Bónus „Til að geta boðið lágt vöruverð þarf áherslan að vera á magninnkaup og hagkvæman rekstur. Samkeppni er til góðs og öflugir keppinautar í matvöruverslun hvetja okkur til dáða,“ segir Björgvin hér í viðtalinu.
Bónus „Til að geta boðið lágt vöruverð þarf áherslan að vera á magninnkaup og hagkvæman rekstur. Samkeppni er til góðs og öflugir keppinautar í matvöruverslun hvetja okkur til dáða,“ segir Björgvin hér í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Einn af skemmtilegri þáttunum í mínu starfi er að fara út í búðirnar því þar fæst besta innsýnin í starfsemina. Gagnagreiningar segja mikið en á gólfinu fær maður stemninguna beint í æð og sér frá fyrstu hendi hvað virkar vel og hverju viðskiptavinir kalla eftir. Ekki síður er ævintýri líkast að kynnast þeim anda sem er innan fyrirtækisins; hraða og snerpu sem miðar að því að við séum alltaf með lægsta vöruverðið,“ segir Björgvin Víkingsson sem á dögunum tók við starfi framkvæmdastjóra Bónuss.

Síðastliðinn mánudag, 8. apríl, var 35 ára afmæli Bónuss. Haldið var upp á þau tímamót með 35% afslætti af jafn mörgum vörutegundum daglangt í verslunum fyrirtækisins, sem eru alls 33 hringinn um landið.

Einfaldleikinn ræður

„Samheldni er erfðamengið hjá Bónus,“ segir Björgvin sem settist niður með blaðamanni nú í vikunni. „Hér er engin hefð fyrir fundum eða því að setja málin í of þunga ferla; heldur er gengið beint í hlutina. Þetta gengur vel, því starfsfólkið veit hvers er vænst af því. Einfaldleiki er fyrir öllu. Þó að áherslubreytingar og framþróun eigi sér vitaskuld stað innan Bónuss er ekki farið í breytingar nema slíkt sé til hagsbóta fyrir viðskiptavini.“

Björgvin Víkingsson, fæddur árið 1983, er með meistaragráðu í stjórnun aðfangakeðja frá svissneskum háskóla og áður nam hann umhverfis- og byggingaverkfræði við Háskóla Íslands. Hann kom til starfa hjá Bónus sem innkaupastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri á síðasta ári, en áður var hann í um þrjú ár forstjóri Ríkiskaupa. Þar fór hann fyrir breytingum á rótgróinni stofnun sem tók á þeim tíma stór skref í að auka virði ríkisins í innkaupum. Björgvin hefur því mikla reynslu af innkaupum og vörustjórnun, sem er mikilvæg þekking hjá Bónus, sem í hálfan fjórða áratug hefur verið í leiðandi hlutverki í verslun á Íslandi.

„Ákvarðanataka hjá Bónus er jafnan hröð og starfsumhverfið spennandi. Margir finna sig í þessu umhverfi og menningu, sem endurspeglast í því að verslunarstjórarnir okkar eru yfirleitt fólk sem hefur unnið sig upp innan fyrirtækisins. Hefur kannski byrjað í hlutastarfi á afgreiðslukassa eða að raða í hillur en svo fengið meiri ábyrgð með tímanum. Oft er þetta fólk rúmlega þrítugt sem þá er kannski að stýra 30-70 manna hópi, sér um að panta inn og láta allt ganga upp í verslun sem veltir milljörðum króna,“ segir framkvæmdastjórinn.

Tugir þúsunda viðskipavinir

Viðskiptavinir eða afgreiðslur hjá Bónus í hverjum mánuði eru vel á aðra milljón. Fjöldinn sem kemur í búðirnar dag hvern er rokkandi, en að um fari tugir þúsunda viðskiptavina daglega segir sína sögu. Og þar hefur lágt vöruverð mikið að segja, að mati Björgvins.
„Við viljum af fullri einlægni vera með lægsta verðið og það hefur okkur tekist síðustu 35 árin. Galdurinn í því liggur í hagstæðum innkaupum, hóflegri álagningu og aðhaldi í rekstri. Það er gjarnan haft eftir Jóhannesi Jónssyni heitnum, stofnanda Bónuss, að það sé allt í lagi að græða en óþarfi að vera með græðgi. Ódýrustu vörunum, til dæmis þeim sem eru sérmerktar Bónus eða Euroshop, er gjarnan stillt upp þannig að þær séu í augnhæð viðskiptavina í hillunum. Þetta eru vörur sem við viljum hafa sýnilegar og halda að fólki.“

Björgvin segir að vel megi greina af viðskiptum hjá Bónus hvernig hagur heimila sé. Sala á neysluvörum sé yfirleitt nokkuð jöfn en stundum gefi eftir nærri mánaðamótum. Ætla megi þá að sú staða sem nú er í efnahagslífinu – verðbólga og háir vextir – hafi þar áhrif. Svo eykst sala strax aftur þegar nýr mánuður er genginn garð.
„Til að geta boðið lágt vöruverð þarf áherslan að vera á magninkaup og hagkvæman rekstur. Samkeppni er til góðs og öflugir keppinautar í matvöruverslun hvetja okkur til dáða. Að sama skapi er mikilvægt að til staðar sé samkeppni framar í virðiskeðjunni, hjá framleiðendum og heildsölum,“ segir Björgvin.

„Við sjáum að í ákveðnum geirum, þar sem samkeppni er ekki mikil, kemur slíkt yfirleitt niður á neytendum. Á því sviði blasir við að íslenskar landbúnaðarvörur búa við aðra umgjörð en flestir aðrir vöruflokkar. Samkeppnin er takmörkuð, bæði innanlands við innfluttar vörur og einnig skortir á köflum á hagkvæmni í framleiðslu landbúnaðarafurða, meðal annars vegna smæðar eða fyrirkomulags framleiðslu. Þetta getur leitt til hærra verðs. Við höfum í þessu samhengi áhyggjur af því þegar skref eru stigin til að draga úr samkeppni, því slíkt leiðir yfirleitt til hærra verðs. Vissulega er mögulegt að hægt sé að auka hagræði í framleiðslu með færri og stærri einingum, sem er vel. En þá þarf um leið að tryggja að ávinningur skili sér á endanum að hluta til neytenda. Við leggjum mikla áherslu á að gera íslenskum afurðum hátt undir höfði. Bónus er bæði stærsti viðskiptavinur bænda og stærsti seljandi framleiðslu þeirra.“

Einstök menning og starfsandi

Nýjasta verslun Bónuss er við Miðhraun í Garðabæ og var opnuð síðasta haust. Sú er, segir Björgvin, forskrift að því hvernig Bónusbúðir næstu framtíðar verða hvað varðar húsakynni, fyrirkomulag og afgreiðslutækni. Sjálfsafgreiðslan Gripið og greitt, þar sem fólk skannar vörurnar sjálft og getur gengið frá greiðslu í gegnum snjallsíma, sé í þeirri verslun og nokkrum fleiri. Unnið sé markvisst í að nýta tæknina til að bregðast við þörfum viðskiptavina.

Vanafestan og búseta ræður, að sögn Björgvins, miklu um hvert fólk beinir viðskiptum. „En við viljum að sjálfsögðu að neytendur hugsi með veskinu og að þar hafi Bónus vinninginn. Áður en ég kom til starfa hér voru innkaupin fyrir mína fjögurra manna fjölskyldu og einn hund tekin víða. Svo færði ég mig yfir í Bónus og mér reiknast svo til að matarreikningur mánaðarins hjá okkur hafi lækkað um 35-50 þúsund á mánuði,“ segir Björgvin sem mætir til vinnu á níunda tímanum á morgnana. Þá taki við fjölbreytt verkefni og hratt flýgur stund, eins og þar stendur.

„Fjölskyldan er í forgangi. Vinnudagarnir eiga það til að stýrast eftir því. Jafnvægi milli einkalífs og vinnu er afar mikilvægt, ekki síst gagnvart fyrirtækjunum. Ef gott svigrúm er til að sinna fjölskyldu og einkalífi fáum við frekar til okkar gott starfsfólk og það staldrar við. Þannig viðhelst fremur en ella sú einstaka menning, starfsandi og drifkraftur sem er svo einkennandi hjá Bónus og hefur fleytt okkur langt á 35 árum.“