Þing Á meðan Bjarni flutti ræðu var hann truflaður af mótmælanda. Forseti Alþingis sagði þá: „Gestir á bekkjunum verða að víkja af bekkjunum.“
Þing Á meðan Bjarni flutti ræðu var hann truflaður af mótmælanda. Forseti Alþingis sagði þá: „Gestir á bekkjunum verða að víkja af bekkjunum.“ — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Aðeins eitt mál var á dagskrá Alþingis í gær og var það yfirlýsing Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og umræður um hana. Bjarni sagði fjögur helstu málin vera efnahagsmál, útlendingamál, orkumál og örorkumál

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Aðeins eitt mál var á dagskrá Alþingis í gær og var það yfirlýsing Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og umræður um hana. Bjarni sagði fjögur helstu málin vera efnahagsmál, útlendingamál, orkumál og örorkumál.

„Áframhaldandi lækkun verðbólgu og þannig efnahagslegur stöðugleiki fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið verður leiðarljós okkar í allri okkar vinnu,“ sagði Bjarni.

Er Bjarni vék máli sínu að útlendingamálum heyrðust hróp og köll á Bjarna af þingpöllunum. Þar var mótmælandi mættur sem síðar var fjarlægður af þingvörðum.

„Ástandið eins og við höfum horft upp á undanfarin misseri er ósjálfbært og óásættanlegt. Stjórn á fjölda þeirra sem hingað sækja er forsenda þess að við getum tekið vel á móti þeim sem eiga rétt á að fá hér skjól,“ sagði Bjarni meðal annars um útlendingamálin. Hann hét því svo að orkuöflun yrði aukin á kjörtímabilinu og að virkjanaferlið yrði einfaldað.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna, sagði í ræðu sinni á Alþingi að tækifæri fælust í komu Svandísar Svavarsdóttur í innviðaráðuneytið fyrir vinstrimenn og umhverfisverndarsinna.

„Í fyrsta lagi þýðir þetta að húsnæðismál eru nú undir stjórn okkar og það skapar tækifæri til að efla félagslegar áherslur með það að markmiði að tryggja lágtekjuhópum þak yfir höfuðið á mannsæmandi verði,“ sagði Guðmundur.

Hann sagði jafnframt að í samgöngumálum yrði lögð áhersla á orkuskipti og að klára uppfærslu samgöngusáttmálans. Þá sagði hann að fullur kraftur yrði settur í borgarlínuna.

Stjórnarandstaðan beindi spjótum sínum að Bjarna og ríkisstjórninni. Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar sagði í ræðu sinni að þjóðin gerði kröfu um árangur sem þessi ríkisstjórn hefði ekki náð og myndi ekki ná án þess að breyta um stefnu.

„Þetta er sama fólkið með sömu stefnu í nýjum stólum,“ sagði Kristrún.