[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Endurgreiðslukerfi í kvikmyndaframleiðslu hefur skilað umtalsverðri efnahagslegri arðsemi á Íslandi á síðustu árum. Þetta er niðurstaða úttektar breska ráðgjafarfyrirtækisins Olsberg SPI um efnahagslegan ávinning af íslenska kvikmyndaendurgreiðslukerfinu. Úttektin var kynnt á ráðstefnu í Hörpu í liðinni viku undir yfirskriftinni Aukum verðmætasköpun í kvikmyndagerð á Íslandi til framtíðar.

Það var Jonathan Olsberg sem kynnti úttektina en hann er sagður vera meðal fremstu sérfræðinga í efnahagslegum ávinningi af kvikmyndagerð og hefur góðan samanburð við önnur lönd í gegnum störf sín. Á heimasíðu fyrirtækisins má sjá að það hefur á liðnum árum unnið viðlíka greiningar í Oakland, Illinois, Mexíkó og á Fídjíeyjum svo nokkur dæmi séu nefnd. Skýrslan er um 50 síður og er birt í heild sinni á vef menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Þar er einnig að finna samantekt á helstu niðurstöðum á íslensku.

Hver króna nær sjöfaldist

Endurgreiðslukerfið hefur verið umdeilt í þann aldarfjórðung sem það hefur verið hér við lýði. Lög um endurgreiðslur til kvikmyndagerðar tóku fyrst gildi árið 1999 en þá var endurgreiðsluhlutfallið 12%. Fyrsta endurgreiðslan fór fram árið 2001. Hlutfallið var hækkað í 14% árið 2006 og í 20% árið 2009. Árið 2016 var hlutfallið hækkað í 25% og árið 2022 í 35%, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um stærð verkefna.

Í fyrri umfjöllunum Morgunblaðsins um endurgreiðslukerfið hefur verið vísað í að erlendar rannsóknir sýni að arðsemisáhrif af kvikmyndaverkefnum séu mjög sterk. Á Írlandi sé til að mynda gengið út frá því að arðsemisstuðullinn sé fjórir. Hver evra sem kemur inn verði að fjórum í hagkerfinu. Úttekt Olsberg SPI leiðir í ljós að jafnvel enn meiri arðsemi hafi verið síðustu ár. „Á árunum 2019-2022 var vergur virðisauki (e. Gross Value Added/GVA) hverrar krónu sem fór í gegnum endurgreiðslukerfið 6,8 krónur sem leiðir af sér að fyrir hverja krónu sem fór í gegnum endurgreiðslukerfið var ávinningurinn fyrir íslenskt efnahagslíf 6,8 krónur miðað við bein, óbein og afleidd áhrif,“ segir í samantektinni.

SPI áætlar að á tímabilinu 2019 til 2022 hafi á bilinu 9,7-28,9 milljörðum króna verið varið á Íslandi á hverju ári vegna endurgreiðsluhæfra framleiðsluverkefna í kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð. Fullyrt er að 86% útgjaldanna hefðu ekki átt sér stað á Íslandi ef ekkert endurgreiðslukerfi væri fyrir hendi. Efnahagsleg umsvif kvikmynda- og sjónvarpsverkefna sem hlutu endurgreiðslur á sama tímabili eru metin á 238 milljarða króna.

„Á árunum 2019-2022 skiluðu endurgreiðsluhæf kvikmynda- og sjónvarpsverkefni 18,8 milljörðum króna í beinum vergum virðisauka (e. gross value added), 22,8 milljörðum króna í óbeinum og 41,2 milljörðum króna í afleiddum vergum virðisauka – samtals 82,7 milljörðum króna í aukinni verðmætasköpun,“ segir enn fremur í samantekt.

Hafi skapað fjölmörg störf

Þá er rakið hversu mörg störf hafi skapast af þessum sökum. Á árinu 2022 er áætlað að bein störf við endurgreiðsluhæf verkefni hafi verið 890. Um 1.480 óbein störf hafi notið góðs af endurgreiðslukerfinu og 1.830 afleidd störf.

Í úttektinni kemur jafnframt fram að endurgreiðslan skili ávinningi fyrir ýmsa aðra geira efnahagslífsins. Vísað er til greiningar á útgjöldum í umfangsmiklu sjónvarpsþáttaverkefni sem tekið var upp hér, væntanlega True Detective þó nafnið komi ekki fram, sem sýni að 70% af framleiðsluútgjöldum verkefnisins dreifðust yfir ýmsar aðrar atvinnugreinar en beina framleiðslutengda kvikmyndaþjónustu. „Endurgreiðslukerfið hefur stuðlað að því að fleiri framleiðsluverkefni voru tekin upp á Íslandi, sem leitt hefur til aukins áhuga á landinu – sem hefur haft jákvæð áhrif á ímynd landsins og ferðaþjónustuiðnaðinn sem heild.“

Að síðustu er þess getið að of snemmt sé að meta áhrif af hækkun endurgreiðsluhlutfalls í 35%. Ljóst sé þó að það skapi tækifæri til að festa Ísland í sessi sem eftirsóttan tökustað í kvikmyndaframleiðslu á heimsvísu enda skapist tækifæri til að taka þátt í umfangsmeiri og verðmætari þáttum í framleiðsluferlinu en áður.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon