Elínborg Sturludóttir
Elínborg Sturludóttir
Biskup þarf að horfa á stóru myndina og nýta áhrifavald sitt til að móta hvernig kirkjulegri þjónustu verði best fyrir komið.

Elínborg Sturludóttir

Ekkert okkar hefur gleymt því hvernig lífið var í covidinu. Þegar við máttum ekki koma saman, ferðast á milli landshluta, heilsast eða faðmast. Við komumst líka mörg að því á þeim tíma hve gott það er að ganga með öðrum undir berum himni, jafnvel þótt við hefðum tvo metra á milli okkar. Við máttum nefnilega ganga hlið við hlið og ræða um það sem á okkur hvíldi.

Við reyndum hvað það er gott að vera utandyra og hvað það er ótrúlega stutt í fallega náttúru hvarvetna á höfuðborgarsvæðinu. Og við komumst líka að því að höfuðborgarsvæðið er ekki svo ýkja stórt! Það tekur ekki nema hluta úr degi að ganga frá Elliðavatni út í Gróttu og það eru engir fjallvegir eða óbrúaðar jökulár sem hindra för okkar. Og þegar sólroðin ský svífa yfir Esjunni og greiðfært er upp að steini er útsýni þaðan yfir allt Reykjavíkursvæðið, vestur á Snæfellsnes og langleiðina til Keflavíkur.

Fyrir biskup getur verið gagnlegt að ganga að stórum steinum, hvaðan hann hefur góða yfirsýn, af því að biskup þarf að horfa á stóru myndina en hann á ekki að vera einráður heldur alltaf vera í samtali við og hafa samráð við aðra.

Biskup þarf nefnilega að sjá vel og hafa á því skoðun hvernig kirkjulegri þjónustu verði best fyrir komið í borg og bæ og nýta áhrifavald sitt þannig að mannauðurinn sem kirkjan býr yfir verði sem best nýttur.

Nú stendur biskupskjör fyrir dyrum og því vil ég nota þetta tækifæri til að segja þér, sem þetta lest, í örstuttu máli frá mér og þeirri sýn sem ég hef á hlutverk biskups Íslands.

Verði ég kjörin biskup Íslands mun ég:

Hlúa að einingu og friði í lífi þjóðkirkjunnar, milli leikra og lærðra, höfuðborgar og dreifbýlis.

Styrkja stöðu safnaðanna með því að ganga eftir því að sóknargjaldalögin verði fest í sessi og fjárhagur safnaðanna þar með treystur.

Efla og standa vörð um vandaða stjórnsýslu og faglega leiðsögn með sanngjarnri og ábyrgri stjórnun.

Auka hlut fræðslu, kennslu og boðunar á vegum kirkjunnar fyrir fólk á öllum aldri.

Móta frekar samskiptastefnu þjóðkirkjunnar og ydda áherslur og nálgun sem kemur boðskap kristinnar trúar á framfæri í fjölmenningarsamfélagi dagsins.

Standa vörð um og efla kærleiksþjónustu kirkjunnar í söfnuðum og Hjálparstarfi kirkjunnar.

Styðja við nýjungar, fjölbreytni og endurnýjun í helgihaldi kirkjunnar.

Ganga til góðs með prestum, próföstum, djáknum og öðru trúnaðarfólki þjóðkirkjunnar um allt land.

Tala til íslensku þjóðarinnar á stórum stundum og vera talsmaður kristinna lífsgilda í samfélagsumræðunni.

Ísland er ekki einsleitt samfélag og í því umhverfi þarf þjóðkirkjan að finna sér stað. Í breyttu samfélagi er kirkjan á vegferð, vegurinn breytist og samferðamenn okkar eru ekki alltaf hinir sömu. En við eigum samfélag og göngum hlið við hlið og þannig verða áhyggjur okkar léttari og gleðin meiri. Við horfum til framtíðar, tökum arfleifðina með okkur – og tölum um hana á þann hátt sem samtíminn skilur og þarfnast.

Biskup Íslands er fyrst og fremst trúarlegur leiðtogi, sem prédikar og leiðir bænalíf og kærleiksþjónustu þess samfélags sem þjóðkirkjan er. Biskup þarf að bera gæfu til að eiga gott og uppbyggilegt samstarf við aðra leiðtoga þjóðkirkjunnar. Örugg boðun í trú og gleði, með vandaðri stjórnun, verður mín nálgun sem biskup Íslands.

Höfundur þjónar við Dómkirkjuna í Reykjavík og er í framboði til embættis biskups Íslands.