Gunnar J. Straumland hvetur til þess að fólk forðist rætni, níð og stóryrði í garð þess ágæta fólk sem býður sig fram í komandi forsetakosningum, sem og annarra: Tungukorða temja skal, taum og skorður finna

Gunnar J. Straumland hvetur til þess að fólk forðist rætni, níð og stóryrði í garð þess ágæta fólk sem býður sig fram í komandi forsetakosningum, sem og annarra:

Tungukorða temja skal,

taum og skorður finna.

Gaspur forðast, göfga tal,

gæta orða sinna.

Ólafur Stefánsson kastar fram Vorljóði:

Í birtu vorsins á Bessastöðum,

er blússandi gangur í málunum.

Flæðandi umferð á fornum hlöðum,

fagnað og veifað skálunum.

Með skálum þessum er skipt um gír,

skrensað til hægri, og vinstrið flýr.


En Katrín ætlar að fara í fötin,

Forsetans, þegar lengst skín sól.

Stoppa í sokka, stærstu götin,

standa vaktina'um höfuðból.

Með sóma það rækir, sæt og pen,

svo er hún líka Thoroddsen.

Sófaljóð er yfirskrift limru Hallmundar Kristinssonar:

Nú hart verður mér að meta

hvort mín verði til þess geta,

að komast úr leti

og hvort að ég geti;

- kosið mér nýjan forseta.

Þessi ágæta vísa var ort í Siglufirði fyrir kosningarnar 1956 og skilaði Áka Jakobssyni aftur inn á þing, en að þessu sinni fyrir Alþýðuflokkinn:

Alþýðunni endist fjör.

Ekki glatast sigurvon,

Þótt gikkir fengju góða spjör:

Vorn góðvin – Áka Jakobsson.

Eftir valdatöku ríkisstjórnarinnar 1959 var þessi vísa ort af ókunnum höfundi, en að þeirri stjórnarmyndun stóðu Ólafur Thors formaður Sjálfstæðisflokksins og Emil Jónsson formaður Alþýðuflokksins.

Allar þrautir frá oss flýja

fagnar þjóðin mædd.

Emeleruð Ólafía

er nú loksins fædd

Téður Emil hafði áður verið forseti neðri deildar Alþingis þegar Áki Jakobsson flutti jómfrúarræðu sína á þingi, en þá var Áki svo hvassyrtur að Emil ávítti hann. Bjarni Ásgeirsson fylgdist með úr þingsal og varð honum að orði:

Rægimála rýkur haf

rastir hvítar brýtur.

Reiðiskálum Emils af

Ákavíti flýtur.