Jimmy Torben Henrikson Sjøland fæddist í Hvidovre í Danmörku 8. september 1945. Hann lést 1. apríl 2024 á Landspítalanum.

Foreldrar hans voru Ingrid Ragna Schwerdtlegen og Henrik Oskar Henriksson Sjøland. Jimmy var einbirni.

Jimmy byrjaði að læra til rennismiðs á unga aldri en lauk aldrei námi því að hugur hans og leið lágu annað. Jimmy lauk herskyldu sem liðþjálfi í danska hernum og átti hann góð ár þar. Eftir herskyldu lærði hann og hóf störf hjá Nordic Film og vann þar við að framkalla filmur fyrir kvikmyndir. Árið 1968 kynntist Jimmy Lailu Björt Nimenen og gengu þau í hjónaband. Laila á tvö börn úr fyrra hjónabandi, Sigurð Héðin, f. 16.2. 1963 og Borgu, f. 18.8. 1965, Jimmy gekk þeim í föðurstað. Saman eignuðust þau Pétur Jónsson, f. 15.1. 1971. Sigurður á tvær dætur með Hildi Jónsdóttur, þau slitu samvistum 2002. 1) Anna Björt Sigurðardóttir, gift Halldóri Þór, eiga þau eina dóttur. 2) Hildur Ósk Sigurðardóttir. í sambúð með Jónasi Óla, Hildur Ósk á dóttur úr fyrra sambandi en saman eiga þau einn son. Sigurður er í sambúð með Elsu Guðmundsdóttur. Borga er gift Boga Sigurðssyni og eiga þau tvö börn. 1) Jón Auðunn, giftur Auði og eiga þau fjögur börn. 2) Þórhildur. Pétur er giftur Pernillu Larsen. Pétur á tvo syni úr fyrra hjónabandi. 1) Kristian Ellgaard Jonsson. 2) Andreas Ellgaard Jonsson.

Árið 1972 flytjast Jimmy og Laila búferlum frá Danmörku til Íslands. Leiðir þeirra skildi árið 1975. Jimmy hóf störf hjá Ríkissjónvarpinu árið 1972 sem framkallari, gerðist svo klippari og vann sig upp í tæknistjóra sjónvarpsfrétta hjá Ríkissjónvarpinu. Hann vann sem tæknistjóri Ríkissjónvarpsins til 2005. Hans helstu áhugamál voru fluguveiði, fluguhnýtingar og skotveiði ásamt garðyrkju og eldamennsku. Hans ær og kýr og griðastaður var Norðurá í Borgarfirði og undi hann sér best á vorin í samneyti með vinum sínum í sjálfboðastarfi fyrir Norðurá á vegum Norðurárnefndarinnar. Norðurárnefndin og aðrir fjölskyldumeðlimir nutu góðs af hugmyndaauðgi hans við lausnir á sérstökum verkefnum og hversu mikill þúsundþjalasmiður hann var. Var hann virkur félagsmaður í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur og var hann í skemmtinefnd félagsins til nokkurra ára.

Jimmy var vinamargur. Naut hann sín í faðmi félaga sinna við veiðar og aðrar árlegar uppákomur svo sem „julefrukost“ og síldarveislurnar á bökkum Norðurár sem voru árlegir viðburðir í lífi félaganna.

Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 11. apríl 2024, klukkan 13.

Jæja gamli minn, þá eru farinn og fórst aðeins of fljótt að mínu mati því það var svo margt sem við áttum eftir að gera, en svona getur þetta verið. Þú varst mér svo mikil fyrirmynd í mörgu og studdir mig í svo mörgu.

Í raun veit ég ekki hvar á ég að byrja því það er svo margs að minnast. Okkar mestu gæðastundir voru fimmtudagskvöldin hjá þér. Matur hjá þér var oftast danskt rúgbrauð með áleggi, soðin egg, frikkadellur, kaldar kartöflur með mæjó og steiktum lauk, makrílsalat, heit lifrarkæfa og margt annað sem við útveguðum okkur á borð allsnægtanna. Allar umræðurnar sem við áttum um veiðar og hnýtingar og hvað við vorum að velta fyrir okkur eftir matinn gæti fyllt heilu bækurnar. Hvatningin sem ég fékk frá þér og umhyggjan gagnvart svo mörgu sem við vorum að gera á líðandi stundu, hjálpin við að láta draumana rætast á einn eða annan hátt, því seint verður sagt að þú hafir ekki verið hjálpsamur. Þú varst sannur vinur vina þinna og barst umhyggju fyrir þeim.

Þú kenndir mér að hnýta og í raun má segja að þú hafir búið til grunninn að því sem ég er í dag og verður þín alltaf minnst fyrir það, elsku gamli minn. Kenndir mér einnig að veiða á flugu og opnaðir þar með þann heim sem varð að lífsstílnum mínum og allt mitt líf snýst um í dag.

Það sem ég er heppinn að hafa átt þig að í gegnum tíðina. Elsku besti pabbi minn, þín verður alltaf minnst sem stoðar minnar og styttu. Brotthvarf þitt er þyngra en tárum taki og söknuðurinn er sár og það verður að segjast að skarð þitt verður erfitt að fylla.

Mér finnst ég varla heill né hálfur maður

og heldur ósjálfbjarga, því er verr.

Ef værir þú hjá mér vildi ég glaður

verða betri en ég er.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Þetta vers lýsir því best hvernig mér líður á þessari stundu og hvað þetta er mér þungbært að þú hafir kvatt okkur elsku pabbi minn.

Umhyggja þín gagnvart því sem þér þótti vænt um var takmarkalaus, þú elskaðir Norðurá og það var svo gaman að sjá þegar líða tók að vori hvernig þú lifnaðir allur við. Fylltist tilhlökkun að fara upp eftir og vinna með vinum þínum í Norðurárnefndinni, allt stússið við að redda hinu og þessu fyrir ána þína.

Ég get ekki lýst umhyggju þinni fyrir barnabarnabörnunum, þeim Adríönnu Ósk, Jónasi Rafni og Lilju Björt, þegar stelpurnar okkar, þær Anna Björt og Hildur Ósk, kíktu í heimsókn til þín með þau. Hvort sem það var í sunnudagskaffi með stuttum fyrirvara þegar þér þótti of langt um liðið síðan þú hafðir séð þau eða til að tína grænmetið eða jarðarberin úr garðinum þínum sem þú ræktaðir af alúð.

Þú trúir því ekki hvað það er sárt að þú skulir ekki hafa tekið mig með í þína hinstu veiðiferð en þannig haga örlögin því sem við fáum ekki ráðið, því örlagalækir streyma að örlagaósi. Ég vona að þú finnir hylinn þinn í sumarlandinu og rennir einum Haug yfir hylinn og neglir vænan hæng. Ég vona að þú njótir þín við veiðarnar þínar, elsku pabbi minn.

Þinn

Sigurður Héðinn (Siggi).

Elsku yndislegi afi okkar.

Ósköp venjulegur sunnudagur. Um leið og við göngum fyrir hornið og niður tröppurnar mætir okkur kanillykt ásamt steikingarlykt. Afi er auðvitað búinn að baka eitthvað gott með kaffinu, nema það var sjaldan drukkið kaffi í Grundó; Coke Zero, blár Kristall, heitt súkkulaði og auðvitað Pepsi Max fyrir Dóra. Þú varst svo oft að prófa þig áfram með eitthvert nýtt danskt bakkelsi og við vorum að vinna í því að gera langbestu eplaskífurnar sem til eru. Svo var það smörrebrauðið, brauð úr bakaríinu í Grímsbæ með kartöflum, majonesi, graslauk, salti og pipar. Það þótti þér sko gott. Það var alltaf til eitthvað gott að borða hjá afa þar sem hann var mesti sælkerinn. Nammi úti um allt og okkur þótti það alls ekki leiðinlegt.

Þú passaðir upp á að eiga alltaf nýjustu Disney-spólurnar fyrir okkur þegar við vorum litlar. Það var mikið sport að koma í heimsókn til afa Jims og fá að horfa á þær, aftur og aftur. Við horfðum á þær saman inni í stofunni þinni í grænu afastólunum þínum og eru það einar af okkar mörgu gæðastundum. Þú varst sá sem lifðir þig hvað mest inn í Disney-myndirnar og oftar en ekki felldirðu tár yfir boðskap myndanna, sem lýsir því hversu viðkvæmur og góður þú varst.

Þú varst einstakur afi. Alltaf svo blíður, með hlýjustu nærveruna, stærsta faðminn, fallegasta brosið og mýkstu bumbuna sem gott var að kúra og sofa á. Við systur og fjölskyldur okkar áttum alltaf athvarf hjá þér og vorum alltaf velkomin. Þú sást ekki sólina fyrir barnabarnabörnunum þínum. Þú lýstist allur upp og ljómaðir þegar þið hittust.

Síðustu tvö ár bættist í hópinn þinn og þú varst svo stoltur og hamingjusamur. Mættastur með bangsa og blóm handa þeim þegar við vorum nýkomnar heim af fæðingardeildinni til að bjóða nýjasta fjölskyldumeðliminn velkominn í fjölskylduna. Já þau voru sko ljósin þín.

Þið Adríana áttuð sérstakt samband og voruð miklir vinir. Þið gátuð dundað ykkur í fallega garðinum þínum tímunum saman, hvort sem það var að setja niður gulrætur og kartöflur eða taka þær upp, tína jarðarber og baunirnar sem þú elskaðir og ekki var verra að setjast niður og fá sér nýtínd jarðarber með rjóma og flórsykri, það elskuðuð þið. Hún undi sér vel að brasa með þér í garðinum, skoða hvað þið Rúnar voruð að bauka saman, hlusta á sögurnar þínar og forvitnast um hvaða verkefni væri næst á dagskrá hjá ykkur vinunum. Þú munt skilja eftir fallegar og góðar minningar í hjarta Adríönu þinnar og okkar allra.

Við verðum ævinlega þakklátar fyrir allar ómetanlegu stundirnar sem við áttum með þér. Þær voru sko margar, enda varstu gríðarlega stór partur af lífi okkar. Það verður skrítið að aðlagast nýjum raunveruleika þar sem afi er ekki til staðar því við þekkjum ekki lífið án þín og erum ekki búnar að meðtaka það að þú sért farinn yfir í sumarlandið. En við vitum að þér líður vel núna, situr við árbakkann með veiðistöngina þína, horfir á laxinn dansa í ánni og sólsetrið upp á sitt fegursta.

„Jeg elskar dig dullen min.“

Þínar afastelpur,

Anna Björt og
Hildur Ósk.

Elsku afi Jimmy.

Mér finnst svo skrýtið að þú sért farinn akkúrat núna. Mér þótti svo vænt um þig og allar góðu minningarnar, til dæmis í garðinum, að hjálpa að gera eplaskífur, brjóta hnetur úr hnetubrjótinum, horfa á DVD, og svo náðum við veiðiferð saman sem var svo gaman. Ég var líka alltaf svo spennt að koma og tína gulrætur, kartöflur og jarðarber. Ég man þegar þú varst búinn að gera fullt af mat og góðgæti, en svo komumst við að því að þú keyptir vitlaust hylki í rjómann sem var sóda-hylki og ég og mamma vorum bara: „Vá, hvað þetta er súrt og af hverju er gos í rjómanum?“ og við hlógum að þessu endalaust. Svo þegar ég mætti til þín, afi, þá sá ég alltaf seyðið bláa sem var í glugganum og var svo dularfullt og vísindalegt, mér fannst það svo spennandi og langaði alltaf að leika með það.

Takk, afi, fyrir allar góðu minningarnar, afi minn. Ég mun geyma þær alla mína tíð. Jeg elsker dig, dúllan mín.

Þín langafastelpa,

Adríana Ósk Kolbeinsdóttir

Jimmy Sjöland, félagsmaður númer 148 í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, er horfinn yfir í veiðilendur sumarlandsins.

Hann var öflugur félagsmaður og starfaði í sjálfboðaliðastarfi SVFR í tugi ára.

Í 66 ára sögu SVFR við Norðurá stóð hann sína plikt sem árnefndarmaður í 30 ár. Hann starfaði i skemmtinefnd Stangaveiðifélagsins í mörg ár og var alltaf boðinn og búinn til að aðstoða við barnadaga í Elliðaánum. Hann starfaði einnig í mörg ár sem leiðsögumaður á svæðum félagsins.

Jimmy lá ekki á þekkingu sinni á veiðiskap, hann var gjafmildur á ráð og miðlaði óspart af reynslu sinni og þekkingu. Þegar á veiðislóð kom kærði hann sig sjaldan um að byrja heldur eftirlét veiðifélögum sínum að hefja veiðar. Hann naut þess að vera í góðum félagsskap og lauk oft veiðum fyrr, til að geta setið á árbakkanum, virt fyrir sér lífið og tilveruna, þakklátur fyrir gjafir veiðigyðjunnar. Hann hafði líka gaman af því að taka myndir af félögum sínum við veiðar.

Það er ómetanlegt fyrir félagið að til séu menn eins og Jimmy, sem með sínu óeigingjarna starfi gerði gott félag betra. Hann var heiðraður árið 2013 þegar hann fékk silfurmerki félagsins fyrir starf sitt.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur kveður því félaga sinn með þakklæti fyrir vel unnin störf og lætur hér vísu fylgja með sem er eftir Ólaf Hauk Ólafsson veiðifélaga Jimmys.

Þessi vísa birtist í Veiðimanninum í apríl 1981:

Vor

Nú strýkur vorið vetrarsvefn úr augum

og veldur óróleik í mínum
taugum,

því ísa leysir inn til dals og heiða.

Þar ætla ég til löngu þráðra veiða.

Er silungar í fiskivötnum vaka

- ég veit, að einmitt þessir munu taka –

er lítil fró að liggja flatur heima

og láta sér þar nægja að dreyma, dreyma.

Úr fiskisælum hyl sig herðir strengur,

en hann skal ekki komast undan lengur,

því fallvötn öll í æðum mínum vaxa

við umhugsun um þunga, sterka laxa.

Sú dýrð, sem fljót míns lands og lygnur geyma,

í leynum hjarta míns á einnig heima.

Upp, upp mín sál, já upp til hárra heiða.

Mig hefur lengi dreymt að veiða og veiða.

(Ólafur Haukur Ólafsson)

F.h. Stangaveiðifélags Reykjavíkur,

Ragnheiður
Thorsteinsson.