Matvælaráðherra Fráfarandi ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, er ósátt við ný búvörulög, sem arftaki hennar samþykkti í atvinnuveganefnd.
Matvælaráðherra Fráfarandi ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, er ósátt við ný búvörulög, sem arftaki hennar samþykkti í atvinnuveganefnd. — Morgunblaðið/Eggert
Atvinnuveganefnd sætir harðri gagnrýni í bréfi sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sendi nefndinni sl. mánudag þar sem bent er á ýmsa skavanka sem ráðherrann telur að sé að finna á nýsamþykktum breytingum á búvörulögum

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Atvinnuveganefnd sætir harðri gagnrýni í bréfi sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sendi nefndinni sl. mánudag þar sem bent er á ýmsa skavanka sem ráðherrann telur að sé að finna á nýsamþykktum breytingum á búvörulögum. Kemur þar fram að eftir athuganir ráðuneytisins á þeim breytingum sem gerðar voru á frumvarpinu í meðförum Alþingis, ábendingum sem borist hafi, ásamt því að sérfræðingar ráðuneytisins voru ekki kallaðir á fund nefndarinnar við afgreiðslu málsins, telji ráðherrann nauðsynlegt að koma athugasemdum á framfæri.

Sú sérkennilega staða er þar með upp komin að matvælaráðherra gagnrýnir í bréfinu meðferð málsins í atvinnuveganefnd, en í nefndinni situr enn nýr matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, og stóð þ.a.l. að breytingunum sem nefndin gerði á frumvarpi matvælaráðherra sem ráðherrann gerir nú harðar athugasemdir við.

Í bréfinu er bent á að þær breytingar sem gerðar voru á frumvarpi matvælaráðherra í meðförum Alþingis gangi mun lengra en frumvarpið sjálft, m.a. með því að veita félögum framleiðenda kjötafurða víðtækari undanþágu frá samkeppnislögum en ætlað hafi verið. Samrunaeftirlit sé og undanþegið og ekki gerð krafa um eignarhald eða stjórn bænda á félögunum. Slíkt félag geti þ.a.l. stundað fjölbreytta starfsemi, t.a.m. innflutning landbúnaðarafurða eða annan óskyldan rekstur, en ekki sé kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað framleiðendafélaga frá annarri starfsemi. Misræmi á milli lagatexta og annarra lögskýringargagna hafi valdið misskilningi og segir matvælaráðherra æskilegt að nefndarálit atvinnuveganefndar verði leiðrétt hvað þetta varði. Bent er á að undanþágurnar geti strítt gegn ákvæðum EES-samningsins.

Bent er á að Samkeppniseftirlitið, SKE, hafi sent matvælaráðuneytinu erindi þar sem bent er á að ákvæði laganna geti strítt gegn markmiðum samkeppnislaga og torveldað frjálsa samkeppni. Beinir SKE því til matvælaráðherra að hann beiti sér „fyrir því að lögin verði tekin til ítarlegrar skoðunar, áhrif þess á bændur og neytendur metin og viðeigandi breytingar gerðar,“ segir SKE í erindinu.

Framleiðendafélög munu skv. hinum nýsamþykktu lögum njóta víðtækra undanþága frá samkeppnislögum og er m.a. veitt sjálfdæmi um verðlagningu til bænda og smásala og neytenda þar með. Ekki sé gert ráð fyrir að annars konar aðhald komi í staðinn fyrir þá krafta samkeppninnar sem banni við samráði og eftirliti með samruna sé ætlað að veita. Ekki sé heldur gert ráð fyrir að bændur geti skapað aðhald í gegnum meirihlutaeignarhald eða stjórnun, segir í bréfi matvælaráðherrans. Hann nefnir einnig að SKE hafi lýst áhyggjum af hagsmunum bænda hvað varði afurðaverð, framþróun greinarinnar og hagsmunum neytenda.

„Ráðuneytið telur að æskilegt hefði verið að skoða hvort þörf væri á slíkum varnöglum við lagasetninguna til að gæta að hagsmunum bænda og neytenda,“ segir í bréfinu.

Spurð um hvort hún sé sammála efni bréfsins sagðist Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir ekki geta tjáð sig um það enda hafi hún ekki séð bréfið, en Mbl.is ræddi við hana við lyklaskipti í matvælaráðuneytinu. Kvaðst hún hafa verið í góðri trú þegar frumvarpið var samþykkt og engar áhyggjur hafa. Það yrði leyst sem leysa þyrfti.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson