Orkuveitan Krafist er 6 milljarða arðs, þrátt fyrir lakari afkomu.
Orkuveitan Krafist er 6 milljarða arðs, þrátt fyrir lakari afkomu. — Morgunblaðið/RAX
„Þarna er rík krafa frá eiganda um að notfæra sér mikilvægt innviðafyrirtæki borgarinnar sem einhvers konar óþrjótandi botnlausan sparibauk, þegar illa árar í rekstri borgarinnar. Það blasir við að eðlilegra væri að hagræða í rekstrinum, grípa …

„Þarna er rík krafa frá eiganda um að notfæra sér mikilvægt innviðafyrirtæki borgarinnar sem einhvers konar óþrjótandi botnlausan sparibauk, þegar illa árar í rekstri borgarinnar. Það blasir við að eðlilegra væri að hagræða í rekstrinum, grípa í taumana og horfast í augu við eigin mistök í rekstri borgarinnar,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

Tillögu frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins um að fallið verði frá 6 milljarða arðgreiðslukröfu á Orkuveitu Reykjavíkur var frestað á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn, en krafan hljóðar upp á nær sömu fjárhæð og nemur öllum hagnaði fyrirtækisins á sl. ári, 6,4 milljörðum. Tillagan verður lögð fram á nýjan leik á fundi borgarráðs í dag.

Hildur segir að arðgreiðslukrafa á Orkuveituna sé óábyrg á tímum orkuskorts og mikils álags á bæði veitu- og orkuinnviði. Afkoma félagsins hafi verið töluvert lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir og dregist saman á milli ára. Fyrirhugaðar fjárfestingar árin 2024 til 2028 nemi 229 milljörðum, í mikilvægum innviðum samfélagsins. Hvorki afkoma Orkuveitunnar né kjör á fjármagnsmörkuðum gefi tilefni til að greiða svo ríflegan arð, hvað þá með hliðsjón af hinni gríðarlegu innviðauppbyggingu sem í vændum sé. Jafnvel þótt eigendur Orkuveitunnar, sem er í eigu Reykjavíkurborgar að nær öllu leyti, vilji njóta ávöxtunar þess fjár sem bundið er í rekstri samstæðunnar, sé eðlilegt að slík sjónarmið víki fyrir þeim mikilvægu hagsmunum sem borgarbúar eigi undir traustum innviðum.