari reitnum næst Frakkastígnum var gert ráð fyrir 10 hæða skrifstofubyggingu sem dregin var eilítið inn á reitinn til norðurs. Tillögurnar gerðu einnig ráð fyrir að nýbyggingunum yrði almennt hnikað eilítið til norðurs frá Laugaveginum eða að jarðhæðir þeirra yrðu inndregnar, og var það í samræmi við hugmyndir um breikkun Laugavegar. Gert var ráð fyrir að bíl- og vörugeymslur yrðu alfarið neðanjarðar og „hugsaðar undir hinum yfirbyggðu húsagörðum.“ Útlit húsanna var samræmt í einu og öllu, í módernískum anda, og hljóta þessar hugmyndir að hafa vakið allmikla athygli, ekki síst fyrir þann stórhug sem fylgdi. En þetta var það sem koma skyldi í miðbæ Reykjavíkur að mati starfsmanna skipulagsdeildarinnar. Á þessum tveimur reitum risu síðar tvær nútímalegar stórbyggingar, að nokkru í samræmi við upphaflega skipulagið, það er skrifstofubyggingin við Laugaveg 77 og Kjörgarður sem reis á vestari reitnum.

Það hlýtur að hafa aukið tiltrú bæjarbúa á metnaðarfullum endurreisnarverkefnum sem þessum að um þetta leyti var hið nútímalega en umdeilda stórhýsi við Aðalstræti 6, sem átti að hýsa skrifstofur Morgunblaðsins, farið að rísa. Teikningar Gunnars Hanssonar að stórbyggingunni voru samþykktar í byrjun árs 1954 og var það 8 hæðir, en í upphaflegum hugmyndum útgáfufélagsins Árvakurs hafði verið gert ráð fyrir jafnvel 12 hæða skrifstofubyggingu. Skipulag bæjarins fyrir svæðið frá 1949 hafði einmitt gert ráð fyrir háhýsum við hina fyrirhuguðu torggötu en það var hins vegar umdeilt hversu há þau mættu vera. Á skissutillögu Gunnars Ólafssonar og Jóhanns Friðjónssonar frá febrúar 1958 var sett fram hugmynd um 14 hæða byggingu við norðurenda torggötunnar við Hafnarstræti og átti hún þannig að skáka Morgunblaðshöllinni sem helsta kennileitið í Kvosinni. Hugmyndir um háhýsi og stórbyggingar birtust í fjölda tillagna fyrir miðbæinn á þessum tíma. Árið 1956 var sett fram hugmynd um háhýsi við Skúlagötuna sem áttu að vera allt að 11 hæðir samkvæmt tillögum Gunnars skipulagsstjóra og Gunnars Hanssonar, sem þá var orðinn starfsmaður skipulagsdeildar bæjarins, og var tillagan samþykkt í samvinnunefndinni í mars 1957. Það áttu hins vegar eftir að líða tæp 30 ár þar til endurskipulagning iðnaðarsvæðanna við Skúlagötu kæmist til framkvæmda og þá með nýju skipulagi háhýsa í bland við lægri byggð.

Það var ekki laust við að enn djarfari og stórtækari skipulagstillögur kæmu fram þegar leið að lokum áratugarins. Margar fyrri tillögur höfðu virt hina sögulegu gatnaskipan gamla bæjarins þó þær gerðu ráð fyrir umbyltingu lóða og útrýmingu húsbygginganna innan sjálfra götureitanna. Og nýbyggingarnar áttu jafnan að standa fast upp við göturnar í anda klassískrar borgarhefðar. Það var ef til vill ekki beinlínis í anda strangtrúaðra módernista sem helst vildu einnig gjörbylta gatnaskipulaginu og samspili bygginga og almenningsrýma, óháð því hvort verið væri að byggja innan sögulegrar byggðar eða á óbrotnu landi. Í byrjun árs 1960 voru settar fram æði stórkarlalegar tillögur um uppbyggingu á svæði sem markaðist af Bergþórugötu, Grettisgötu, Barónsstíg og Frakkastíg og náði þannig til fjögurra götureita. Ári fyrr hafði verið lögð fram tillaga sem náði til austurhluta þessa svæðis. Með henni átti að umbylta hinu sögulega byggðamynstri og var raunar gengið mun harðar fram en boðað var nokkrum árum síðar í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1962–83. Skipulagstillagan var einkum unnin af Skúla H. Norðdahl en Aðalsteinn Richter, sem þá var orðinn skipulagsstjóri bæjarins, undirritaði einnig uppdrættina. Hinar fyrirhuguðu turnbyggingar, sem áttu að vera allt að 10 hæðir, voru dregnar inn á miðja reitina og í leiðinni var gatnaskipan á svæðinu breytt. Grettisgata var breikkuð, Njálsgata varð að húsagötu sem tengdist háhýsunum og Vitastígur sem lá um reitinn miðjan fékk breytt hlutverk. Tillaga þessi var samþykkt í bæjarráði þann 11. mars 1960 og í framhaldinu var óskað eftir staðfestingu hennar við ráðherra. Þessi róttæka tillaga að skipulagi við Grettisgötu og Njálsgötu var aftur til umræðu í tengslum við gerð aðalskipulagsins um miðjan 7. áratuginn og taldi Peter Bredsdorff tillögu Skúla „skúffumat“ sem ekki væri vert að halda til haga.