Guðrún Steina Gamalíelsdóttir fæddist 19. ágúst 1937 á Stað í Grindavík. Hún lést á HSS í Reykjanesbæ 22. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Gamalíel Guðmundur Jónsson, f. 28.11. 1908, d. 4.3. 1964 og Guðríður Bjarney Guðbrandsdóttir. f. 26.3. 1912, d. 27.8. 1959.

Guðrún var næstelst fimm systkina, elstur var Ólafur Ketils, svo Agnes Jóna, næstur var Kristinn Valberg og yngstur er Helgi.

Eiginmaður Guðrúnar var Jakob Eyfjörð Jónsson, f. 25.7. 1934 frá Finnastöðum við Grenivík. Hann lést 31. október 2015. Guðrún og Jakob giftust 31. mars 1956 og eignuðust fjögur börn sem eru:

1) Sveinn Eyfjörð, f. 27.9. 1956, eiginkona hans er Auður Guðrún Ármannsdóttir, f. 12.6. 1956 og eiga þau tvö börn, sex barnabörn og eitt langömmubarn.

2) Elísa Eyfjörð, f. 11.7. 1958, frumburður hennar er Davíð Arthur og gekk Jakob honum í föðurstað, eiginmaður hennar er Jim Andersen, f. 29.5. 1960 og eiga þau fjögur börn og ellefu barnabörn.

3) Jakob Guðmann, f. 16.3. 1964, eiginkona hans er Þorbjörg Eðvarðsdóttir, f. 20.6. 1968, og eiga þau þrjár dætur.

4) Gunnsteinn Agnar, f. 30.1. 1973, sambýliskona hans er Ingibjörg Þórhallsdóttir, f. 27.9. 1973 og eiga þau tvö börn og þrjú barnabörn.

Guðrún verður jarðsungin frá Kirkjuvogskirkju í Höfnum í dag, 11. apríl 2024, kl. 11.

Amma Gunna á Stað.

Í dag kveð ég ekki einungis ömmu mína heldur mína kæru vinkonu líka.

Amma var jákvæð, lífsglöð og kaus alltaf að sjá glasið hálffullt í stað þess að sjá það hálftómt.

Í barnæsku var ekkert betra en að kíkja við á Túngötunni hjá henni og afa eftir skóla, fá sér ristað brauð með súkkulaði og horfa á Cartoon Network. Taka rúnt með henni og afa um Grindavík og voru sögurnar um golfvöllinn og Stað það sem stóð upp úr.

Það var ótrúlega ánægjulegt þegar þau fluttu svo á Litluvellina, þá þurftum við systurnar bara að hoppa yfir götuna í heimsókn. Pasta, grjónagrautur og pönnsur var það besta sem maður fékk og ófáar stundirnar sem ég dundaði mér með ömmu í saumaherberginu.

Amma var handverkskona af guðs náð og áhugi minn á saumi og prjóni kemur frá henni. Það var ómetanlegt að deila þessu áhugamáli með henni og áttum við ófáar stundir að ræða um hvað væri á prjónunum og prjónafestu í hinu ýmsa garni.

Amma var alltaf okkar helsta stuðningskona í öllu sem við barnabörnin tókum okkur fyrir hendur. Hún var mætt á fremsta bekk að fylgjast með því sem var í gangi. Ég man hvað hún var ánægð þegar ég sagði henni að ég væri að fara að bjóða mig fram til þess að taka þátt í bæjarmálunum í Grindavík og við unga fólkið hefðum stofnað flokk. Hún var svo stolt að sjá hvað ungt fólk hefði mikinn áhuga á málefnum bæjarins og að við vildum hafa áhrif. Amma var kona sem þakkaði alltaf svo innilega fyrir símtöl og heimsóknir. Það var ekkert betra en að koma við í Víðihlíð hjá henni eftir erfiðan dag eða fund og ræða málin og spegla við hana. Hún kom alltaf með góða sýn á hlutina og manni leið alltaf vel eftir samtölin við ömmu.

Elsku amma, ég trúi því ekki enn að þú sért farin. Ég veit að afi og Nala taka vel á móti þér og þvílíka gleðin sem verður þar. Það var mjög táknrænt þegar við sóttum dótið þitt og ég tók prjónakörfuna þína og í botninum var stefnuskrá Raddar unga fólksins. Ég lofa þér því að við munum passa Grindavík og ég lofa þér að ég mun halda fast í prjónaskapinn áfram.

Þín ömmustelpa – alltaf,

Helga Dís.