Pest Kíghósti leggst einkum á börn en einnig unglinga og fullorðna.
Pest Kíghósti leggst einkum á börn en einnig unglinga og fullorðna. — Ljósmynd/Colourbox
Fyrstu tilfellin af kíghósta hér á landi í fimm ár greindust nýlega. Í síðustu viku greindust tveir einstaklingar með kíghósta á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt landlæknisembættinu. Í færslu embættisins segir að útbreiðsla sjúkdómsins hafi farið vaxandi …

Fyrstu tilfellin af kíghósta hér á landi í fimm ár greindust nýlega. Í síðustu viku greindust tveir einstaklingar með kíghósta á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt landlæknisembættinu. Í færslu embættisins segir að útbreiðsla sjúkdómsins hafi farið vaxandi á heimsvísu á síðustu tveimur áratugum og sé hann landlægur í einhverjum löndum. Hér á Íslandi hafi kíghósti af og til greinst og þá gjarnan komið hrinur á 3-5 ára fresti.

Sjúkdómnum er lýst með eftirfarandi hætti: „Kíghósti er alvarleg öndunarfærasýking hjá börnum, einkum á fyrstu mánuðum ævinnar. Hjá unglingum og fullorðnum einkennist sjúkdómurinn af langvarandi og þrálátum hósta og kvefeinkennum. Ungum börnum á fyrstu sex mánuðum ævinnar er sérlega hætt við alvarlegum afleiðingum kíghósta, meðal annars slæmum hóstaköstum og öndunarstoppi og getur sjúkdómurinn verið þeim lífshættulegur.“

Smit berst á milli manna með úða frá öndunarfærum. Yfirleitt líða um 2-3 vikur frá smiti þar til einkenni koma fram. Einkennin eru í fyrstu vægt kvef, síðan vaxandi hósti, slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar. kris@mbl.is