Stríð Síberíuherfylkið, hópur Rússa sem berst við hlið Úkraínumanna, við heræfingar í Kænugarði.
Stríð Síberíuherfylkið, hópur Rússa sem berst við hlið Úkraínumanna, við heræfingar í Kænugarði. — AFP/Genya Savilov
Stjórnvöld í Sviss tilkynntu í gær að þau myndu standa að alþjóðlegri friðarráðstefnu vegna Úkraínustríðsins um miðjan júní. Viola Amherd forseti Sviss verður gestgjafi ráðstefnunnar, sem á að fara fram í nágrenni Luzern-borgar dagana 15.-16

Stjórnvöld í Sviss tilkynntu í gær að þau myndu standa að alþjóðlegri friðarráðstefnu vegna Úkraínustríðsins um miðjan júní. Viola Amherd forseti Sviss verður gestgjafi ráðstefnunnar, sem á að fara fram í nágrenni Luzern-borgar dagana 15.-16. júní.

Amherd sagði á blaðamannafundi í gær að ráðstefnan væri fyrsta skrefið í áttina að varanlegum friði í Úkraínu, en rússnesk stjórnvöld fordæmdu fyrirætlanir Svisslendinga. María Sakharóva, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði í gær að friðarráðstefnan væri runnin undan rifjum Bandaríkjastjórnar og Bidens Bandaríkjaforseta.

Amherd viðurkenndi í gær að engir friðarsamningar yrðu undirritaðir á ráðstefnunni í ljósi þessarar afstöðu Rússa, en hún sagðist vona að önnur ráðstefna yrði þá haldin síðar með þátttöku Rússa og friðarferlið hafið.

Tilkynnt var um ráðstefnuna sama dag og Bandaríkjastjórn tilkynnti að hún myndi selja Úkraínumönnum hergögn og skotfæri sem metin væru á um 138 milljónir bandaríkjadala. Mun hernaðaraðstoðin einkum miða að því að styrkja loftvarnir Úkraínumanna, en þess er nú beðið að fulltrúadeild Bandaríkjaþings afgreiði frumvarp um enn frekari aðstoð við Úkraínu.